Á heimasíðu Raunvísindastofnunar er áhugaverð fréttatilkynning, sem við birtum hér fyrir neðan auk ítarefnis – en margir fjölmiðlar hafa fjallað um þessa frétt.
Rannsóknir vísindamanna við Coloradoháskóla og Jarðvísindastofnun Háskólans, á hörfun jökla á Baffinlandi og setkjörnum úr Hvítárvatni við Langjökul, hafa leitt í ljós að kólnun á Litlu ísöldinni byrjaði snögglega og samtímis á Baffinlandi og Íslandi, á árunum 1275-1300.
Ýmsar kenningar hafa verið uppi um orsakir kólnunar á Litlu ísöldinni. Brennisteinssambönd í gosmekki stórra sprengigosa, sem safnast í gufuhvolf jarðar, geta valdið tímabundinni lækkun á inngeislun sólar en Litla ísöldin náði yfir mun lengra tímabil, frá 1275 fram undir aldamótin 1900. Því hafa flestir hallast að því að meginorsök langvarandi kuldaskeiðs Litlu ísaldarinnar hafi stafað frá lækkandi útgeislun sólar (lítilli sólblettavirkni). Litla ísöldin hófst hins vegar meira en þremur öldum á undan sólblettalægðinni 1645-1715, sem kennd er við Maunder.
Með því að bera saman kolefnisaldursgreiningar á gróðri undan bráðnandi jökulhettu Baffinlands, við gögn úr hvarflögum setkjarna úr Hvítárvatni og ískjörnum úr Grænlandsjökli hafa Gifford Miller og Áslaug Geirsdóttir ásamt samstarfsmönnum unnið loftlagslíkön sem sýna nákvæma tímasetningu kólnunar á Litlu ísöldinni og hugsanlegar ástæður hennar. Endurtekin eldgos á stuttum tíma urðu þess valdandi að hafísmyndun óx í Norðurhöfum. Hafísmyndunin viðhélt síðan kuldatímabilinu löngu eftir að áhrif eldsumbrotanna höfðu fjarað út, með auknu endurvarpi sólgeislunar (Albedo) og kólnun andrúmslofts.
Rannsóknin á upphafi og orsökum Litlu ísaldarinnar er hluti af stærra verkefni sem snýr m.a. að því að betrumbæta tímakvarða fyrir loftslagstengd gögn frá Nútíma út frá gjóskulagatímatali og þá sér í lagi íslensku gjóskulagatímatali.
Niðurstöður þessarra rannsókna sem birtar eru í tímaritinu Geophysical Research Letters hafa þegar vakið mikla athygli erlendis og eru m.a. til umfjöllunar í tímaritunum Nature og Science, sjá:
Unusual volcanic episode rapidly triggered Little Ice Age, researchers find
Volcanoes Indicted for Europe’s Long, Big Chill
Little Ice Age was caused by volcanism
New CU-led study may answer long-standing questions about enigmatic Little Ice Age
Sjá einnig frétt og viðtal við Áslaugu Geirsdóttur á ruv.is (smelltu á mynd til að fara inn á ruv vefinn).
Tengt efni á loftslag.is
- Orsakir fyrri loftslagsbreytinga
- Áhrifaþættir hinnar hnattrænu hlýnunar
- Eldgos og loftslagsbreytingar
- Taktur loftslagsbreytinga síðastliðin 20 þúsund ár, á norður- og suðurhveli jarðar
Sannar þetta ekki að við erum rétt að stíga upp úr kuldaskeiði?
Eða eins og vísindamaðurinn sem er að vinna á grænlandsjökli segir í myndbandinu á síðunni sem ég sendi link á „við erum að miða við kuldaskeið þegar hlýnun jarðar er mæld í dag (ekki orðrétt)“ þannig að það varð og verður að hlýna.
http://agbjarn.blog.is/blog/agbjarn/entry/1221784/
Sæll Teitur og takk fyrir spurninguna.
Margt hefur áhrif á loftslag (sjá Orsakir fyrri loftslagsbreytinga og Áhrifaþættir hinnar hnattrænu hlýnunar).
Fyrir iðnbyltingu:
Eins og þú sérð með því að lesa textann sem fylgir fyrrnefndum tenglum, þá er svokölluð Milankovich sveifla helsti áhrifavaldur í þróun hitastigs á kuldaskeiðum og hlýskeiðum ísalda (möndulhalli, breytingar í sporbaug og möndulsnúningssveiflan).
Við erum staddir á hlýskeiði ísaldar og litla ísöldin er partur af því hlýskeiði. Litla ísöldin er talin hafa orðið vegna samblands af óhjákvæmilegri kólnun vegna aukinnar fjarlægðar frá sólu (samanber Milankovich sveiflu), fyrrnefndri eldvirkni (sjá færslu hér fyrir ofan) og viðhaldið með svokallaðri magnandi svörun og líklega minnkandi sólvirkni.
Allt er það mjög náttúrulegt og vísindamenn nokkuð sammála þar- þótt ekki séu menn sammála um hversu köld litla ísöldin var, hversu útbreidd, né hverjir voru stærstu áhrifavaldarnir.
Eftir iðnbyltingu:
Meira er vitað um það hvernig stendur á hlýnuninni eftir að iðnbyltingin hefst, en hún er til að byrja með vegna aukinnar virkni sólar í sambland við aukna losun manna á gróðurhúsalofttegundum (og mögulega minnkandi eldvirkni).
Á milli áranna 1910 og 1940 var tímabil hlýnunnar, sem talið er að hafi að mestu verið vegna aukinnar sólvirkni og lítillar eldvirkni – auk aukinna gróðurhúsaáhrifa vegna losunnar manna.
Frá miðri síðustu öld hefur sólvirknin hins vegar verið flöt og eldvirkni í meðaltali. Aðrir náttúrulegir þættir eru hverfandi.
Styrkur gróðurhúsalofttegunda, vegna losunar manna á þeim út í andrúmsloftið hefur aukist með auknum þunga og er nú orðinn helsti áhrifaþátturinn í breytingum á hnattrænum hita.
Menn eru því orðinn helsti áhrifaþátturinn í breytingum á hnattrænum hita síðastliðna öld og sérstaklega síðastliðin 50 ár.