Stefna eða stefnuleysi nýrrar ríkisstjórnar varðandi loftslagsmál

althingishusMikið hefur verið rætt um umhverfismálin og stefnu nýrrar ríkisstjórnar í þeim efnum að undanförnu. Vangaveltur um það hvort að umhverfisráðuneytið fái að lifa eður ei hafa verið áberandi og erfitt er að greina hver stefnan er í þeim efnum enn sem komið er. Það er alveg þess virði að prófa að rýna á málefnalegan hátt í þá stefnu sem stjórnvöld virðast ætla að marka þegar skoðaðar eru ýmsar opinberar yfirlýsingar og gögn um loftslagsmálin.

Varðandi loftslagmálin, þá eru nokkur atriði sem hafa komið fram, til að mynda sagði háttsettur forsætisráðherra í stefnuræðu sinni:

Umhverfisvernd og barátta gegn loftslagsbreytingum er eitt af helstu sameiginlegu viðfangsefnum heimsbyggðarinnar.

Þar getur Ísland lagt mikið af mörkum og gert betur.

Aukin uppbygging og endurheimt gróður- og jarðvegsauðlinda og efling skógræktar og landgræðslu mun auka kolefnisbindingu. Mikilvægt er að skipuleggja þær aðgerðir vel og stuðla um leið að nýtingu innlendra vistvænna orkugjafa.

Svona yfirlýsingum er varla hægt annað en að vera sammála, þó manni geti í raun fundist að það þurfi að ganga lengra í varðandi það að minnka losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum. En þó er ljóst að Sigmundur Davíð veit að loftslagsbreytingar [af mannavöldum] eiga sér stað og vill í orði berjast gegn þeim – sem er jákvætt. Í öðrum hluta stefnuræðunnar skoðar hann hin meintu tækifæri varðandi loftslagsbreytingar í framtíðinni:

Mikilvægi matvælaframleiðslu á norðurslóðum mun aukast umtalsvert  í framtíðinni. Þar eiga Íslendingar ónýtt tækifæri, til dæmis með nýsköpun í landnýtingu, auknu fiskeldi og ylrækt.

Sífellt vaxandi eftirspurn eftir mat í heiminum mun skapa íslenskum landbúnaði ótal sóknarfæri.

Framleiðsluaukning í landbúnaði getur bæði minnkað gjaldeyrisþörf vegna innflutnings matvæla og gefið aukin tækifæri til útflutnings ef unnið verður kröftuglega að markaðssetningu íslenskra afurða erlendis á næstu árum og áratugum.

[..]

Þar þurfum við meðal annars að horfa til aukinnar  áherslu á samstarf við aðrar þjóðir varðandi  nýtingu nýrra tækifæra sem tengjast breyttu loftslagi, nýjum auðlindum og breyttum aðstæðum í heiminum á næstu áratugum.

Ísland þarf að leggja áherslu á að vera í fararbroddi í norðurslóðasamstarfi,  með tilliti til nýtingar auðlinda á svæðinu, umhverfisverndar og opnunar nýrra siglingaleiða um norðurhöf.

Ný tækifæri, eins og t.a.m. opnun siglingaleiða, aukin landbúnaðarframleiðsla og nýting auðlinda virðast vera aðal áhersluefnin. Þetta virðist ríma vel við stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar, þar sem segir meðal annars í kaflanum um landbúnað að þar séu ýmis tækifæri (sem væntanlega má m.a. rekja til breytinga í loftslagi eins og Sigmundur kemur inná í stefnuræðu sinni):

Vaxandi eftirspurn eftir mat á heimsvísu skapar íslenskum landbúnaði sóknarfæri með möguleikum á aukinni framleiðslu og margbreytilegum afurðum. Ríkisstjórnin mun gera íslenskum landbúnaði kleift að nýta þau sóknarfæri sem greinin stendur frammi fyrir.

[..]

Til að bregðast við aukinni eftirspurn eftir matvælum og hækkandi verðlagi verður skipaður starfshópur til að móta tillögur um hvernig auka megi matvælaframleiðslu á Íslandi og tryggja að ávinningur af aukinni eftirspurn og sókn á nýja markaði skili sér í bættum kjörum bænda.

Starfshópur mun fara yfir og móta tillögur byggðar á þeim tækifærum sem virðast gerðar væntingar til á næstu áratugum. Það er í sjálfu sér gott að vita hvað leynist í framtíðinni, svo langt sem það nær og það leynast alltaf einhver tækifæri í því að hafa sem bestar upplýsingar um stöðu mála hverju sinni. Ef maður skoðar ályktanir flokksþings Framsóknarmanna [PDF], þá virðist ljóst að þessi tækifæri íslensk landbúnaðar séu vegna breytinga í loftslagi:

Með hlýnandi loftslagi skapast ný og spennandi sóknarfæri. Aukin akuryrkja, nytjaskógrækt  og fjölbreyttari innlend matvælaframleiðsla er hluti af því að efla íslenskan landbúnað.

“Spennandi sóknarfæri” eru því í pípunum þegar hlýnun jarðar er skoðuð út frá ályktunum flokksþings Framsóknarmanna. Það er kannski þess vegna sem að í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar er stefnt að því að:

Ríkisstjórnin mun eins og kostur er stuðla að því að nýting hugsanlegra olíu- og gasauðlinda geti hafist sem fyrst, finnist þær í vinnanlegu magni.

Ef það má notast við líkingu varðandi eldvarnir, það á s.s. að stefna að því í orði að koma eldvörnunum upp, en á sama tíma hella bensíni á eldsmatinn og svo vonast eftir “spennandi sóknarfær[um]” í framhaldinu. Þetta rímar ekki vel við þá stefnu að berjast gegn loftslagsbreytingum, eins og háttvirtur forsætisráðherra boðaði í stefnuræðu sinni.

Varðandi hin “spennandi sóknarfæri” í landbúnaði í hlýnandi heimi, þá er kannski ekki auðvelt að spá um hvað gerist staðbundið. Hér á Íslandi gætu válynd veður með kali í túnum eins og hafa átt sér stað víða um norðanvert landið í vetur sett strik í reikning hinna “spennandi sóknarfær[a]”. Það er því kannski fullmikil einföldun að fullyrða að hlýnandi loftslag innihaldi endilega “spennandi sóknarfæri”. Breytingar í loftslagi geta líka haft í för með sér neikvæðar breytingar sem erfitt getur verið að bregðast við. Það virðist vera í eðli stjórnmála að einblína á hlutina frá þeirri hlið sem kemur betur út fyrir stjórnmálin sjálf og forðast vandamál sem stjórnmálamönnum hugnast ekki að ræða og/eða almenningur vill ekki hugsa um. Þ.a.l. verður kannski seint reynt að skoða þessi mál með opnum huga á hinu háa Alþingi. Það virðist aðeins eiga að skoða hin “spennandi sóknarfæri” og sleppa neikvæðum hlutum eins og hvaða áhrif loftlagsbreytingar af mannavöldum geta í raun haft og á sama tíma á að stefna að því að stjórnvöld helli bensíni á eldsmatinn með stjórnvalds aðgerðum sem eiga að “stuðla að [..] nýting[u] hugsanlegra olíu- og gasauðlinda”.

Það er mjög varhugavert að draga línuna á þann hátt að skoða aðeins aðra hlið málsins (og láta líka líta út fyrir að sú hlið sé full af “spennandi sóknarfær[um]”) en sleppa þeim vandamálum sem finna má þegar aðrar hliðar málsins eru skoðaðar. Það er væntanlega vandkvæðum bundið að alhæfa einhliða um aukna landbúnaðarframleiðslu og “spennandi sóknarfæri” þegar óvíst er hvað mun gerast í framtíðinni við hærra hitastig og meiri öfga í veðri. Öfgar í veðurfari eru ekki endilega líklegir til að búa til “spennandi sóknarfæri” í landbúnaði, þó ekki sé hægt að útiloka það staðbundið eða á tímabilum þegar öfgar eru minni. Það er líka ákveðið vandamál fyrir fiskveiðiþjóð eins og Ísland að heimshöfin súrni vegna losunar mannkyns á koldíoxíð. Það er vandamál sem gæti kippt stoðum undan fiskveiðum landsins til framtíðar – en stjórnmálamenn velja frekar að einblína á “spennandi sóknarfæri” sem í þeirra augum hljóta að vera framundan og eiga að styðja við hagvöxt og velsæld í landinu til frambúðar. Það getur vel verið að það séu tækifæri í stöðunni, en það má ekki útiloka umræðu um neikvæðar hliðar málsins eða mögulegar lausnir til frambúðar með fókus á minni losun og bindingu gróðurhúsalofttegunda, lausnir sem ekki innihalda og ýta undir enn frekari olíu- og gasvinnslu.

Hitt er annað mál að ég tel að umræða um þessi mál endurspegli að hluta til vilja og upplýsingu þjóðarinnar í þessum efnum og því ekki eingöngu hægt að kenna stjórnmálamönnum um að velja að fylgja straumnum án gagnrýninnar skoðunar á málinu. En það má þó benda málefnalega á mótsagnir í umræðunni og benda á að það ætti alls ekki að líta á loftslagsvandann sem sóknarfæri, heldur vandamál sem þarf að taka föstum tökum á heimsvísu – þar með talið okkar framlag hér á landi. Opin umræða um þessi mál þarf að fara fram og þarf að byggjast á því að skoða allar hliðar málsins – líka neikvæðar hliðar þess, þó það geti orðið erfitt og sé jafnvel ekki líklegt til vinsælda í kosningum.

Heimildir:

Tengt efni á loftslag.is:

Athugasemdir

ummæli

About Sveinn Atli

Sveinn Atli: Fjölskyldumaður og áhugamaður um loftslagsmál.