Í aðdraganda loftslagsþings Sameinuðu þjóðanna í Doha í lok síðasta árs kom fram að meðal iðnríkja hafði losun gróðurhúsalofttegunda aukist mest í Noregi eða um 38% s.l. 20 ár. Nú hyggst hinn vinstri-græni atvinnu- og nýsköpunarráðherra Íslands, Steingrímur J. Sigfússon, taka Noreg sér til fyrirmyndar. Við Morgunblaðið í dag segir hann, að „Þetta eru talsverð tímamót,“ og fagnaði aðkomu norskra að olíuleit á Drekasvæðinu.
Steingrímur J. Sigfússon virðist – eða þykist vera – ómeðvitaður um þá niðurstöðu Alþjóðaorkumálastofnunarinnar (International Energy Agency) að þegar hefur fundist meiri olía en unnt verður að brenna ef takast á að ná því markmiði alþjóðasamfélagsins – og ríkisstjórnar Íslands – að halda hlýnun andrúmslofts jarðar innan vð 2°C að meðaltali. Alþjóðaorkumálastofnunin telur einsýnt að 2/3 jarðefnaeldsneytis verði að liggja ónýtt í jörðu til að takast megi að nokkur möguleiki sé á að ná þessu markmiði.
Tal Steingríms J. Sigfússonar um varfærni og virðingu gagnvart umhverfinu ber vott um tvískinnung. Formaður Vinstri hreyfingarinnar, græns framboðs hlýtur að vita að aukin vinnsla jarðefnaeldsneytis mun ekki einungis hafa í för með sér hættur fyrir viðkvæmt umhverfis norðurslóða heldur einnig torvelda mannkyni enn frekar það erfiða verkefni að koma í veg fyrir óafturkræfar loftslagsbreytingar.
Náttúruverndarsamtök Íslands harma að formaður Vinstri grænna hafi ekki til bera hugrekki og siðferðisþrek til að fylgja þeirri loftslagsstefnu sem Ísland hefur markað á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.
—–
Til frekari upplýsingar:
Í grein sem birtist í norska Dagbladet þann 29. september dregur yfirmaður Olíustofnunar Noregs (Norges Oljedirektorat) mjög í efa að unnt verði að nýta olíu á Drekasvæðinu.
Bent er á að ferð norska olíumálaráðherrans til Íslands þá hafi helst verið “en politisk markering av norske interesser, snarere enn starten på et nytt norsk oljeeventyr.”
Leave a Reply