Síðustu viku hafa komið út tvær áhugaverðar greinar um hitastig jarðar. Annars vegar í Environmental Research Letters (Foster og Rahmstorf 2011) og hins vegar grein í Nature Geoscience (Huber og Knutti 2011). Báðar fjalla að einhverju leyti um hlut manna í loftslagsbreytingum samanborið við hinar náttúrulegu breytingar og sýna að hin hnattræna hlýnun heldur áfram, af mannavöldum.
Í rannsókn Foster og Rahmstorf voru greindar fimm leiðandi hitaraðir frá árunum 1979 til 2010 og náttúrulegar skammtímasveiflur teknar í burt: El Nino sveiflan, eldvirkni og virkni sólar. Með því að taka í burt þessar þekktu skammtímasveiflur, þá sýndu þeir fram á að hinn hnattræni hiti hefur aukist um 0,5°C síðastliðin 30 ár. Allar hitaraðrinar sýndu 2009 og 2010 sem tvö heitustu árin. Ef tekið var meðaltal allra hitaraðanna þá reyndist 2010 heitasta árið.
Í rannsókn Huber og Knutti kemur fram að náttúrulegur breytileiki hafi í mesta lagi haft um fjórðungs áhrif á hlýninina síðastliðin 60 ár. Samkvæmt rannsókninni þá eru a.m.k. um 74% af hlýnuninni af mannavöldum. Til að greina frá merki náttúrulegrar hlýnunar og mannlegrar, þá greindu vísindamennrirnir jafnvægi eða breytingar í flæði orku inn og út úr lofthjúpi jarðar – með nýrri aðferð til að greina frá þetta merki.
Samkvæmt þessari greiningu þá hefur gróðurhúsalofttegundin CO2 hitað jörðina um 0,85°C frá því um miðja síðustu öld – en það er nokkuð meira en hefur hlýnað (hlýnunin er um 0,5°C). Á móti koma kælandi áhrif frá örðum og náttúrulegum ferlum.
Þessar tvær rannsóknir sýna okkur annars vegar að hin hnattræna hlýnun heldur áfram og hins vegar sýna þær að hlýnunin undanfarna áratugi er að mestu leyti manngerð, þá vegna aukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið.
Heimildir og ítarefni
Foster og Rahmstorf 2011: Global temperature evolution 1979–2010
Ítarlegar umfjallanir um greinina má finna hjá Grant Foster sjálfum (Tamino), sjá: The Real Global Warming Signal og hjá NewScientist, sjá: No, global warming hasn’t stopped
Huber og Knutti 2011 (ágrip): Anthropogenic and natural warming inferred from changes in Earth’s energy balance
Ítarlegar umfjallanir um greinina má finna á heimasíðu Nature, sjá: Three-quarters of climate change is man-made og á heimasíðu The Carbon Brief, sjá: At least three-quarters of global temperature rise since the 1950s caused by humans
Tengt efni á loftslag.is
- Náttúrulegur breytileiki og horfur fyrir árið 2011
- Er hlýnunin af völdum innri breytileika?
- Tengsl El Nino og langtíma hlýnunar hrakin
- Eldgos og loftslagsbreytingar
- Við minni virkni sólar
- Er lítil ísöld eða kuldaskeið að skella á?
Leave a Reply