2011 – hið heita La Nina ár

Hnattrænn hiti fyrir árið 2011 mun að öllum líkindum verða í tíunda sæti frá því mælingar hófust, samkvæmt bráðabirgðamati Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO). Árið er að vísu ekki búið, en ef áfram heldur sem horfir þegar tölur fyrir nóvember og desember verða komnar í höfn, þá þýðir það að þrettán heitustu árin frá því mælingar hófust hafa orðið síðustu 15 árin.

Árið í fyrra var, samkvæmt flestum hitaröðum, jafnt og heitasta árið  samkvæmt mælingum. Árið í ár mun sýna lægri tölur en í fyrra – en við því var að búast (sjá t.d. pælingar loftslag.is og lesenda frá því síðasta vetur, t.d. í athugasemdum – Náttúrulegur breytileiki og horfur fyrir árið 2011).  Eins og sjá má, þá voru flestir á því að það myndi kólna mun meir en útlit er fyrir núna – það má því segja að hin hnattræna hlýnun af mannavöldum sé í raun sterkari partur loftslagsbreytinga en margur heldur.

Mikill hluti þessa árs hefur sterk La Nina haft áhrif á loftslag jarðar – sú öflugasta í 60 ár. La Nina, sem er partur af náttúrulegri sveiflu í Kyrrahafinu (ENSO -El Nino), einkennist af því að stórt svæði Kyrrahafsins hefur óvenjulega kaldan yfirborðshita sjávar nálægt miðbaug. Sú sveifla hefur áhrif á loftslag hnattrænt með því að hafa áhrif á loft-og sjávarstrauma. Áhrifa La Nina hefur t.d. aukið á þurrkana í Texas og haft áhrif á hina óvenjumiklu úrkomu sem verið hefur í austur Ástralíu og suður Asíu á þessu ári.

Frávik í hitastigi jarðar og samband þess við La Nina ár (blá) samanborið við önnur ár (rauð). Mynd WMO.

Samkvæmt WMO, þá er hnattrænt hitastig La Nina ára venjulega  um 0,10-0,15°C lægra en árin á undan og eftir.  2011 fylgir þessu mynstri en er jafnframt heitasta La Nina ár síðan mælingar hófust. Myndin hér að ofan sýnir það greinilega. Svo virðist sem leitni hinnar hnattrænu hlýnunar af mannavöldum sé orðin það sterk að óvenjusterk La Nina nær ekki að lækka hitastig jarðar hnattrænt af ráði.

Heimildir og ítarefni

Bráðabirgðamat Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar fyrir árið 2011.

Fréttatilkynning Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar.

Tengt efni á loftslag.is

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál