Dagur loftslagsáhrifa – línurnar dregnar

Á laugardaginn 5. maí er svokallaður dagur loftslagsáhrifa (e. Climate Impacts Day). Dagurinn er haldin í fyrsta sinn í ár og er kominn til, fyrir tilstilli 350.org og má finna heimasíðu verkefnisins hér, Climate Impacts Day. Á degi loftslagsáhrifa eru haldnir viðburðir víða um heim þar sem ætlunin er að minna á loftlagsáhrif sem tilkomin eru vegna losunar gróðurhúsaloftegunda okkar mannanna. Það er nokkuð ljóst í hugum þeirra sem skoða þessi mál á málefnalegan hátt og út frá því sem vísindin hafa um málið að segja, að maðurinn hefur áhrif á hitastig í heiminum með gríðarlegri losun gróðurhúsalofttegunda og mælingar staðfesta kenninguna. Línurnar eru skýrar og það þarf ekki að velkjast í vafa um að loftslagsbreytingar hafa og munu halda áfram að áhrif á íbúa jarðar.

Það virðist þó ekki vera neinn viðburður á Íslandi á degi loftslagsáhrifa, eins og sjá má á heimasíðu verkefnisins, en kannski einhver geti tekið að sér að stofna til viðburðar (Höskuldur og ég sjálfur höfum því miður öðrum hnöppum að hneppa nú um stundir). En mig langar þó að hvetja til umhugsunar um þessi mál og jafnvel taka upp umræðu á kaffistofum, afmælis- og skírnarveislum og fleiri stöðum þar sem fólk kemur saman. Hvort sem það er núna á laugardag eða bara hvenær sem er, þá er nauðsynlegt að ræða þessi mál, enda verður vandamálið á borðum okkar í framtíðinni, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Umræða um lausnir er ekki síður mikilvæg, enda margar leiðir til þess og margar ólíkar skoðanir um hvernig best er að nálgast þær.

Á loftslag.is má finna ýmislegt um þessi mál. Fyrst ber kannski að nefna undirsíðu þar sem lesa má ýmislegt um kenningarnar og sögu loftslagsvísinda, Kenningin – þar má finna eftirfarandi undirsíður:

Sagan
– Áhrif CO2 uppgötvað
Orsakir fyrri loftslagsbreytinga
 Áhrifaþættir hinnar hnattrænu hlýnunar
Grunnatriði kenningarinnar
– Mælingar staðfesta kenninguna
Loftslag framtíðar

Á annarri athyglisverðri síðu má finna leiðarvísinn, Efasemdir um hnattræna hlýnun – Hinn vísindalegi leiðarvísir, sem er áhugaverður leiðarvísir um loftslagsmál. Leiðarvísinn má prenta út og hafa með sér hvert sem er, m.a. í strætó, vinnuna, flugvélar, skírnir o.s.frv. – maður verður að sjálfsögðu hrókur alls fagnaðar með hann í farteskinu!

Það þarf einnig að minnast á mýtusíðuna í þessu tilliti, enda mikið af marg notuðum mýtum í umferð um þessi mál. T.d. má nefna mýtur eins og að það hafi verið loftslagsbreytingar áður (sem er staðreynd) og þ.a.l. þá séu núverandi loftslagsbreytingar bara náttúrulegar eða þá mýtan að þetta hljóti að vera sólin. Báðar mikið notaðar, en hvorug stenst nánari skoðun, enda styðja mælingar ekki þess háttar fullyrðingar.

Að lokum má kannski benda á eftirfarandi tengli, þar sem finna má þýðingarmikið efni sem ratað hefur á loftslag.is í gegnum tíðina (ekki tæmandi listi).

En allt í allt má segja að línurnar séu skýrar og gögnin afgerandi, loftslagsbreytingar af mannavöldum er staðreynd – En það er ekki of seint í rassinn gripið, bara um að gera að fara að huga að því hvað er til ráða – það er ekki eftir neinu að bíða. Umræða og upplýsingar eru til alls fyrst.

Auka lesefni:

Athugasemdir

ummæli

About Sveinn Atli

Sveinn Atli: Fjölskyldumaður og áhugamaður um loftslagsmál.