Súrnun sjávar

Þessi færsla er hluti af endurbirtingum hér á loftslag.is. Mikilvægt efni af síðunni og annað fróðlegt sérvalið efni mun rata inn undir endurbirtingarnar. Upphaflegu færsluna má finna hér en allar endurbirtingarnar má finna undir flipanum Endurbirtingar 2013.

Súrnun sjávar (e. ocean acidification) er aukaafurð losunar á CO2 út í andrúmsloftið og oft kallað “hitt CO2-vandamálið” (á eftir hlýnun jarðar). Vegna aukningar CO2 í andrúmsloftinu gleypir sjórinn aukið magn CO2 og við það verða efnaskipti sem breyta pH gildi sjávar og lækkar kalkmettun sjávar. Einnig er talin hætta á því að hlýnun sjávar geti valdið aukningu á því að metan losni úr sjávarsetlögum sem myndi efnasambönd við sjóinn með sömu áhrifum.

Breyting á pH gildi sjávar frá 18. öld til lok 20. aldar. Mynd fengin af earthtrends.wri.org.

Breyting á pH gildi sjávar frá 18. öld til lok 20. aldar. Mynd fengin af earthtrends.wri.org.

Jón Ólafsson hafefnafræðing var í viðtali í Fréttablaðinu í mars 2009:

Við sjáum vissulega að sýrustig er að falla hér við land,” segir Jón. “Í samanburði við önnur hafsvæði er það að falla hraðar hér en annars staðar. Það er út af því að hér við land, sérstaklega norðan við landið, tekur hafið í sig mikið af koldíoxíði.” Ástæðurnar fyrir því að þetta gerist hraðar í sjónum í kring um Ísland eru að mestu kunnar, að sögn Jóns. Þær tengist meðal annars straumakerfi Norður-Atlantshafsins.

og

Jón segir hins vegar áhrifin af auknu magni koltvísýrings í höfunum vera tvíþætt: “Annars vegar lækkar sýrustig sjávar og hins vegar lækkar kalkmettun.”

Minni kalkmettun í höfunum hefur bein áhrif á kalkmettandi lífverur, en það eru lífverur sem mynda stoðvef eða skeljar úr kalki. Þetta eru til dæmis kóralar og skeldýr ýmis konar.

“Kóralar eru til dæmis farnir að líða fyrir þetta strax, og þetta er ein ástæðan fyrir því að kóralrifum er að hnigna. Þessar kalkmyndandi plöntur og dýr eru reyndar mjög mikilvægur þáttur í vistkerfum hafsins og skemmdir á þeim eða hreinlega eyðilegging þeirra mun hafa mikil áhrif á vistkerfið í heild.”

Nú er talin hætta á því, að við munum verða vitni að svipaðri súrnun sjávar og varð fyrir 55,8 milljónum ára (Paleocene–Eocene Thermal Maximum). Sú súrnun olli miklum útdauða sjávarlífvera.

1/6 af fæðu mannkyns er fengin úr sjónum og því eru miklir hagsmunir í húfi fyrir mannkynið (fyrir utan siðferðislega skyldu okkar að eyðileggja ekki lífsafkomu annarra lífvera).

Hvað er til ráða?

Eina fyrirsjáanlega lausnin til að stöðva súrnun sjávar er minnkandi losun á CO2 út í andrúmsloftið. Aðrar lausnir sem gætu virkað væri einhvers konar binding CO2.

Það má því segja að jafnvel þeir sem viðurkenna ekki staðreyndina um hlýnun jarðar af mannavöldum, ættu að geta tekið undir það að nú verði að bregðast við aukningu CO2 andrúmsloftsins, áður en illa fer. Við núverandi losun CO2, þá er talið að súrnun sjávar verði farin að nálgast hættumörk árið 2030 (við CO2 magn í lofthjúpnum í sirka 450 ppm) en nú þegar er talið að áhrifa súrnunar sjávar sé farið að gæta.

Tengdar afleiðingar

Það sem veldur súrnun sjávar er fyrst og fremst aukning CO2 í andrúmsloftinu. Við aukningu þess þá eykst upptaka sjávar á kolefni sem eykur sýrustig sjávar. Óbein aukning á súrnun sjávar er einnig fræðilega möguleg við hækkun sjávarhita,þá bráðna frosnir metanmettaðir vatnskristallar úr sjávarsetlögum og metan losnar út í sjóinn. Talið er að það geti aukið á súrnun sjávar.

surnun copy

 

Afleiðingar súrnunar sjávar eru aðallega þær að harðskelja sjávarlífverur missa smám saman getuna til að mynda skeljar. Við meiri súrnun er hætt við hruni vistkerfa, með tilheyrandi hnignun og útdauða sjávarlífvera. Möguleg aukaafurð þess er minnkandi geta sjávar til upptöku kolefnis.

Heimildir og frekari upplýsingar

Heimasíða EPOCA. Tengillinn vísar beint á blaðsíðu á íslensku – en hún er annars á ensku.

Hér er blogg um súrnun sjávar og  hér er heimasíða um þetta vandamál Ocean Acidification Network

Viðtalið við Jón Ólafsson hafefnafræðing má finna í fréttablaðinu frá því þann 28 mars 2009 blaðsíðu 46 (sjá hér).

Tengt efni á loftslag.is:

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál