Hinn hraði útdauði

Frá því fyrstu lífverur jarðar urðu til, fyrir um 3,8 milljörðum ára, þá hefur hurð skollið nærri hælum fyrir lífverur jarðar oftar en einu sinni. Á síðustu 500 milljón árum, þá hafa fimm sinnum orðið fjöldaútdauði lífvera (e. mass extinction). Þeir eru kallaðir af vísindamönnum Hinir fimm stóru (e. The Big Five).  Þeir urðu í lok Ordóvisían, lok Devon, á mörkum Perm og Trías, í lok Trías og svo Krít-Tertíer. Þar á meðal er útdauðinn sem flestir kannast við, fyrir um 65 milljón árum sem þurrkaði út risaeðlurnar (Krít-Tertíer). Flestir vísindamenn telja að sá útdauði hafi orðið vegna loftsteinaregns og afleiðinga þess. Hins vegar eru vísindamenn alls ekki sammála um það hvað olli mun alvarlegri útdauða löngu fyrir þann tíma.

Á mörkum Perm og Trías, fyrri um 252 milljónum árum síðan, þá þurrkaðist út um 90-95 % af öllu lífi jarðar, jafnt hjá lífverum á þurrlendi sem og hjá sjávardýrum. Hinn mikli dauði (e. The Great Dying), eins og hann er stundum kallaður var alvarlegastur allra fjöldaútdauða lífvera í sögu jarðar og líklega sá tími sem jarðlíf hefur komist næst því að þurrkast út – algjörlega. Tilgátur um ástæður útdauðans eru mikil eldvirkni, súrefnisþurrð sjávar og – sem þykir ólíklegt – árekstur loftsteina.

Þó ástæða þessara hamfara sé óljós, þá hefur rannsóknateymi (Shen o.fl. 2011) staðfest að útdauðinn gekk mjög hratt yfir eða á um 20 þúsund árum. Það er gríðarlega stutt tímabil á jarðfræðilegum skala.

Zirkon

Teymið rannsakaði meðal annars setlög í Meishan í suður Kína en þar er kalsksteinsnáma og talið að þar séu langbest varðveittu setlögin sem sýna mörk Perm og Trías. Greind voru leirsýni úr öskulögum ofan og neðan við mörkin og steindin zirkon einangrað úr lögunum. Hægt er að nota zirkon til að mæla aldur, en í þeirri steind finnast úraníumsamsætur og hlutfall þeirra breytist með aldrinum. Hlutfall úraníumsamsæta í zirkoni, segir því til um hversu langt er síðan zirkon-steindin varð til, við eldvirkni. Með því að greina um 300 zirkon-steindir, þá kom í ljós að aldursmunurinn á öskulögunum ofan og neðan við mörk Perm og Trías var einungis um 20 þúsund ár.

Talið er að þessar aldursgreiningar muni hjálpa til við að útskýra ástæður útdauðans, en vinsælasta útskýringin til þessa er hin mikla eldvirkni sem varð í Síberíu á svipuðum tíma. Með nákvæmari aldursgreiningum kemur vonandi í ljós hvort sú eldvirkni varð á nákvæmlega sama tíma.

Lega landmassa í lok Perm

Vísindamennirnir greindu einnig kolefnissamsætur í setbergi frá sama tímabili og kom í ljós að styrkur CO2 í andrúmsloftinu og úthöfunum jókst gríðarlega sem varð þess valdandi að lífverur á landi og í sjó dóu út. Óljóst er hvaðan þetta CO2 kom og er það ein af ráðgátunum sem eftir er að leysa varðandi útdauðann á Perm-Trías.

Útreikningar benda til þess að styrkaukningin þá, hafi verið lítillega hægari en sú styrkaukning sem er að verða nú af völdum losunar manna á CO2 – sem er mest vegna bruna jarðefnaeldsneytis. Þessi styrkaukning virðist hafa leitt til mikillar hnattrænnar hlýnunar, sem var ein meginorsök útdauðans. Að auki fundust ummerki mikilla skógarelda, sem í samvinnu við hina hnattrænu hlýnun virðist hafa leitt til umfangsmikillar jarðvegseyðingar, sem hefur gert víðáttumikil landsvæði þurr og ólífvænleg.

Heimildir og ítarefni

Greinin birtist í Science og er eftir Shen o.fl. 2011 (ágrip): Calibrating the End-Permian Mass Extinction

Þessi umfjöllun byggir mikið til á umfjöllun af heimasíðu MIT: Timeline of Mass Extinction

Tengt efni á loftslag.is

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál