Afneitunargeitin jarmar lágt

Sveinn Atli skrifaði góða færslu um afneitunargeitina í gær (sjá Afneitunargeitin [Denial-gate]).  Í tilefni þess að skortur er á umfjöllun fréttamiðla hér á landi um þetta mál og algjöra þögn “efasemdamanna” þá vil ég bæta við eftirfarandi:

Rök venjulegra “efasemdamanna” gegn hinni hnattrænu hlýnun af mannavöldum eru þessi og þeir fara niður listann eftir því hvernig staðan er í umræðunni hvert skipti og reyna við hvert tækifæri að færa sig ofar í listann:

1. Það er engin hlýnun.
2. Það er hlýnun en hún er náttúruleg
3. Hlýnunin er af mannavöldum, en hlýnunin er góð.
4. Hlýnunin hefur hætt.
5. Það er of dýrt að gera nokkuð í þessu.
6. það væri í lagi að reyni að gera eitthvað… (síðan er ekkert gert).

Til að finna röksemdir sem styðja við þennan lista, þá leita “efasemdamenn” nær undantekningalaust í smiðju þeirra sem hafa verið dyggilega studdir með gríðarlegum fjárhæðum af Heartland stofnuninni, eins og kemur fram í færslunni hans Sveins Atla.

Þeir sem fylgjast með umræðunni af einhverju viti ættu að  kannast við þær heimasíður og nöfn sem komu fram í færslu Sveins:

Meðal þess sem hefur komið fram eru gögn um fjármögnun margra “efasemdamanna”, m.a. hafa þeir Anthony Watts á WUWT, Craig Idso á CO2Science, Bob Carter og Fred Singer þáð umtalsverðar upphæðir, svo einhverjir fáir séu nefndir til sögunnar. Við höfum m.a. fjallað um þess “kappa” hér á síðum loftslags.is, sjá m.a. Miðaldaverkefnið (Craig Idso), Mótsagnarkennt eðli röksemda “efasemdamanna” um hnattræna hlýnun (Fred Singer o.fl.), Tengsl El Nino og langtíma hlýnunar hrakin (Bob Carter) og Staðnir að óvönduðum vinnubrögðum (Anthony Watts). Þeir félagar hafa hver um sig þegið umtalsverðar upphæðir, jafnframt því að vera framarlega í heimi loftslags afneitunarinnar.

Hægt væri að nefna fleiri sem hafa fengið styrki til að strá efasemdasykurhúð yfir vísindin (meðal annars má nefna skýrsluna NIPCC en hún hefur meira að segja ratað inn í heimildalista BS-ritgerðar frá HÍ sem er hneyksli út af fyrir sig).

Þessi efasemdasykurhúð er þunn og undir henni eru bitur og sönn vísindi – vísindi sem sýna fram á að yfirgnæfandi líkur séu á að hlýnunin sé af mannavöldum, að hlýnunin eigi eftir að ágerast með áframhaldandi losun gróðurhúsalofttegunda (sérstaklega CO2) og að afleiðingar þessara loftslagsbreytinga geti orðið alvarlegar fyrir fjölmörg vistkerfi jarðar og manninn þar með (sjá bæklinginn Efasemdir um hnattræna hlýnun – Hinn vísindalegi leiðarvísir).

Það sem þessir “kappar” eru því að gera, er ekki að styrkja þekkingaröflun á loftslagi jarðar. Þeir fá borgað fyrir að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að sýna fram á að, það sem kemur fram í listanum, sé rangt  (sjá 1-6 hér ofar og þá sérstaklega 1-4). Til þessa verks fá þeir nánast ótakmörkuð fjárráð.

Tilgangurinn:  Að viðhalda skammtímagróða þeirra sem dæla peningum í Heartland stofnunina.

Heimildir og ítarefni

Til að sjá byrjunina, kíkið á heimildir við færslu Sveins, neðst á síðunni (sjá Afneitunargeitin [Denial-gate])

Ágætar umfjallanir hafa einnig komið t.d. hér:

Skeptical Science:  DenialGate Highlights Heartland’s Selective NIPCC Science

NewScientist:  Leaked files expose Heartland Institute’s secrets

Tengt efni á loftslag.is

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál