Reglulega koma upp fullyrðingar um hik í hnatthlýnuninni (stundum er talað um kólnun) eða aðrar vafasamar fullyrðingar sem byggja á sérvali gagna og þess að hunsa heildarmyndina með innantómum staðhæfingum. Stundum koma líka fram getgátur sem virðast eiga sér órökstuddar stoðir í huglægri óskhyggju sem einu uppistöðuna.
Í nýlegri bloggfærslu á bloggsíðu sinni gerir Ágúst H. Bjarnason að umtalsefni það sem hann kallar “hiki á hnatthlýnun” – sjá “Hvað veldur þessu 10 ára hiki á hnatthlýnun? – Hvað svo…?” – það má benda á að ekki vantar spurningamerkin að vanda hjá Ágústi (sjá t.d.Íslenskar “efasemdir” um hnatthlýnun af mannavöldum rækilega skjalfestar – þar sem sjá má dæmi um svipað hjá honum). Í þessari nýju færslu setur Ágúst fram eftirfarandi graf til að sýna fram á þetta hik í hnattrænni hlýnun:
Þarna ægir saman mörgum línuritum í einni mynd og erfitt að sjá hvað er hvað – það má kannski segja að UAH gagnaröðin sé einna mest áberandi á þessari mynd (þó það sé ómögulegt að segja til um það í þessu spaghettígrafi). Svarta línan sýnir 37 mánaða (um þrjú ár) meðaltal hitastigsins (sennilega reiknað út frá meðaltali allra gagnasettanna – þó ekki komi það fram sérstaklega). Reyndar má segja sem svo að það val á útreikningi meðaltalsins dragi verulega úr öllum sveiflum og geti jafnvel falið hækkun (eða lækkun) hitastigs til skemmri tíma, enda sveiflast hitastig á milli ára og með þessu vali verða þær sveiflur vel faldar þegar til skamms tíma er litið – t.d. þegar líta á til fullyrðinga um hik í hnatthlýnun síðustu 10 árin sem færsla Ágústar fjallar óneitanlega um. Til dæmis má nefna að bæði árin 2005 og 2010 eru ein heitustu ár frá upphafi mælinga samkvæmt einhverjum gagnasettum – en það sést ekki á myndinni. Út frá þessari mynd fullyrðir hann svo um 10 ára hik í hnattrænni hlýnun án þess að hika hið minnsta.
Þess ber að geta að það hefur svo sem aldrei verið fullyrt um það af nokkrum sem vill láta taka sig alvarlega í þessari umræðu að það geti ekki hægt á hlýnuninni eða hún jafnvel hætt til skemmri tíma (nokkur ár og jafnvel yfir áratug), enda munu náttúrulegar sveiflur alltaf vera til staðar og þær hafa áhrif á þróun mála (sjá t.d. umfjöllun realclimate.org sem lesa má um hér neðar). En það er þó vert að minna á að sérval gagna eins og þessi 10 ár, sem samkvæmt hans fullyrðingum eiga að styðja það að það sé hik í hnattrænni hlýnun, er ekki talin góð latína – betra að skoða lengri tíma og skoða samband við önnur gögn og einnig að nota meðaltal sem gefur einhverja meiningu. Það er til að mynda staðreynd að það er of skammur tími til að fullyrða eitthvað um hik í hnattrænni hlýnun að benda á sérvalinn tímabil og sérvalin útreikning á meðaltali til að sýna fram á hik í hnatthlýnun á 10 árum – ekki einu sinni 15 ár eru nægilega langur tími til þess að fullyrða óyggjandi um breytingu hitastigs. Betra er að skoða heildardæmið og það til lengri tíma svo það gefi einhverja raunverulega meiningu. Til að mynda er gott að velta fyrir sér hvað gæti hafa orðið af hlýnuninni (sjá svar nánar neðar í pistlinum) og líka þarf að hafa í huga náttúrulegar sveiflur. Ágúst nefnir að hluta til sveiflur í eftirfarandi þremur liðum sem hann tiltekur, 1. ytri þættir (t.d. sólin), 2. innri þættir (t.d. hafstraumar) og svo 3. koltvísýringur – og svo klikkir hann út með eftirfarandi:
Þetta er semsagt flókið samspil náttúrulegra fyrirbæra og áhrifa losunar manna á koltvísýringi. Hve mikið hver þessara þriggja þátta vegur er ómögulegt að segja. Við getum þess vegna til einföldunar og bráðabirgða sagt er hver þáttur valdi svo sem þriðjungi, en auðvitað er það bara órökstudd ágiskun þar til við vitum betur…
[Heimild – Ágúst H. Bjarnason]
Hann telur s.s. að það sé ómögulegt að segja eitthvað til um þessa þætti og setur svo fram þessa órökstuddu ágiskun (fínt að vita að hún er órökstudd með öllu – og það er þakkar vert að hann heldur því til haga fyrir lesandann). Þessi órökstudda ágiskun er í anda við ályktanir þeirra sem afneita loftslagsvísindum – s.s. þeirra sem afneita því að koldíoxíð hafi að miklum hluta valdið hlýnuninni síðustu áratugina. Svo lætur hann eins og þessir þættir hafi ekkert verið skoðaðir af vísindamönnum almennt og þ.a.l. sé í lagi hjá honum að koma fram með sína órökstuddu ágiskun. Í eftirfarandi grafi má sjá muninn á því hvernig “efasemdamenn” og svo við raunsæismennirnir (“alarmistar” í huga sumra) sjáum hnatthlýnunina:
Þetta er endurtekið efni hjá Ágústi, sem einnig kemur oft beint eða óbeint frá erlendum “efasemdasíðum”, sjá t.d. Brrr – Enn kólnar í heimi hér…, Gervihnattamæling á hitastigi sýnir kólnun í október… og svo Hvers vegna hefur hnatthlýnunin staðið í stað það sem af er þessari öld…? svo fátt eitt sé nefnt úr safni Ágústar í gegnum árin. Svona til að benda á það, þá er að sjálfsögðu gefið leyfi í athugasemdum til að skjóta á hina svokölluðu “alarmista”. En “alarmistar” í huga “efasemdamanna” eru til að mynda menn eins og við hér á loftslag.is sem teljum að loftslagsvísindi hafi með vísindalegum aðferðum sett fram sönnunargögn varðandi það hvernig manngerð aukning gróðurhúsalofttegunda veldur hlýnun jarðar og mun halda áfram að gera það á næstu áratugum og árhundruðum ef ekkert verður að gert. Þessar upplýsingar virðast hræða einhvern hóp “efasemdamanna” það mikið að þeir kalla það hræðsluáróður. En það virðist vera viðtekið hjá honum að það sé sjálfsagt mál að fullyrða um hina svokölluðu “alarmista” og hann birtir því oft á tíðum þess háttar ómálefnalegar athugasemdir – þrátt fyrir ritstjórnar reglur hans segi til um annað. Þess ber þó líka að geta að hann hefur leyft þeim Brynjólfi Þorvarðssyni og Emil Hannes Valgeirssyni að koma með gagnmerkar og málefnalegar athugasemdir – þannig að ekki er þetta allt á einn veginn, svo því sé til haga haldið. Í athugasemd við færsluna (svar til Emils) kemur Ágúst inn á þátt koldíoxíðs og segir m.a. eftirfarandi:
Þetta er sá þáttur sem mestu púðri hefur verið eytt í. Menn eru almennt sammála um að hver tvöföldun á styrk CO2 valdi hækkun hitastigs um 1,1°C EF ekkert annað kemur til. Þetta “annað” er til dæmis rakastig loftsins og skýjafar. Hér kemur til hugtakið sem kallast feedback á enskri tungu en ég hef vanist að nefna afturverkun. Það er með hjálp þessarar afturverkunar sem sumir álíta að hækkun hitastigs geti magnast jafnvel þrefalt og verið þá 3°C fyrir hverja tvöföldun í styrk CO2.
Hér deila menn hart og mikið. Sumir telja þessi áhrif mun minni, og þeir eru til sem álíta að afturverkunin magni ekki upp heldur dragi úr hitahækkun. Þessu hef ég gaman af því hér er ég á heimavelli, en ég kenndi reglunartækni (Feedback and control systems) í nokkur ár við HÍ. Til að kynnast hvað liggur að baki þessara fræða þar sem allt snýst um afturverkun eða feedbak er kjörið að skoða þetta skjal frá HR: Prófdæmi. Hér er mikil stærðfræði notuð. Einnig má skoða smá ágrip á síðu Wikipedia: http://en.wikipedia.org/wiki/Control_theory
Ég hef grun um að margir þeirra sem fjalla um afturverkun í loftslagsfræðum mættu gjarnan kunna meira fyrir sér í þessum fræðum þar sem fjallað er um afturverkun, stöðugleika kerfa, o.m.fl., því stundum verður umfjöllunin dálítið skrautleg.
Jæja, ég ætlaði ekki að hafa þetta svona langt, en þetta eru vissulega skemmtileg fræði og áhugaverð, sérstaklega vegna þess að þau eru ekki beinlínis einföld og auðskilin. Það er auðvelt að gleyma sér.
[Heimild – Ágúst H. Bjarnason]
Þarna beinlínis dregur Ágúst fram sínar “efasemdir” um kunnáttu loftslagsvísindamanna í ákveðnum fræðum sem hann telur sig hafa mikinn skilning á, vegna þess að hann hefur kynnt sér hvernig ákveðnir þættir virka innan verkfræðinnar út frá stærðfræði á blaði. Hann myndi sjálfsagt ekki vera sáttur við það að sérfræðingar í t.a.m. tannlækningum myndu segja honum til verka í verkfræði vinnunni sinni – enda gæti það farið illa í sambandi við ýmsa hönnun og útreikninga. Samt telur hann sjálfsagt að fullyrða um loftslagsfræðin út frá sinni sérfræðiþekkingu á reglunartækni…merkilegt nokk. Reyndar ber þess að geta að það er ekki deilt mjög hart á þessi fræði eins og Ágúst fullyrðir, allavega ekki á meðal breiðs hóps vísindamanna og allavega ekki á þann veg að það breyti heildardæminu að nokkru ráði – Heildarmyndin er sú staðreynd að jörðin er að hlýna af mannavöldum vegna losunar gróðurhúsalofttegunda. Á loftslag.is má t.d. lesa nánar um jafnvægissvörun loftslags sem virðist vera sá hluti sem Ágúst hefur miklar “efasemdir” um í athugasemd sinni og líka Mælingar staðfesta kenninguna.
Á realclimate.org var fjallað um náttúrulegar sveiflur og hvernig þær hafa áhrif á þróun hitastigs, sjá til að mynda eftirfarandi mynd þar sem reynt er að fjarlægja áhrif ENSO sem er sterkasta náttúrulega sveiflan til skemmri tíma og hefur verið í La Nina fasa (sem hefur almennt áhrif til kaldari hitastigs á heimsvísu) lengst af á þessari öld:
Nánar má lesa um þetta á realclimate.org, sjá 2012 Updates to model-observation comparisons.
Hvar er hlýnunin – ef hún skyldi þá vera týnd?
Annað sem maður þarf að spyrja sig að, ef maður vill skoða hugsanlegt hik í hnatthlýnun, er hvort að það finnist einhver mælanleg stærð þar sem finna má hlýnunina (ef hún skyldi nú vera týnd í huga einhvers). Og eins og m.a. Brynjólfur bendir á í athugasemdum hjá Ágústi þá má finna þær þekktu mælingar í hafinu, eins og sjá má á eftirfarandi mynd, þá fer yfir 90% af hlýnuninni í hafið:
Og svo má spyrja sig hvernig sú þróun hafi orðið…sem er væntanlega gagnleg spurning þegar þessi mál eru skoðuð. Eins og sjá má á eftirfarandi mynd þá hækkar varma innihald hafsins:
Og sjá – hnattræna hlýnunin er fundin, ekki það að hún hafi nokkurn tíma verið týnd í huga annarra en sjálfskipaðra “efasemdamanna” með órökstuddum tilgátum sem liggja langt fyrir utan sérsvið þeirra. Sjá t.d. nánar um svipað mál á SkepticalScience.com – Did Murdoch’s The Australian Misrepresent IPCC Chair Pachauri on Global Warming?
Tengt efni á loftslag.is:
- Er hlýnunin af völdum innri breytileika?
- Jafnvægissvörun loftslags
- Jafnvægissvörun Lindzen
- Myndband: Loftslagsbreytingar – Andmælin
- Kenningin og sagan:
Leave a Reply