Guðfræðingar, Píratar, kosningar, umhverfismál og loftslagsbreytingar af mannavöldum

Loftslagsbreytingar af mannavöldum virðast geta orðið að kosningamáli í kosningunum þann 27. apríl. Það má m.a. nefna ólgusjó Pírata undanfarna daga svo og fróðlegan spurningalista guðfræðinga sem sendur hefur verið til allra framboða. Spurningalistinn fjallar m.a. um loftslagsmálin.

pirata_FBEfsti maður Pírata í Reykjavík Suður (Jón Þór Ólafsson) hefur fullyrt opinberlega um fals og svik vísindamanna varðandi loftslagsbreytingar af mannavöldum, sjá m.a. frétt á DV, Pírati efast um loftslagsbreytingar af manna völdum. Það er athyglisvert að í athugasemdum við frétt DV hafa nokkrir Píratar tekið til máls og það er ekki að sjá að þau telji nokkuð rangt í skoðunum Jóns Þórs og þau velja að verja frelsi hans til að segja sína skoðun – sem honum er að sjálf sögðu velkomið. Jón Þór hefur sjálfur undirstrikað skoðanir sínar um fals vísindamanna í athugasemdum, þannig að það virðist vera hægt að slá því föstu að hann telji enn að loftslagsvísindi séu byggð á fölsunum og svindli. Þó það sé skýr réttur manna að hafa skoðanir, þá  fylgir því þó ábyrgð og sú ábyrgð er í samræmi við stefnu Pírata – hinn svokallaða Píratakóða – þar sem eftifarandi kemur fram:

Píratar eru friðelskandi, sjálfstæðir, sjálfráðir og hlýða ekki í blindni. Þeir vilja að einstaklingar hafi vald yfir sínum persónugögnum og njóti skoðanafrelsis. Píratar axla þá ábyrgð sem fylgir frelsi.

Ég vona að Píratar hafi þor og siðferðilegt hugreki til í að axla þá ábyrgð sem þessu frelsi fylgir. Það er ekki hægt að saka heila vísindagrein um fals og svindl án þess að fótur sé fyrir því og vilja svo ekki taka andsvörun upp á málefnalegan hátt – þau andsvör verða Píratar að taka á. Annað sem kemur fram í Píratakóðanum er:

Píratar eru fróðleiksþyrstir
Aðgengi að upplýsingum, menntun, þekkingu og vísindaniðurstöðum verður að vera ótakmarkað.

Gott mál – það er hægt að styðja þetta – en að sjálfsögðu gefur þetta ekki opið veiðleyfi á vísindalegar niðurstöður sem ekki eru í takt við persónulegar skoðanir einstaklinga. Hitt er annað mál að það má kannski spyrja sig hvenær aðgengi að upplýsingum sé ótakmarkað – til að mynda er nánast allt efni varðandi vísindalegar niðurstöður um loftslagsbreytingar af mannavöldum aðgengilegt í einhverju formi á einn eða annan hátt. Það má segja að það megi nú orðið finna allar þær “upplýsingar” sem fólk vill nálgast, til að mynda með því að gúgla á netinu – það á ekki síður við um hluti sem ekki standast skoðun. Það mætti því kannski bæta því við í Píratakóðann að vísindaniðurstöður (og fleiri niðustöður) eigi að byggja á gæðum og góðum rannsóknum, en ekki einhverju “kukl gúgli” einstaklinga eða persónulega lituðum skoðunum. Píratapartýið þarf að sjálfsögðu að þola að taka gagnrýni á skoðanir frambjóðenda og flokksins – sama gildir aðra flokka. Það fylgir því nefnilega ábyrgð að setja fram samsæriskenningar eins og Jón Þór gerir og það er komin tími til að hann læri af mistökum sínum, eða eins og Píratar velja að orða það í Píratakóðanum “Píratar læra af mistökum sínum.”

Hitt er annað mál að Píratar eru svo sem ekki einu stjórnmálasamtökin sem hafa innan sinna raða fólk sem afneitar loftslagsbreytingum af mannavöldum – sjá til að mynda Íslenskar “efasemdir” um hnatthlýnun af mannavöldum rækilega skjalfestar hér á loftlsag.is. Fólk innan raða Sjálfstæðismanna (til að nefna nærtækt dæmi) hafa einnig sett fram háværar efasemdir og það er ekki eitt orð um loftslagsmálin á kosningasíðu þeirra.

gudfraedingar

Á Facebook má finna hópinn Guðfræðingar krefjast svara, þar sem hópur 5 guðfræðinga hafa tekið sig saman og sent fyrirspurn til framboðanna varðandi orkumál, loftslagsmál og flóttamannamál. Þetta eru allt málefni sem verða ofarlega á döfunni á næstu árum og áratugum, en þó alls ekki sjálfgefið að stjórnmálamenn hafi forgangsraðað því ofarlega á lista kosningaloforða í ár. Vinstri GrænDögun og Björt Framtíð hafa nú þegar svarað guðfræðingunum – svörin má lesa í tenglunum. Önnur framboð hafa enn sem komið er ekki svarað. Það verður fróðlegt að fá svör frá fleiri stjórnmálaöflum á spurningum guðfræðinganna og vonandi sjá Píratar sér líka fært að svar, enda er spurningalistinn allrar athygli verður og fróðlegur (sama hvaða trúarlegu skoðanir fólk kann að hafa). Við hvetjum framboðin til að svara spurningalista guðfræðinganna.

Umhverfisverndarsamtök á Íslandi hafa einnig spurt framboðin um megináherslur í umhverfismálum fyrir kosningarnar 2013 – svörin má finna á YouTube-vefnum xUmhverfisvernd – þar sem 9 framboð hafa þegar svarað og er það vel að framboðin skýri sína stefnu – hver sem hún kann að vera.

Tengt efni á loftslag.is:

Athugasemdir

ummæli

About Sveinn Atli

Sveinn Atli: Fjölskyldumaður og áhugamaður um loftslagsmál.