Fuglar í vanda

Nokkrar nýjar greinar og skýrslur undanfarið sýna klárlega að vandi fugla er mikill og verður enn meiri við áframhaldandi loftslagsbreytingar og aðrar neikvæðar breytingar af mannavöldum.

Rauði listinn

toco-toucan-wild-reallySamkvæmt nýju mati þá er á bilinu fjórðungur til helmingur allra tegunda fugla  mjög berskjölduð (e. vulnerable) fyrir loftslagsbreytingum. Varað er við því að ef áfram heldur sem horfir í losun manna á gróðurhúsalofttegundum,  þá muni þurfa að kosta til miklum verndunaraðgerðum, sem ekki er víst að dugi til.

Þetta nýja mat (Foden o.fl. 2013) var gert af vísindamönnum á vegum International Union for Conservation of Nature (IUCN), sem eru samtök sem meðal annars útbúa svokallaðan Rauða lista yfir tegundir í hættu (Red List of Threatened Species).

Í matinu tóku Foden og félagar tillit til ýmissa þátta sem ekki höfðu áður ratað inn í útreikninga þeirra. Þættir eins og hversu fljótt tegundir gátu flust á milli búsvæða, og hvort á milli svæða væru hindranir, t.d. fjallgarðar. Þá var tekið með í reikninginn líkur á því að tegundirnar geti þróast, t.d. þróast þær dýrategundir hraðar sem fjölga sér hratt.

Niðurstaðan er sláandi, en á bilinu 24 -50% allra fuglategunda eru talin mjög berskjölduð og þá vegna loftslagsbreytinga. Þessi niðurstaða er sambærileg við niðurstöðu rannsóknar sem birtist í Nature fyrir nokkrum árum (Thomas o.fl. 2004), en þar var talið líklegt að um 15-37 % allra dýrategunda yrðu nánast údauðar árið 2050 – vegna loftslagsbreytinga.

Sérstaklega varasöm svæði eru t.d. Amazon frumskógurinn og Norðurskautið, en þar eru breytingarnar einna mestar og mikið af fuglum sem eru mjög aðlagaðir að því loftslagi.

Norrænir fuglar við sjávarsíðuna

Í nýrri tilkynningu frá hinni bandarísku  stofnun Fish and Wildlife Service (USFWS 2013) er sagt frá breytingum sem við íslendingar könnumst við. Meðfram ströndum Maine, nyrst á Austurströnd Bandaríkjanna, hafa stofnstærðir ýmissa fugla hrunið undanfarin ár. Þar eins og hér við Íslandsstrendur eru það meðal annars tegundir eins og lundar og kríur sem hafa farið halloka.

Ástæðan er talin vera minnkandi fæða, hvoru tveggja vegna fiskveiða og vegna færslu fiskistofna til norðurs vegna hlýnunar sjávar. Erfiðara reynist því fyrir fugla við sjávarsíðuna að fæða unga sína. Kríustofninn við strendur Maine hefur t.d. hnignað um 40 % á síðustu 10 árum.

Sjávarstöðubreytingar og farflug vaðfugla

Nýlega birtist grein í Proceedings of the Royal Society B (Iwamura o.fl. 2013) um áhrif sjávastöðubreytinga á farflug vaðfugla.

Red-Knot-Terek-Sandpipers-Broad-billed-Sandpipers-etcÞað hefur verið vitað í nokkurn tíma að sjávarborð sé að hækka vegna hlýnunar jarðar. Nú hafa Iwamura og félagar sýnt fram á hvernig sjávarstöðubreytingar hafa áhrif á vaðfugla. Milljónir vaðfugla stunda farflug milli hlýrra vetrarstöðva og fæðuríkari sumarstöðva á hverju ári. Viðfangsefni rannsóknarinnar var farflug vaðfugla frá Norðurskautssvæðum Rússlands og Alaska og suður eftir til Suðaustur Asíu og Ástralíu. Skoðaðar voru 10 tegundir vaðfugla.

Vísindamennirnir hafa áætlað að við sjávarstöðuhækkanir þá muni flæða yfir 23-40% af búsvæðum við ströndina, sem myndi valda allt að 70% fækkun í stofnum sumra tegunda. Sjávarstöðuhækkanir eru taldar hafa mest áhrif á þær tegundir fugla þar sem stór hluti stofnsins stoppar á einum stað í farfluginu, til að matast og endurnýja orkuna fyrir áframhaldandi för. Þessir flöskuhálsar ákvarða í raun stofnstærð þessara tegunda og því mun eyðilegging þeirra vegna sjávarstöðuhækkanna og annarra athafna mannanna hafa úrslitaáhrif í viðhaldi þeirra.

Fleiri búsvæðabreytingar

Að lokum er rétt að minnast á skýrslu BirdLife International (2013), en þar kemur meðal annars fram að allt að 1 tegund af hverjum 8 séu í útrýmingahættu – og þá sérstaklega vegna búsvæðabreytinga í kjölfar loftslagsbreytinga og landbúnaðar.

BirdLife samstarfið hefur sett niður á kort mikilvæg svæði jarðar fyrir fugla og líffræðilega fjölbreytni (Important Bird and Biodiversity Areas). Þau svæði eru nú orðin yfir 12 þúsund að tölu.

Hér hafa verið kortlögð mikilvæg svæði fyrir fugla og líffræðilega fjölbreytni (Important Bird and Biodiversity Areas) - smellið á mynd til að stækka

Hér hafa verið kortlögð mikilvæg svæði fyrir fugla og líffræðilega fjölbreytni (Important Bird and Biodiversity Areas) – smellið á mynd til að stækka

Við endum á orðum eins af forsvarsmönnum BirdLife, Dr Leon Bennun – hér lauslega þýtt:

Fuglar eru í raun nákvæmir og auðlæsir umhverfismælar sem sýna glöggt það álag sem lífsmynstur nútímamanna hefur á líffræðilegan fjölbreytileika jarðarinnar.

 

Heimildir og ítarefni

Foden o.fl. 2013: Identifying the World’s Most Climate Change Vulnerable Species: A Systematic Trait-Based Assessment of all Birds, Amphibians and Corals

Rauði Listinn: Red List of Threatened Species

Thomas o.fl. 2004: Extinction risk from climate change (PDF)

USFWS 2013:  Seabirds Warn of Ocean Change

Iwamura o.fl. 2013: Migratory connectivity magnifies the consequences of habitat loss from sea-level rise for shorebird populations

BirdLife International 2013: State of the World’s Birds – indicator for our changing worlds

Tengt efni á loftslag.is

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál