Um niðurstöðuna í Durban

Mjög jákvætt er að í Durban varð samkomulag um að þau ríki sem mest losa af gróðurhúsalofttegundum hefji á ný samningaviðræður um lagalega bindandi sáttmála.* Eftir loftslagsþing Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn fyrir tveimur árum virtust öll sund lokuð. Samningaviðræðum skal lokið fyrir 2015 en munu ekki hafa áhrif fyrr en eftir 2020, sem er of seint.

Einnig náðist samkomulag um framlengingu Kyoto-bókunarinnar en hvað það felur í sér fyrir þau ríki sem enn eiga aðild og hyggjast taka á sig skuldbindingar samkvæmt bókuninni er óljóst, Japan, Kanada og Rússland hafa nú sagt sig frá bókunni. Eftir eru Evrópa og Ástralía, Nýja Sjáland, auk þróunarríkja sem ekki taka á sig skuldbindingar líkt og bókunin kveður á um. Það er meginatriði að Kyoto-bókunin verður áfram grunnur að frekari samningagerð. Kyoto-bókunin eru einu alþjóðalögin sem í gildi eru um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum.

Þessi tvö atriði eru stór plús og umfram væntingar. Evrópusambandið hrósar sigri yfir að samkomulag náðist um að gera skuli lagalega bindandi samning innan fjögurra ára. Á hinn bóginn veit enginn hvernig sá samningur mun líta út og aftur unnu Bandaríkin því ákvæði fyrirhugaðs samnings um samdrátt í útstreymi gróðurhúsalofttegunda munu ekki taka gildi fyrr en eftir 2020.

Bandaríkin hafa frá upphafi hafnað Kyoto-bókuninni. Vissulega undirritaði Al Gore bókunina í Kyoto árið 1997 en frá sama tíma var ljóst að Öldungadeild þingsins myndi ekki fullgilda hana. Í besta falli var bandaríska stjórnkerfið klofið á þeim tíma. Frá því að Bush tók við völdum hafa Bandaríkin alfarið hafnað þeirri nálgun, sem felst í bókuninni, að iðnríkin beri sögulega langmesta ábyrgð á losun gróðurhúsalofttegunda og þeim beri því fyrst að draga úr losun og að engar slíkar kröfur verði gerðar til þróunarríkja fyrst um sinn. Þessi nálgun er í samræmi við 2. grein Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna frá 1992 („Sameiginleg en mismunandi ábyrgð ríkja“) og varð ein meginniðurstaða 1. aðildarþings samningsaaðila í Berlín þremur árum síðar. Séð frá þessu sjónarhorni má segja að fulltrúar Bandaríkjanna hafi náð fram markmiðum sínum í Durban.

Á fyrsta fundi aðildarríkja Loftslagssamningsins eftir að Barack Obama settist að í Hvíta húsinu vakti fulltrúi Bandaríkjanna, Todd Stern mikla lukku þegar hann sagði: “We’re back.” Engu að síður hafa Bandaríkin fylgt mjög svipaðri stefnu og Bush forseti mótaði. Helsti munurinn er e.t.v. sá að Hvíta húsið reynir ekki að draga í efa niðurstöður vísindamanna um orsakir og afleiðingar loftslagsbreytinga. Í Durban fóru fulltrúar Bandaríkjanna sér hægt en þæfðu mál og töfðu fyrir til að koma í veg fyrir nauðsynlegar aðgerðir. Hvort Obama forseti bætir ráð sitt nái hann kjöri á ný skal ósagt látið en innan umhverfisverndarhreyfingarinnar eru fáir sem meta hann mikils.

Þróunarríkin fagna sigri yfir að Kyoto-bókunin er enn í gildi, sú meginregla að iðnríkjunum beri skylda til að taka forustu um samdrátt í losun, skipti yfir í endurnýjanlega orku og að þau skuli veita fjármagn og tækniaðstoð til þróunarríkja.

Að óbreyttu stefnir í að hitastig andrúmsloftsins muni hækka um og yfir 3 gráður á Celcíus miðað við fyrir iðnbyltingu. Í Kaupmannahöfn náðist samkomulag um að halda skyldi meðalhitnun andrúmslofts jarðar innan við 2°C. Öll smá láglend eyríki telja 1,5°C hækkun vera hámark. Ella munu þau hverfa í sæ í fyrirsjáanlegri framtíð. Segja má að 2°C hækkun séu efri mörk þess sem vísindamenn telja að vistkerfi jarðar þoli með von um að ná jafnvægi á ný – eftir margar aldir. Skaðinn verður gífurlegur og nýlega kom út skýrsla Vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem sýnir skýr tengsl milli hækkandi hitastigs og öfga í veðurfari.

Enn er stórt bil á milli annars vegar þess samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda sem ríki hafa þegar skuldbundið sig til að koma í verk og hins vegar þess samdráttar sem er nauðsynlegur til að halda hlýnun andrúmsloftsins innan við 1,5 – 2°C. Þetta bil stækkar óðum og því verður að grípa aðgerða sem allra fyrst. Sjá skematískt yfirlit hér að neðan, en þar kemur þó ekki fram hvernig súrnunun sjávar eykst í hlutfalli við hækkandi hitastig þótt fram komi að kóralrif muni deyja út í Indlandshafi við 2°C hlýnun. Eftir Durban vitum við að stefnt er að lausn málsins með lagalega bindandi samningi þar sem öll ríki verða að taka á sig skuldbindingar. Slíkt samkomulag náðist fyrst í Kyoto fyrir 14 árum síðan, það er enn í gildi en kolefnisiðnaðinum í Bandaríkjunum hefur tekist að koma í veg fyrir að nái til alls heimsins. Nú er önnur tilraun og við vitum ekki hvort tekst að ná samkomulagi í tæka tíð.

Árni Finnsson.

www.climateactiontracker.org

Smellið tvisvar á myndina til að fá hana stærri - Heimild - www.climateactiontracker.org

 

*Indland hafnaði reyndar hugtakinu ‘legally binding’ en féllst á málamiðlun þess efnis að nýr samningur hefði ‘legal force’.

Athugasemdir

ummæli

About Árni Finnsson

Árni Finnsson - Formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands