Þeir sem fylgjast með loftslagsvísindum vita að nú hefur birst uppkast að fyrstu skýrslunni af þremur um loftslagsmál á vegum IPCC (AR5). Um er að ræða skýrslu vinnuhóps 1 sem heldur utan um þá vísindalegu þekkingu sem til er varðandi veðurfar og loftslagsbreytingar. Vinna þessa hóps fær yfirleitt mesta athygli, en vinnuhópar 2 og 3 fjalla um aðlögun og aðgerðir vegna loftslagsbreytinga.
Þó að heildarniðurstaðan sé svipuð og í síðustu skýrslu, sem birtist árið 2007 (AR4), þá er ýmislegt sem hefur breyst frá því þá. Niðurstaðan er þó orðin ljósari en áður og lítill vafi virðist vera á mannlegum orsökum núverandi hlýnunar. Hér er stutt samantekt á því sem helst ber á milli skýrslunar frá 2007 og þeirrar nýju. Þetta er alls ekki tæmandi listi, enda hafa fjölmargar vísindagreinar, nokkur ár af nýjum gögnum og ný og fullkomnari líkön bæst við í sarpinn síðan síðasta skýrslan kom fram. Helstu breytingar sem við veljum að nefna hér eru eftirtaldar:
- Kólnunaráhrif arða í lofthjúpnum eru taldar minni en áður áætlað
- Framlag sólarinnar til hækkunar hitastigs frá 1750 er talið minna en áður áætlað
- Sjávarstaða á heimsvísu er talið munu rísa meira en áður var áætlað fyrir árið 2100
- Það er minni vissa um að aukning úrkomu hafi átt sér stað – en meiri vissa um aukna úrkomu í framtíðinni
- Það er ekki breyting í vissu um að tíðni mikillar úrkomu hafi aukist – en meiri vissa að mikil úrkoma muni aukast í framtíðinni
- Það er engin breyting á fyrri ályktunum varðandi leitni flóða, hvorki í fortíð né framtíð
- Það er minni vissa um aukningu þurrka eða að það hafi orðið sjáanleg breyting í þurrkum frá 1950
- Það er minni vissa um aukningu fellibylja
- Neðri mörk jafnvægissvörunar loftslags var fært úr 2°C í 1,5°
Nýjar rannsóknir og betri greiningartækni hefur aukið þekkingu vísindamanna á loftslagsbreytingum af mannavöldum. Þrátt fyrir það eru óvissuþættir nokkrir og hafa jafnvel aukist í sumum þáttum frá síðustu skýrslu.
Samkvæmt nýju skýrslunni þá er mjög líklegt (extremely likely), eða yfir 95% líkur að athafnir manna hafi valdið meira en helming þeirrar hlýnunar sem varð frá 1951-2010. Sú vissa hefur aukist frá því að vera yfir 90% eða líklegt samkvæmt skýrslunni 2007. Áhrif aukinna gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum eru margvísleg. Sjávarstaða hækkar, úrkomumynstur breytast, hafís og jöklar minnka – en allir þessir þættir eru í neikvæðara ástandi en áður var talið.
Einn mikilvægur punktur er að breyting hefur orðið á loftslagslíkönum og notaðar aðrar sviðsmyndir. Hver ný sviðsmynd um losun (RCP – Representative Concentration Pathway) er fulltrúi ákveðins geislunarálags – eða hversu mikla auka orku jörðin mun taka til sín vegna athafna manna. Hin nýju RCP líkön ná yfir stærra svið framtíðarhorfa en gömlu SRES sviðsmyndirnar og því varasamt að bera saman líkön AR4 og AR5.
Kólnunaráhrif arða í lofthjúpnum eru taldar minni en áður áætlað
Örður hafa áhrif á loftslag á tvennan hátt, annars vegar með því að dreifa sólarljósi aftur út í geim og hins vegar með því að mynda ský. Loftslagslíkön taka nú í meira magni inn þátt skýja og ferli tengd örðum. Niðurstaða nákvæmari líkana valda því að kólnunaráhrif arða virðast minni en áður hefur verið talið. Þrátt fyrir aukna þekkingu og nákvæmari líkön þá eru örður enn stærsti óvissuþátturinn við að meta hversu mikil hlýnunin er og verður af völdum manna. Þessi óvissa veldur einnig óvissu við fínstillingu jafnvægissvörunar loftslags (sjá nánari umfjöllun um jafnvægissvörun loftslags hér neðar).
Framlag sólarinnar til hækkunar hitastigs frá 1750 er talið minna en áður áætlað
Í nýju skýrslunni eru nokkrar rannsóknir teknar með þar sem könnuð eru áhrif sólar á loftslag með því að breyta skýjahulu. Niðurstaða skýrslunnar eru þó þær að þau áhrif séu lítil og hafi verið léttvæg síðastliðna öld. Ennfremur er fylgni milli útgeislun sólar og hitabreytinga mjög lítil. Á milli áranna 1980 og 2000 hækkaði hitastig hratt, á sama tíma og sólvirkni minnkaði.
Þó að sólvirkni hafi minnkað frá árinu 1980 og til dagsins í dag, sem veldur neikvæðu geislunarálagi, þá er það þannig að ef skoðað er tímabilið frá upphafi iðnbyltingarinnar (frá 1750 og þar til nú), þá er geislunarálagið jákvætt. En áframhaldandi niðursveifla í sólvirkni hefur orðið til þess að geislunarálag sólarinnar hefur minnkað frá síðustu skýrslu.
Vissan er lítil varðandi spádóma um framtíðarsólvirkni. Því reikna líkön með því að sólvirkni haldist óbreytt. Ekki er talið líklegt að loftslag hverfi aftur til þess tíma þegar litla ísöldin var og hét vegna minnkandi sólvirkni (minna en 10% líkur), enda muni hlýnun af mannavöldum yfirskyggja minnkandi sólvirkni.
Sjávarstaða á heimsvísu er talin munu rísa meira en áður var áætlað fyrir 2100
Samkvæmt nýju skýrslunni þá er talið líklegt (a.m.k. 66% vissa) að sjávarstaða verði 0,29-0,82 m hærri í lok aldarinnar en á viðmiðunartímabilinu 1986-2005, samkvæmt öllum sviðsmyndum. Þetta er hærra en árið 2007, en þá var talið líklegt að sjávarstaða myndi hækka frá 0,18-0,59 m.
Framlag Grænlands og Suðurskautsins til hærri sjávarstöðu hefur hækkað frá síðustu skýrslu. Þekking vísindamanna á eðlisfræði jökulhvela hefur aukist, auk þess sem gögn eru mun betri sem sýna bráðnun og hreyfingu jökla.
Við síðustu skýrslu þá var vísindaleg þekking talin ófullnægjandi til að meta líklegar sjávarstöðuhækkanir. Þekkingin hefur styrkst en samt er aðeins meðal vissa um framtíðarsjávarstöðuhækkanir. Það er að hluta til vegna þess að mat á hreyfingum jökla er tiltölulega nýtt og vegna þess að nokkur munur er á þeim líkönum sem meta sjávarstöðubreytingar.
Það er minni vissa um að aukning úrkomu hafi átt sér stað – en meiri vissa um aukna úrkomu í framtíðinni
Vissan hefur minnkað frá síðustu skýrslu um að úrkoma hafi aukist frá árinu 1900. Hins vegar er vissan meiri en síðast eða nánast öruggt (yfir 99% líkur) að meðalúrkoma muni aukast hnattrænt um 1-3% við hverja °C hækkun hitastigs.
Breytileiki verður nokkur milli svæða, en almennt séð þá verða blaut svæði blautari og þurr svæði geta orðið þurrari. Það væri í samræmi við þá leitni sem sést hefur með gervihnöttum frá árinu 1979.
Fram til ársins 2100 verða úrhellisatburðir mjög líklegir á sumum svæðum (yfir 90% líkur), hér hefur vissa aukist frá síðustu skýrslu. Þeir atburðir verða öfgafyllri en geta þó orðið sjaldnar. Í heildina er búist við að öfgar í úrkomu muni breytast hraðar en meðalaukning í úrkomu við hækkandi hita.
Það er engin breyting á fyrri ályktunum varðandi leitni flóða, hvorki í fortíð né framtíð
Bæði þá og nú, hafa vísindamenn ekki séð neina leitni flóða og því lítil vissa um breytingar á stærð og tíðni flóða hnattrænt. Ennfremur eru engir spádómar um aukin flóð í framtíðinni.
Það er minni vissa um aukningu þurrka eða að það hafi orðið sjáanleg breyting í þurrkum frá 1950
Samkvæmt uppkasti nýju skýrslunnar þá er lítil vissa um að breytingar hafi orðið á þurrkum hnattrænt frá árinu 1950 og að menn eigi þar þátt í breytingum á þurrkum.
Varðandi framtíðina, þá þykir líklegt (a.m.k. 66% vissa) að sum svæði muni finna fyrir auknum þurrkum, en hnattrænt er óvissan mikil.
Það er minni vissa um aukningu fellibylja
Samkvæmt nýju skýrslunni þá er minni vissa um að það hafi orðið langtímaaukning í fellibyljum hnattrænt og lítil vissa um þátt manna í þeim breytingum. Ástæðan er endurgreining gagna, þar sem tekið er meira tillit til auðveldara aðgengi að gögnum. Nýrri gögn benda til þess að að núverandi breytingar séu mögulega innan náttúrulegs breytileika.
Meðal vissa er um að tíðni fellibylja muni minnka eða haldast stöðugt í framtíðinni. Hins vegar er líklegra en ekki að tíðni sterkustu fellibyljana muni aukast (meira en 50% líkur) á þessari öld
Neðri mörk jafnvægissvörunar loftslags var fært úr 2°C í 1,5°C
Jafnvægissvörun loftslags við tvöföldun CO2 í andrúmsloftinu er oft notað til að reikna út hækkun hitastigs í framtíðinni, sjá m.a. Jafnvægissvörun loftslags hér á loftslag.is. Í nýju skýrslu IPCC er þessi jafnvægissvörun hitastigs talin geta verið á bilinu 1,5° – 4,5°C. Breytingin frá fyrri skýrslu er sú að lægra gildið hefur lækkað úr 2°C í 1,5°C – en efri mörkin eru enn þau sömu. Þessi lækkun neðri markanna virðist byggjast á stöðnun í hækkun hitastigs andrúmslofts við yfirborð jarðar á síðasta áratug.
Þessa stöðnun í hækkun hitastigs andrúmslofts við yfirborð jarðar hefur verið útskýrð á ýmsan hátt, m.a. með þeirri staðreynd að yfir 90% af hlýnun jarðar nú um stundir virðist fara í höfin og hefur verið bent á að þessi breyting geti verið gagnrýni verð. En útreikningar á því hvernig hitastig er talið getað hækkað fram að 2100 í skýrslunni eru væntanlega gerðir í samræmi við þessa jafnvægissvörun og það gefur okkur því ekki miklar vonir um væga útkomu þó neðri mörkin hafi færst lítillega til.
Lokaorð
Þessi nýja skýrsla IPCC virðist staðfesta enn frekar að hnattræn hlýnun af mannavöldum er staðreynd og ef ekkert verður að gert, þá er enn meiri hækkun hitastigs í pípunm á næstu áratugum, sem er í samræmi við fyrri skýrslur og samdóma álit sérfræðinga á þessu sviði um langt skeið. Fram að 2100 þá er gert ráð fyrir að hitastig geti hækkað töluvert – allt eftir því hvaða sviðsmyndir í losun gróðurhúsalofttegunda eru skoðaðar. En í hnotskurn er staðan sú að eftir því sem meira af gróðurhúsalofttegundum er dælt út í andrúmsloftið (og hluti endar í hafinu líka og veldur m.a. súrnun sjávar) þá aukast líkurnar á meiri hækkun hitastigs og meiri súrnun sjávar sem hefur svo áhrif á aðra þætti eins og hafís, jökla, sjávarstöðu, vistkerfi sjávar o.s.frv.
Heimildir og ítarefni
Uppkast að skýrslunni má lesa hér, en endanleg útgáfa kemur út í janúar 2014: Climate Change 2013: The Physical Science Basis
Veðurstofa Íslands: Úttektarskýrsla IPCC: Áhrif mannkyns á loftslag eru skýr
Náttúruverndarsamtök Íslands: Ótvíræðar niðurstöður Vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna
Tengt efni á loftslag.is:
- Stokkhólmur – vísindanefnd á endaspretti
- Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál – IPCC
- Vinnuhópur 1 fær toppeinkun
- Tenglar: Nokkrar skýrslur um loftslagsmál
- Jafnvægissvörun loftslags
Svo þið haldið að það sé a hlýna á Jörðinni?
Margir eru ekki sammála ykkur og það með réttu, enda bendir margt til þess að það sé ekki að hlýna á Jörðinni. Ég ætla að koma með nokkur dæmi máli þessara aðila til stuðnings.
Sumarið í ár á Íslandi var víðast hvar í svalara lagi og hvert metið á fætur öðru niður á við var slegið í veðurfarslegu tilliti t.d. úrkomumet, lágt hitastig miðað árstíma, auk þess að hitastig hefur verið c.a. 2 gráðum svalara nú í haust en að jafnaði var á árunum 2001-2010.
Veðrið í sumar sem leið var svalt vætusamt og sólarlítið um megin hluta landsins. Hitinn fór ekki oft yfir 11 stig í sumar, og fór örsjaldan yfir 15 stig, og náði nánast aldrei 20 stigum.
Til að mynda voru eiginlegir sumardagar örfáir hér suðvestanlands, þ.e. tveir í júlí og einn í ágúst. Þetta var nánast eins og á gömlu „góðu“ árunum á milli 1960-1990.
Að auki var óvenju snjóþungt á norðurlandi fyrri hluta árs og mátti sjá í september að enn var ekki allur snjór bráðnaður í fjöllum þar og voru t.d. jöklarnir á Tröllaskaga þaktir nýjum snjó svona seint að sumri.
Uppskera var lök í ár, bæði hvað varðar kartöfluuppskeru, sem og uppskeru korns sem verið er að gera tilraunir með að rækta, auk þess að heyskapur endaði seint og heyfengur var undir meðallagi, allt vegna kaldara veðurfars hér á landi nú í ár.
Þar að auki komi fyrsti snjór vetrarins óvenju snemma í október, nefnilega 8. október, (koma að jafnaði ca. 27-28. okt. á árunum 2001-2010, og ca. 15-16. okt. á köldu árunum milli 1960-1990).
Nú munið þið segja eitthvað í þá veru; „að þó það hafi verið kalt á Íslandi nú í ár, þýði það ekki að það sé að kólna á Jörðinni“.
En þá er hægt að benda á þá staðreynd, að það hefur verið kalt víða í ár en á Íslandi, t.d. í norðurhluta Kanada, á Grænlandi, í Síberíu, um norðanverð og mið-Bandaríkin, sem og í Alaska, en á öllum þessum stöðum hefur verið kaldara en í meðalári í ár. Að auki hefur veturinn verið í kaldara lagi á suðurhveli Jarðar, t.d. í Nýja-Sjálandi, sunnaverðri Argentínu og Chile. Þar að auki eru íshellur bæði á norður- og suðurskautinu meiri og stærri í ár en í mörg undanfarin ár.
Væntanlega munið það segja; „að þó að það sé kalt í ár, þá er bara um þetta eina ár að ræða, og því ekkert að marka þetta“.
Við þessa „afsökun“ er hægt að benda á, að ekki er bara um þetta eina ár að ræða þ.e. árið 2013, heldur hafa undanfarin ári verið kaldara lagi víða í heiminum. T.d. hafa vetur verið óvenju kaldir í Evrópu undanfarin ár, auk þess að sumrin hafa verið svöl þar, eða allt frá 2009. Til að mynda var kalt í allan vetur í Evrópu og það langt fram á sumar, en þá fór reyndar að svo að sumarið varð bara bærilegt, án þess að verulegar hitabylgjur áttu sér stað. Það sama má segja um aðra staði á norðurhveli, t.d. í Kóreu, Japan og víða í Kína, svo ekki megi gleyma Síberíu, en þar hafa veturnir verið óvenju kaldir og snjóþungir og kaldir undanfarin ár, auk þess að sumrin hafa verið óvenju vætusöm á þessum slóðum.
Engar verulegar hitabylgjur hafa verið í heiminum nú í ár ólíkt því sem var hér áður fyrr, auk þess að hitabeltisstormar á Atlantshafi, öðru nafni fellibylir, hafa ekki látið á sér kræla þetta haustið.
Og enn munuð þið malda í móinn og segja að þetta séu bara tilfallandi veðurbrigði og því ekki marktæk. Tvö-þrjú ekki sérlega hlý ár benda ekki til þessa að ekki sé að hlýna í heiminum.
Reyndar er það svo að þessi þróun hófst í lok síðustu aldar. 1998 var það ár þar sem meðalhiti mældist hvað hæstur í heiminum, og 2003 var hitinn hvað hæstur á norðurhveli Jarðar. Síðan hefur þróun hlýnunar á Jörðunni hefur flats út og jafnvel sýnt hneigð í átt að kólnum, þ.e. árleg meðalhitakúrfa hefur leitað niður á við á undanförnum árum, sérstaklega eftir 2007.
Nú mun væntanlega þykkna í ykkur og þið munuð hrópa; „sannaðu þetta, sannaður þetta!“ – „komdu með gögn?!?“ – „hvar eru gögnin sem sýna þetta?!?!!!?“
Já, reyndar er það svo að ýmsir hafa bent á þetta, þ.e. að ekki fari lengur hlýnandi, heldur kólnandi. Ekki bara einhver æsifréttablöð eða hægrisinnuð teboðsblöð sem eru í afneitun fyrir staðreyndum um hlýnum Jarðar, heldur hafa ýmsir vísindamenn, aðallega óháðir og þeir sem ekki eru í náðinni hjá loftslagshlýnunartrúboðinu, bent á þetta. T.d. er til gögn á vef sem heitir; „Climate for you“ http://www.climate4you.com en þar á er safnað gögnum um loftslagsmál víða úr heiminum og þau birt. Þar má m.a. sjá að hitastig hefur farið lækkandi á undanförnum árum, sérstaklega upp úr 2003. Á þessari síðu eru svo hlekkir að ýmsum gögnum um loftslag víða að úr heiminum, m.a. frá Íslandi, þar sem bent er á að mælingar á hitastigi hafi verið leiðréttar til að fá „sennilegri“ mynd af loftslagi á Íslandi, þ.e. að það væri óeðlilega hlýtt hér á landi vegna hlýnunar Jarðar.
„Þetta er bull!“ – „það er ekkert að marka þetta!“ – munuð þið hrópa.
Vera má að þessi vefur (www.climate4you.com) og þeir sem að honum standa, sem og aðrir sambærilegir vefir, séu ekki í náðinni hjá „viðurkenndum“ loftslagsvísindamönnum, og að hér sé um algjöra villutrú og hreinlega helgispjöll að ræða hvað varðar hin „sönnu“ og réttu loftslagvísindi sem sýna með óyggjandi hætti; „að það sé að hlýna á Jörðunni“ og „að það muni ógna heimsbyggðinni í nánustu framtíð“ ef við sýnum ekki og iðrun og yfirbót og breytum lífstíl okkar til fábreyttari og frumstæðari lífsmáta. Að öðrum kosti þurfum við að kaupa syndaaflát í formi svokallaðra grænna skatta sem lagðir verða á okkur í hvað formi sem er.
„Þú ert sem sagt að afneita vísindunum“. – „Þetta er viðurkenndir vísindamenn sem standa að þessum loftlagsrannsóknum, og þeir hafa „sannað“ að það sé að hlýna á Jörðinni“. „Nýjasta IPCC-skýrslan sýnir ótvírætt fram á það að það sé sannað að það fari hlýnandi á Jörðinni“ – munuð hrópa í örvæntingu ykkur til að fá mig til að horfa frá „villu minna vega“.
Það var og. Er IPCC treystandi og þeim sem að þessum samtökum standa? Hver hefur t.d. eftirlit með þessum ráði og er peningum sem settir eru í IPCC vel varið?
Getur ekki vel verið að það sé IPCC og þeim sem þar starf í hag að haldið sé á lofti að það fari hlýnandi á Jörðinni í þeim tilgangi að áfram verði dælt fé á þetta ráð sem starfar í nafni Sameinuðu þjóðanna.
Við vitum það að það hafa mörg þúsund vísandamenn víða heiminum lifibrauð af því að starfa fyrir IPCC og eru í fullri vinnu við það dag og nótt að „sanna“ að það fari hlýnandi á Jörðinni, því ef niðurstöður „rannsókna“ þeirra yrðu á annan veg t.d. kólnum Jarðar, yrði starfsemi IPCC sjálfhætt.
Loftslagsvísindi eru flókin enda er loftslagið síbreytilegt.
Það virðist vera ríkjandi tilhneiging inna IPCC í átt að hóphugsun þess efnis að það muni fara hlýnandi á Jörðinni í náinni framtíð og að sú hlýnun sé nú þegar í gangi. Engin vísindamaður vill því skera sig úr og mótsegja þessari skoðun eða „niðurstöðu“ og verða að athlægi og jafnvel útskúfun sem hinn fíni félagsskapur IPCC er.
Samkvæmt niðurstöðu IPCC mun hlýnun halda áfram óhindrað næstu áratugina sem skelfilegum afleiðingum.
En hefur IPCC rétt fyrir sér? Gögnin sem þeir notast við eru úr fortíðinni og varla eldri en nokkurra áratuga gömlum og meira að segja á þessum tíma hafa verið hitasveiflur á Jörðinni.
Hafa gögn úr fortíðinni forspárgildi upp á framtíðina? – (Hver þekkir það ekki úr fjármálafræðum, að ávöxtun fortíðar er ekki ávísun á ávöxtun til framtíðar?).
Þar að auki hafa hitasveiflur alltaf verið hluti af loftslagssögu Jarðar, þ.e. hafa skipts á köld og hlý tímabil, svo ekki er hlýnun Jarðar stöðugt og jafnvel í veldisvexti.
Hver man t.d. ekki eftir köldu árunum milli 1960-1990? Slík tímabil geta vissulega komið aftur og meira að segja Páll Bergþórsson (sem er eldri en tvævetur þegar kemur að veðri og loftslagsmálum) hefur bent á þetta, og telur að núna sé einmitt eitt slíkt tímabil hafið.
Slíkt kalt tímabil er ekki síður slæmt fyrir Jörðina en hlýnun. T.d. munu vetur verða kaldir og langir á norðurhveli Jarðar og sumri stutt og svöl og uppskera minnka. Önnur óæskileg áhrif er meiri slysfarir vegna kulda og snjóa, aukinn kostnaður við að halda við samgöngumannvirkjum, auk þess að kyndikostnaður mun aukast sem þýðir meiri loftmengun.
Ég verð að segja að ég er sammála Páli og tel að við séum að fara inn í kalt tímabil ekki ósvipað því sem ríkti hér á fyrrnefndum árum milli 1960-1990.
Þetta voru ekki skemmtileg ár. Sumrin voru stutt og svöl, og umfram allt sólarlítil og vætusöm þar sem hitinn fór sjaldan yfir 11 stig á sumrin.
Veturnir voru svo langir og kaldir og umfram allt snjóþungir. Það snjóaði yfirleitt frá miðjum október og fram yfir miðjan apríl.
Hver vill svona veðurfar aftur? Ekki ég.
Ég tel að ef markmiðum IPCC um að snúa við meintri hlýnun Jarðar, munum við í framtíðinni fá svipað veðurfar og ríkti hér á árunum milli 1960-1990. Og sumrin í framtíðinni hér á landi munu þá verða ekki ósvipuð og sumarið var í ár, þ.e. svöl, vætusöm og sólarlítil, og umfram allt stutt.
Já, það er svo sannarlega að hlýna.
Tilraunir þínar til að rökstyðja hið gagnstæða með því að draga fram gögn sem eru yfir vægast sagt takmarkaðan tíma sýna lítinn skilning þinn á loftslagi og loftslagsbreytingum.
Loftslag er meðaltal hita, raka, vind, úrkomu o.sv.frv. á löngum tíma – aftur á móti ef litið er á stuttan tíma, þá erum við að tala um veðurfar.
Það sem gerir það að verkum að við skoðum yfirleitt langan tíma, t.d. 25-30 ár þegar skoðaður er hnattrænn hiti, er að náttúrulegur breytileiki er mikill, meðal annars El Nino o.fl. þættir sem geta bæði dregið úr hlýnun og aukið hana yfir stuttan tíma.
En þó skoðaður sé stuttur tími, þá má benda á það að sérhver síðustu þriggja áratuga er hlýrri en allir áratugir síðan samfelldar mælingar hófust upp úr 1850, og fyrsti áratugur 21. aldar er hlýjasti áratugurinn.
Um stöðuna eins og hún er, má lesa í nýlegri og góðri samantekt á heimasíðu Veðurstofu Íslands.
Að lokum vil ég benda þér á mótsögn hjá þér (en eflaust eru fleiri sem vert væri að benda á):
Þú segir að ekki sé að hlýna af mannavöldum – samt virðistu hræðast það að IPCC sé að snúa við hlýnun jarðar – er það ekki svolítið undarlegt hjá þér 😉
Nei, ég tel að áhrif og athafnir mannsins hafi lítil áhrif á loftslag. Það eru stærri og sterkari kraftar sem hafa áhrif á loftslag.
Margir eru sammála að nú sé farið að kólna aftur og að kaldara muni verða í Jörðinni næstu áratugi.
Einnig hafa margir vísindamenn velt vöngum yfir því, af hverju að það hafi nánast ekkert hlýnað síðan 1998. Sjá; http://www.b.dk/viden/skyldes-global-varmepause-redning-af-ozonlag
Það mátti greina örvæntingu í málflutningi forsvarsmanna IPCC þegar þeir reyndu að telja heiminum trú um að það væri víst að hlýna á Jörðinni, og að það væri sko ekkert smáræði?
Þeir hljómuðu eins og forsvarsmenn fyrirtækis, sem allir vita að á ekki framtíðina fyrir sér, sem væru að reyna að sannfæra fjárfesta til að kaupa hlutabréf í fyrirtækinu út á orð þeirra einna.
Ég tel að sífellt muni verða erfiðara fyrir þessa menn að sannfæra heiminn um að hann muni farast vegna ofhlýnunar Jarðar.
Mælingar sýna fram á að það er að hlýna í heiminum, sjá t.d. hér varðandi hlýnun síðustu ára – hvað sem líður persónulegum skoðunum einhverra varðandi einhverjar getgátur um kólnun sem ekki er komin fram og ekki er studd mælanlegum gögnum.
Annars er nú bara gott að benda á að mælingar staðfesta kenninguna.
PS. Það er engin að segja að jörðin sé að farast vegna ofhlýnunar jarðar – það er einfaldlega staðreynd að hún hlýnar af manna völdum og við getum unnið á móti því með því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda – ekkert mjög flókið í sjálfu sér, en virðist samt valda ákveðnum misskilningi hjá einhverjum.