Loftmyndir sýna breytingar á vistkerfi Síberíu

Loftmyndir sem teknar voru með rúmlega fjörutíu ára bili sýna greinilega breytingu á vistkerfi Síberíska Norðurskautsins (e. Siberian Arctic), en hækkandi hitastig hefur aukið vöxt þykkra runna þar sem áður var freðmýri.

Svarthvít mynd tekin með Gambit gervihnettinum árið 1966 (vinstri) sýnir freðmýri með stökum runnum, en mynd tekin árið 2009 (hægri) sýnir mun þéttvaxnari runna.Myndir frá U.S. Geological Survey.

Myndirnar hér fyrir ofan sýna hvernig svæði við Yennisey fljót í Rússlandi breyttist milli áranna 1966 og 2009.  Fyrri myndin, sem tekin var með gervihnetti sem notaður var til njósna, sýnir mikið opið svæði. Myndin sem tekin var árið 2009 sýnir aftur á móti þykka runna sem náð hafa fótfestu á svæðinu. Það er að valda miklum breytingum í vistkerfi svæðisins – með minnkandi fjölbreytileika gróðurs og erfiðara svæði yfirferðar fyrir hrendýr og dádýr.

Þess konar breyting getur líka haft annars konar breytingar í för með sér og hafa vísindamenn velt því fyrir sér hvort auknir runnar muni auka hita norðurskautanna og hraða þar með á bráðnuninni (magnandi svörun) eða dempa breytingarnar. Það er ekki eingöngu áhugavert frá vísindalegu sjónarhorni, heldur getur hraðari bráðnun valdið aukinni losun metans út í andrúmsloftið – en metan er mikilsvirk gróðurhúsalofttegund.

Það er á tvennan hátt sem auknir runnar hafa áhrif á sífrerann.  Til að byrja með þá mynda runnarnir skugga fyrir sólu og kæla þar með yfirborð freðmýranna.  Á móti kemur að endurskin sólar minnkar (e. albedo), en dökk laufblöð runnanna dregur í sig meira af geislum sólar en runnalaus svæði.

Í nýrri rannsókn (Lawrence og Swenson 2012) þar sem notuð voru loftslagslíkön til að leita svara við því hversu mikil áhrif runnarnir hafa, kom í ljós við líkanakeyrslur, að yfirborð jarðar varð kaldara undir runnunum og jarðvegur þiðnaði þar minna yfir sumartíman en á opnum freðmýrum. Þegar runnagróður í líkaninu var aftur á móti aukinn um 20 %, þá hlýnaði aftur á móti talsvert vegna breytinga í endurskini og vegna aukins raka sem fylgir aukinni ljóstillífun af völdum runnanna.  Það aftur á móti hitaði jarðveginn og náði hann að þiðna um 10 sm dýpra en án runnagróðursins samkvæmt líkaninu.

Niðurstaða rannsóknarinnar bendir því eindregið til þess að sífreri freðmýranna verði viðkvæmari en áður við aukningu runnagróðurs – að það myndist einhvers konar magnandi svörun (e. positive feedback) sem veldur meiri bráðnun og meiri losun metans út í andrúmsloftið.

Heimildir og ítarefni

Migratin Siberian Shrubs

Shrub Takeover. One Sign of Arctic Change

Grein þeirra Lawrence og Swenson 2012: Permafrost response to increasing Arctic shrub abundance depends on the relative influence of shrubs on local soil cooling versus large-scale climate warming

Tengt efni á loftslag.is

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál