Í kjölfar mikillar bráðnunar hafíssins á Norðurskautinu nú í sumar, má búast við röskun í veðrakerfi norðurhvelsins í vetur og þá sérstaklega í Bandaríkjunum og Evrópu. Þetta er mat Jennifer Francis sem er sérfræðingur í lofthjúpi jarðar í háskólanum Rutgers í New Jersey. Aukinn hiti á Norðurskautinu er þannig talinn geta haft áhrif á skotvinda (e. jet stream) sem gæti aukið tíðni öfgaatburða á fyrrnefndum svæðum.
Hin mikla bráðnun sem orðið hefur á þessu ári, svo slegið hefur fyrri met, er að auka hitainnihald Norður-Íshafsins og andrúmsloftsins, að sögn Jennifer og líkt og að bæta við nýrri orkuuppsprettu fyrir lofthjúpinn.
Þann 26. ágúst náði útbreiðsla hafíss nýjum lægðum, en fyrra metið var slegið í september 2007 og enn er útbreiðsla hafíssins að minnka þegar þetta er skrifað. Þessi bráðnun veldur magnandi svörun sem þekkt er sem Norðurskautsmögnunin (e. Arctic amplification). Því meira sem bráðnar af hafís, því meiri orku dregur Norðurskautið til sín – því þar sem áður var hafís sem speglar sólarljósinu aftur út í geim, er nú opið og dökkt haf. Þetta eykur hitastig sjávar og lofthjúpsins á Norðurskautinu – sem svo bræðir enn meiri hafís.
Á haustin, þegar sólin sest yfir Norður-Íshafinu og það byrjar að frjósa aftur, þá losnar hitinn aftur út í lofthjúpinn. Þar sem fyrrnefndir skotvindar eru knúðir áfram af hitamismun milli Norðurskautsins og svæða sunnar á hnettinum, þá hafa allar breytingar á þeim hitamismun áhrif á vindana – með tilheyrandi afleiðingum.
Samkvæmt Francis, þá virðist sem sveiflan aukist í skotvindakerfinu þ.e. í stefnu norður-suður – með öðrum orðum þá eykst bylgjulengd skotvindanna á haustin og yfir vetrartímann. Aukin bylgjulengd getur valdið auknum öfgum í veðri, en öfgar í veðri eru oft tengdir veðrakerfum sem eru lengi að breytast. En þó vísbendingar séu um að skotvindar séu að hægja á sér og auka bylgjulengd sína, þá er erfitt að segja til um hvaða áhrif það hefur á komandi vetur.
Staðsetning skotvindanna ræðst af öðrum þáttum, samkvæmt Francis – meðal annars Kyrrahafssveiflunni (ENSO) og Atlantshafssveiflunni (AO) – en líklega megi þó búast við mjög óvenjulegu veðri í vetur. Óvenjulega kaldur og snjóþungur vetur árið 2009-1010 og 2010-2011 á austurströnd Bandaríkjanna og í Norður-Evrópu, er samkvæmt Francis, nátengdur hlýnun Norðurskautsins. Það að veturinn 2011-2012 var ekki eins öfgakenndur veldur því að efasemdir eru uppi um þessi tengsl meðal sumra loftslagsfræðinga. Aðrir hafa bent á, meðal annars Jim Overland hjá NOAA, að ekki sé hægt að útiloka tilgátu Francis út af einum vetri – ekki sé alltaf beint samband á milli orsaka og afleiðinga.
Það verður því áhugavert að fylgjast með þróuninni í haust og fram á vetur.
Heimildir og ítarefni
Þýtt og staðfært úr frétt Climate Central: ‘Astonishing’ Ice Melt May Lead to More Extreme Winters
Hafísmetið fellur: Arctic sea ice extent breaks 2007 record low
Ástand hafíssins í ágúst: Arctic sea ice falls below 4 million square kilometers
Áhugavert viðtal við Jón Egil Kristjánsson í speglinum um öfgakennt veðurfar
Tengt efni á loftslag.is
- Kaldari svæði við hnattræna hlýnun
- Líkur á öfgum í hita hafa aukist með hnattrænni hlýnun
- IPCC telur að aukin tilfelli öfga í veðri sé tengt hækkandi hitastigi
- Norðurskautsmögnunin
Er það ekki sniðugt að þú sleppir í þessu línuriti, magns hafíss á norðuslóðum fyrir áramót. Þið veðuráhyggjumenn orðnir desperat, hlýindakafli og þið öskrið að himinn sé að detta. Og til þess að hafa þetta á hreinu, ekkert met, aðeins til mælingar 30 ár aftur í tímann. Jafnvel styttri tími vegna þess að nýjustu mælingaaðferðirnar hafa aðeins verið til í örfá ár og matsatriði, hvar er ísþekja að vissu marki og hvar auður sjór. Eða með öðrum orðum, verður að meta hvar skilin eru á milli ísþekjunnar og auðs sjó, eitthvað sem ykkur veðuráhyggjumönnum er ekki treystandi fyrir.
Ingimundur. Norður-Íshafið er um 14 milljón ferkílómetrar en hafísþekjan núna ekki nema um 4 milljón ferkílómetrar en ísmörkin eru yfirleitt sett við 15% ísþekju. Þetta er óumdeilanlega minna en áður hefur þekkst að sumarlagi í 100 ár og örugglega mun lengur. Um þetta þarf ekkert að deila og allar helstu stofnanir sem rannsaka þetta er á einu máli.
En talandi um veturinn 2011-2012 þá má minna á að það var svo sem líka heilmikil truflun á veðurkerfunum síðasta vetur sem skilaði sér í kuldakasti í Evrópu í febrúar. Í Bandaríkjunum var veturinn hinsvegar óvenju mildur.
Sjá t.d. hér: Europe freezes in cold winter weather
Í þessari annars ágætu umfjöllun er eitt sem slær mig illa og er byggt á einhverjum misskilningi í upprunagreininni og vísað er til.
Lítum á eftirfarandi setningu:
“Á haustin, þegar sólin sest yfir Norður-Íshafinu og það byrjar að frjósa aftur, þá losnar hitinn aftur út í lofthjúpinn. Þar sem fyrrnefndir skotvindar eru knúðir áfram af hitamismun milli Norðurskautsins og svæða sunnar á hnettinum, þá hafa allar breytingar á þeim hitamismun áhrif á vindana – með tilheyrandi afleiðingum.”
Það losnar ekki um varma frá hafinu þegar ísinn þekur að nýju síðar í haust. öðru nær hafísinn kemur í veg fyrir orkuskipti á milli sjávar og lofts. Hann hefur aftur þau áhrif að það kólnar á norðurhjaranum og hitamunur við suðlægar slóður verður að óbreyttu meiri. Sem sagt meiri skotvindur. Minni ís ætti því að leiða til veikari skotvinds líkt og raunin er yfir hásumarið.
Nú þessa dagana er skotvindur t.a.m. afar öflugur hér við norðanvert Atlantshafið á sma tíma og ísinn er mið minnsta móti. Segir okkur að taka verður tillit til annarra þátta, m.a. hins raunverulega og stóra orkugjafa sem eru hlýindin í suðri, sjávarhitinn og allt það sem knýr skotvindinn ekki síður en kuldinn í norðri.
Maður muni halda að minni ís að sumarlagi fram í ágúst hefði mikla þýðingu fyrir geislunarbúskapinn þar, en eftir að sólin sest eða lækkar í það minnsta verulega á lofti verður útgeislun yfirborðs allsráðandi og aðeins spuring um tíma hvenær ísinn myndast að nýju.
Hins vegar eru þær allrar athygli verðar kenningar Francis og vísað er til hvort minni ís á norðurslóðum leiði til þess að sveiflur í útslagi bylgnanna á skotvindinum verði meiri og þar með meira um öfga í veðri. Verst er að enn sem komið er vitum við of lítið um það hvað stjórnar bylgjulestinni þegar upp er staðið og helsta ástæða þess að ekki gengur að spá veðrinu lengra en oftast í 5 til 7 daga fram í tímann á okkar slóðum.
En eitt af því sem hægt er að gera er að skoða breytingar á meðalstöðu skotvindsins og hegðan hans. Enn sem komið er virðist þekking ekki vera orðin meiri en svo á þessum fyrirbærum og samspili ólíkra þátta að hálfpartinn verða vísindamenn að geta sér til um ástæður sveiflnanna.
Sjálfur mundi ég frekar beina sjónum mínum að því hvað verður um allt það ferska vatna sem bráðnað hefur í sumar og hvernig það hefur áhrif á eðlismassadreifingu sjávar og þar með möguleika á aukinni nýmyndun íss í haust og vetur sem gæti því orðið meiri en venja er til. (Það segir hins vegar lítið sem ekkert um mögulega bráðnun næsta sumars !).
Einar Sveinbjörnsson
Einar, takk fyrir ábendinguna sem vel má vera að sé réttmæt: Mér finnst hins vegar rökrétt að það losni varmi út í andrúmsloftið þegar sjórinn kólnar og byrjar að frjósa – en vera má að setningin sjálf sé óskýr.
Rétt er að taka fram eins og Einar, að margt getur haft áhrif og það er langt í frá allt ljóst í þeim efnum. T.d. hefur verið bent á ákveðin tengsl milli niðursveiflu í sólvirkni og kuldakasta um vetur í Evrópu. (sjá Lítil sólvirkni kælir Norður-Evrópu)
En hvað um það, það verður áhugavert að fylgjast með framhaldinu.
Mér finnst þessi greining Jennifer Francis vera eins og einhver poppuð útgáfa af því sem Jim Overland og félagar hafa haldið fram um nokkuð skeið, – að minni hafís (og þynnri) leiði til þess að hringstreymið um pólsvæðin veikist, en það hafi svo þau áhrifa að kaldir loftmassar haldist ekki jafn einangraðir á pólsvæðinu og ella. Afleiðingin verði verri norðanáhlaup að vetri. Jim útskýrir þetta hér:
http://www.noaa.gov/features/02_monitoring/warmarctic.html
Eins má lesa grein hans hérna:
http://www.polarresearch.net/index.php/polar/article/view/15787/html
Mér hefur aldrei þótt augljóst að grynning heimskautalægðar geti valdið því að hún verði óstöðug – en menn geta lesið greinarnar og dæmt hver fyrir sig.