Áhrif hnattrænnar hlýnunar

Fyrir nokkru kom út leiðarvísirinn Efasemdir um hnattræna hlýnun – Hinn vísindalegi leiðarvísir. Hér er einn kafli hans.

Áhrif hnattrænnar hlýnunar

Ef halda á því fram að hnattræn hlýnun sé góð, þarf að loka augunum fyrir neikvæðum áhrifum hennar. Ein af algengustu rökunum er að CO2 sé „fæða planta“ og aukin losun á CO2 sé því af hinu góða. Þau rök hundsa þá staðreynd að plöntur þurfa meira en CO2 til að lifa af. „Áburðaráhrif CO2“ eru takmörkuð og verða fljótlega yfirgnæfð af neikvæðum áhrifum aukins varmaálags og tíðari þurrka í framtíðinni [48,49]. Undanfarna öld hafa alvarlegir þurrkar aukist hnattrænt og er búist við því meiri aukningu í framtíðinni [12]. Plöntur geta ekki nýtt sér aukið magn CO2 í lofthjúpnum ef þær eru að drepast úr þorsta [50].

Þurrkar í fortíð og framtíð með vísitölu Palmers um alvarleika þurrka. Blá litbrigði þýða blautar aðstæður og rauð þýða þurrka. Talan -4 eða lægri bendir til mjög alvarlegra þurrka (51)

Margar af afleiðingum hnattrænnar hlýnunar hafa engar jákvæðar hliðar. Milli 18 og 53% núlifandi plantna- og dýrategunda gætu verið í útrýmingarhættu fyrir árið 2050 [52]. Úthöfin gleypa í sig mikið af CO2 úr lofthjúpnum, sem veldur súrnun sjávar [53]. Það er talið munu hafa mikla röskun í för með sér fyrir alla fæðukeðju sjávar, til viðbótar við þau neikvæðu áhrif sem bleiking af völdum hlýnunar sjávar veldur [54]. Það er áætlað að um það bil einn milljarður manna reiði sig á sjóinn fyrir töluverðan hluta (>30%) þeirra próteina sem þeir fá úr fæðu [55].

Við hörfun jökla og minnkandi snjó í fjöllum minnkar einnig vatnsforði milljóna manna sem treysta á þann ferskvatnsforða, sérstaklega sem áveitu í landbúnaði [33]. Svipað er upp á teningnum ef skoðaðar eru sjávarstöðubreytingar og aukin tíðni sjávarflóða, en það getur haft áhrif á milljónir manna á þessari öld þegar selta eykst í hrísgrjónaökrum, fljótum og brunnum þannig að milljónir manna gætu þurft að flytja sig um set. Þeir flutningar gætu aftur orðið til þess að auka hættu á átökum [56].

Þegar einhver segir að hnattræn hlýnun sé góð og bendir á staðbundin jákvæð áhrif, er vert að hafa í huga að flest bendir til þess að í heildina verði neikvæðu áhrifin mun meiri en þau jákvæðu.

Við kíkjum á næsta kafla af Efasemdir um hnattræna hlýnun – Hinn vísindalegi leiðarvísir  síðar.

Heimildir og ítarefni

12. IPCC 2007:  The Physical Science Basis.

33. Immerzeel o.fl. 2010: Climate change will affect the Asian water towers.

48. Challinor o.fl. 2010: Increased crop failure due to climate change: assessing adaptation options using models and socio-economic data for wheat in China.

49. Tubiello o.fl.2007: Crop and pasture response to climate change.

50. Zhao og Running 2010: Drought-Induced Reduction in Global Terrestrial Net Primary Production from 2000 Through 2009.

51. University Corporation for Atmospheric Research.

52. Thomas o.fl. 2004: Extinction risk from climate change.

53. Hoegh-Guldberg o.fl. 2007: Coral Reefs Under Rapid Climate Change and Ocean Acidification.

54. Hoegh-Guldberg og Bruno 2010 (ágrip): Impacts of climate change on the world’s marine ecosystems.

55. Tibbets, J. (2004). The State of the Oceans, Part 1. Eating Away at a Global Food Source.

56. Dasgupta o.fl. 2007: The impact of sea-level rise on developing countries: a comparative analysis, World Bank Policy Research Working Paper No 4136.

Tengt efni á loftslag.is

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál