Grænlandsjökull dökknar og bráðnar hraðar

Hvítt yfirborð Grænlandsjökuls endurkastar rúmlega helming þess sólarljóss sem fellur á hann. Þessi eiginleiki hjálpar jöklinum við að viðhalda sér:  minni gleypni sólarljóss þýðir minni hlýnun og bráðnun.  Undanfarinn áratug hafa gervihnattamælingar sýnt breytingu í endurskini jökulsins. Dökknandi yfirborð hans gleypir meiri orku frá sólarljósinu og hraðar bráðnunina.

Myndin hér fyrir ofan sýnir hlutfallslega breytingu á endurkasti sólarljóss frá yfirborði Grænlandsjökuls sumarið 2011, samanborið við meðaltal þess milli áranna 2000 og 2006 – samkvæmt gögnum frá gervihnöttum NASA. Nánast öll jökulbreiðan er blálituð sem bendir til þess að jökullinn hafi endurkastað allt að 20% minna síðastliðið sumar en fyrri hluta síðasta áratugs.

Loftslagsvísindamenn tala gjarnan um magnandi svörun við að lýsa þessum áhrifum, þ.e. við hlýnunina þá bráðnar ís og snjór og undirliggjandi yfirborð sem er dekkra veldur aukinni hlýnun sem veldur meiri bráðnun og svo koll af kolli. Samskonar magnandi svörun má sjá þar sem hafís bráðnar og dökkt úthafið tekur við af hvítu yfirborðinu.

Miðað við tengslin sem eru milli hlýnunar og minnkandi endurkasts þá passar munstur kortsins vel við það sem búast má við. Yfirborð sem liggur lægra og er þar með hlýrra hefur dökknað mun meira en yfirborð sem liggur hærra og hið dökka yfirborð virðist hafa færst ofar.

Dökkur ís á yfirborði jökulsins við hliðina á straumrás vegna bráðnunar nálægt jaðri jökulsins. Samanborið við ferskan snjó og hreinan ís, þá gleypir dökkt yfirborðið mun meiri orku frá sólinni, sem hraðar bráðnunina. © Henrik Egede Lassen

Samkvæmt Jason Box, aðalhöfundi Grænlandskafla skýrslunnar um Norðurskautið (sjá heimildir) þá er dökknunin um miðbik jökulsins jafnt eins áhugaverð og sú út við jaðrana. Um miðbikið er hæsti punktur jökulsins og engin sjáanleg bráðnun.  Jason segir að dökknunin þar sé vegna þess að ískrystallar hafi hitnað, við það festast þeir saman og verða rúnaðir. Þannig krystallar gleypa meira sólarljós en þeir fersku.

Nýfallnir snjókrystallar eru með fjöldan allan af flötum sem endurgeisla sólarljósi (vinstra megin). Er þeir hitna þá verða krystallarnir rúnaðir og festast saman (hægri).

Talið er að þessi dökknun Grænlandsjökuls síðastliðin 12 ár, þ.e. milli 2000 og 2011 hafi valdið því að jökulbreiðan gleypti aukreytis um 172 quintillion (1018) joules af orku sem er nærri tvisvar sinnum meiri orka en árleg orkunotkun Bandaríkjamanna árið 2009. Þar sem jökulbreiðan er að bráðna, þá hefur þessi auka orka tvöfaldað bráðnunarhraðann. Þar sem engin leysing er þá fer þessi auka orka í að auka hita í snjónum frá -10°C og upp að frostmarki.

Sjá einnig myndband um bráðnunina síðastliðið sumar:

 

Heimildir og ítarefni

Unnið upp úr umfjöllun á heimasíðu ClimateWatch Magazine:  Greenland Ice Sheet getting darker

Fyrrnefndur Jason Box er með góða heimasíðu og fjallar um málið sjálfur og nánar þar, sjá: Meltfactor – Greenland Ice Sheet Getting Darker

Sjá einnig – Highlights of the 2011 Arctic Report Card og Greenland Albedo Page at Byrd Polar Research Center

Tengt efni á loftslag.is

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál