RIFF 2013 – Önnur framtíð

Nú er að renna upp sú tíð sem íslenskir kvikmyndaáhugamenn hafa beðið eftir, en það er alþjóðlega kvikmyndahátíðin RIFF í Reykjavík (Reykjavík International Film Festival).

Að venju er nokkur hluti hátíðarinnar tileinkaður “Grænum myndum” á RIFF sem hefst 26. september nk. og stendur til 6. október.  Margar álitnar spurningar vakna:
Getum við haldið í lífsmynstur okkar eða er kominn tími til að breyta til? Ræður plánetan við þessa meðferð? Komum við vel fram hvort við annað? Hvernig getum við lagt af mörkum til annarrar og betri framtíðar? Í þessum heimildarmyndunum er leitað svara við þessum spurningum og bent á lausnir.

Hér fyrir neðan er lýsing á grænu myndunum og við vekjum sérstaka athygli á loftslagstengdum heimildarmyndum með því að tengja á sýnishorn þeirra af youtube:

Álöldin / The Age of Aluminum / Die Akte Aluminum
Leikstjóri: Bert Ehgartner (AUT) 2012 / 52 min
Ál er í stórsókn og hefur fundið sér leið inni í hvern einasta kima lífs okkar: svitalyktareyðar, sólarvörn, bólusetningar eða drykkjarvatn. En hvað vitum við í raun og veru um aukaverkanir af daglegri neyslu þess? Þessum létta málmi fylgja þungavigtar afleiðingar. Nýjustu rannsóknir tengja það við aukningu á Alzheimer, brjóstakrabbameini og fæðuofnæmi. Flókin vinnsla áls er einnig vistfræðilegt álitaefni.

Bylting / Revolution
Leikstjóri: Rob Stewart (CAN) 2012 / 87 min
Falleg og ögrandi kvikmynd sem kemur til með að skjóta ýmsum skelk í bringu. Leikstjórinn Rob Stewart leggur upp í lífshættulega langferð til þess að komast að sannleikanum um ástand Jarðarinnar. Hann sýnir fram á að allar okkar aðgerðir eru tengdar og að eyðilegging náttúrunnar, útrýming dýrategunda, súrnun sjávar, mengun og fæðu- og vatnsskortur eru að minnka getu Jarðarinnar til þess að hýsa mannfólkið. Við að ferðast um hnöttinn og hitta fólk sem vinnur að lausn vandans finnur Stewart hvatningu og von með byltingar fortíðarinnar að leiðarljósi.

 

EBM GMG / GMO OMG
Leikstjóri: Jeremy Seifert (USA) 2013 / 90 min
EBM GMG segir leynda sögu þess að risavaxin efnafyrirtæki hafa tekið yfir fæðuframboð okkar; landbúnaðarlegu hættuástandi sem er orðið að menningarlegu hættuástandi. Myndin fylgist með baráttu leikstjórans og fjölskyldu hans fyrir því að lifa og borða án þess að taka þátt í óheilbrigðu, ósanngjörnu og eyðileggjandi fæðukerfi.

Framtíðin ástin mín / Future my love
Leikstjórir: Þegar kvikmyndagerðarmaðurinn Maja Borg er við það að glata ástmegi hugsjóna sinna, fer hún með okkur í ljóðrænt ferðalag um fjármálahrunið og kannar róttækt efnahags- og félagslegt líkan, sett fram af 95 ára fútúrista, Jacque Fresco. Með sköpun sérstæðrar áferðar, úr varfærnislegum vef myndbrota úr safni, svarthvítrar Super 8 filmu og háskerpu í lit, dregur Maja Borg upp áleitna mynd af óvenjulegri ástarsögu á sama tíma og hún ögrar sameiginlegum og persónulegum útópíum okkar sem hverfast um frelsisleit.

Fljót breytir um stefnu / A River Changes Course
Leikstjóri: Kalyanee Mam (CAM / USA) 2013 / 83 min
Verðlaunamynd af Sundance-hátíðinni. Kalyanee Mam dvaldi um tveggja ára tímabil
í heimalandi sínu og vann þar með sinn einlæga stíl þar sem viðfangsefnið er
skoðað á raunverulegan og athugandi hátt (“cinema verité”). Hún segir sögu þriggja
fjölskyldna sem búa í Kambódíu dagsins í dag. Þær standa frammi fyrir erfiðum
ákvörðunum vegna örrar þróunar og glíma við að viðhalda sínum hefðbundnu lífsháttum
þegar nútíminn þrengir að þeim.

Gráðugur ljúgandi bastarður / Greedy Lying Bastard
Leikstjóri: Loftslagsbreytingar búa ekki lengur í spádómum um framtíðina heldur eiga hlutdeild í raunveruleika dagsins í dag. Þrátt fyrir að sannanir um loftslagsvánna hrannist upp og samhljóða álit vísindanna vitni um sekt mannsins í þessu máli gætir áfram takmarkaðs pólitísks vilja til þess að koma í veg fyrir hlýnun plánetunnar okkar. Gráðugir ljúgandi bastarðar skoðar þennan hóp manna og samtaka sem breiða út efasemdir um loftslagsvísindi og staðhæfa að gróðurhúsalofttegundir komi ekki hegðun mannsins við.

Grimmur grænn eldur: Baráttan fyir lifandi hnetti / A Fierce Green Fire; The Battle for a Living Planet
Leikstjóri: Mark Kitchell (USA) 2012 / 114 min
Þetta er fyrsta stórmyndin sem segir frá umhverfisverndarhreyfingunni í heild sinni – grasrótarstarfi og aktívisma í mismunandi löndum, yfir fimmtíu ára tímabil frá verndarstefnu til loftslagsbreytinga. Hún var frumsýnd sem verk í vinnslu á Sundance fyrr á þessu ári og nú hefur framleiðslu endanlega verið lokið. Kvikmynd hefur aldrei áður útskýrt sögu umhverfisverndar frá a til ö og vonandi verður þetta áhrifamikil mynd sem nær til, og fræðir, stóran hóp hungraðra áhorfenda.


Hvarfpunktur / Vanishing Point

Leikstjórar: Julia Szucs & Stephen A. Smith (CAN) 2012 / 83 min
Þessi heimildarmynd segir sögu tveggja inúítasamfélaga á norðurheimsskautssvæðinu. Annað á kanadísku eyjunni Baffin og hitt í Norð-Vestur Grænlandi. Svæðin tvö tengjast gegnum landflutninga undir forystu frækins töframanns. Navarana, heldri maður af Inughuit-ætt og afkomandi töframannsins, sækir innblástur og von í þessi tengsl til þess að horfast í augu við afleiðingarnar af hröðum breytingum á samfélaginu og umhverfinu.

Indverskt sumar / Indian Summer
Leikstjóri: Simon Brook (FRA) 2013 / 84 min
Indverskt sumar er gamansöm vegamynd um ferðalag um Suður-Indland til að kanna læknismeðferðina Ayurvedic, fimm þúsund ára óhefðbundna lækningu. Myndin fylgir óvenjulegu pari: Heimsfrægum frönskum eitlalækni sem þráir að kynnast annars konar lækningum og draga þekkingu sína í efa og fyrrverandi sjúklingnum hans sem valdi indverskar lækningar fram yfir þá meðferð sem mælt er með. “Læknisfræðilegur gamanleikur” sem fjallar á nýstárlegan og frumlegan hátt um efnið.

Leiðangur á enda veraldar / Expedition to the End of the Word / Ekspeditionen til Verdens Ende
Leikstjóri: Daniel Dencik (DEN / SWE) 2013 / 59 min
Stórfengleg og alvöru ævintýramynd þar sem listamenn og vísindamenn fá tækifæri til að upplifa löngu gleymdan æskudraum. Á þrímastra skonnortu fullri af listamönnum, vísindamönnum og metnaði sem hefði sæmt Nóa eða Kólumbusi er lagt af stað á enda veraldar: að síbráðnandi jökulbreiðum Norðaustur Grænlands. Söguleg háskaför þar sem áhöfnin stendur einnig frammi fyrir tilvistarlegum spurningum.

Loforð Pandóru / Pandora’s Promise
Leikstjóri: Robert Stone (USA) 2013 / 87 min
Í Loforði Pandóru, bendir leikstjórinn Robert Stone á að í stað þess að eyða mannkyninu muni kjarnorka hugsanlega bjarga því. Ein margra óvæntra staðreynda sem afhjúpaðar eru í myndinni er sú að vopnakapphlaup Kalda stríðsins skaffi nú eldsneyti fyrir jörðina: 10% af raforku Bandaríkjanna er unnin úr rússneskum kjarnaoddum. Djúphugul mynd sem opnar inn á nauðsynlega umræðu – og veitir langþráða framtíðarvon.

Sjá einnig á heimasíðu RIFF

 

Athugasemdir

ummæli

Tags:

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál