Hafís Norðurskautsins síðastliðin 1450 ár

Nákvæm gögn eru söfnuð um útbreiðslu hafíss síðastliðin rúm 30 ár byggð á gervihnattagögnum, en auk þess eru nothæfar upplýsingar til um útbreiðslu hafíss síðustu öld, byggt á upplýsingum frá skipum og flugvélum. Gögnin sýna greinilega að bráðnunin undanfarna áratugi er mun meiri en öldina þar á undan. Nýleg greining á þeirri þekkingu sem til er um hafís Norðurskautsins (Polyak o.fl. 2010), bendir til þess að bráðnun hafíss nú sé meiri en verið hefur síðastliðin nokkur þúsund ár og ekki hægt að útskýra með náttúrulegum breytileika.

Nú nýlega kom síðan út grein um ástand hafíssins á Norðurskautinu. Þar er ítarleg greining á þeim vísum (e. proxys) sem til eru um útbreiðslu hafíss síðastliðin 1450 ár (sjá Kinnard o.fl. 2011).

Kinnard og félagar söfnuðu saman 69 gagnasettum sem vísa í útbreiðslu hafíss á Norðurskautinu, ýmist beint eða óbeint. Mest voru notaðir borkjarnar í jökulís, en einnig trjáhringjarannsóknir, vatnaset og söguleg gögn þar sem minnst var á hafís. Mikið af vísunum geyma vísbendingar eða merki sem eru önnur en frá útbreiðslu hafíss – þá sérstaklega hitastig – en tölfræðilega greiningin sem notuð er veitir höfundum möguleika á að einangra frá breytileika í gögnunum sem þá er frábrugðinn hitamerkinu.

Sú tölfræðilega greining sýndi góða fylgni við hafísútbreiðslu síðsumars (ágúst), bæði fyrir allt Norðurskautið sem og fyrir gögn sem tengdust sérstaklega hafisútbreiðslu við Rússland. Samkvæmt greiningunni þá voru gögnin nægilega nákvæm til að áætla um útbreiðslu hafíss síðastliðin 1450 ár.

Áhugavert er að skoða útlit línuritsins, en glöggir lesendur loftslag.is kannast kannski við útlitið – en það minnir mjög á hokkíkylfur sem orðnar eru fjölmargar (sjá Hokkíkylfa eða hokkídeild?).

 

Meiri óvissa er eftir því sem farið er lengra aftur í tíman – þá aðallega vegna þess að þau gögn sem nothæf eru fækkar. Engu að síður er augljóst að í lok tuttugustu aldar er niðursveiflan fordæmalaus – allavega síðastliðin 1450 ár – bæði hvað varðar magn og lengd tímabils.

Heimildir og ítarefni

Byggt á umfjöllun Tamino í Open Mind: 1400+Years of Arctic Ice

Greinin birtist í Nature, Kinnard o.fl. 2011 (ágrip): Reconstructed changes in Arctic sea ice over the past 1,450 years

Yfirlitsgreinin um sögu hafíss birtist í Quaternary Science Review, Polyak o.fl. 2010: History of sea ice in the Arctic

Tengt efni á loftslag.is

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál