Almenn umfjöllun fjölmiðla á Íslandi um loftslagsmál virðist að hluta til ábótavant, sérstaklega þegar kemur að flóknari viðfangsefnum eins og t.d. sólvirkni eða tilfallandi staðbundnum vetrarkuldum. Oft virðast fréttir íslenskra fjölmiðla um loftslagsmál vera tiltölulega slælegar þýðingar af erlendum netmiðlum (með undantekningum þó). Nýlegt dæmi er umfjöllun á vefmiðlunum pressan.is og mbl.is annars vegar og í Bændablaðinu hins vegar, um minni sólvirkni og samkvæmt þeim fréttum, kólnun af þeim völdum. Fyrrnenfndar umfjallanir virðast við fyrstu sýn eiga sér stoð í frétt af fréttamiðlinum BBC “Is our Sun falling silent?“, sem verður öllu jafna að teljast nokkuð áreiðanleg heimild. En þegar heimildin er lesin og borin saman við fréttaflutning íslensku fjölmiðlanna, þá sýnist eitthvað hafa skolast til. Á vef BBC kemur fram að vissulega sé verið að ræða um að minni sólvirkni sé möguleg á næstu árum og áratugum (20% líkur samkvæmt sérfræðingum) en þar kemur líka fram að það muni væntanlega hafa lítil sem engin áhrif varðandi áframhaldandi hnattræna hlýnun, sem er svipuð niðurstaða og t.d. má lesa úr skýrslum IPCC. Samkvæmt fréttum íslensku fjölmiðlanna sem skrifuðu um sama mál koma fullyrðingar eins og sjást í fyrirsögnunum, “Allir í úlpur, húfur, vettlinga og trefla: Er lítil ísöld að hefjast?” [pressan.is], “Kaldari veður og sjaldséð norðurljós?” [mbl.is] og “Kólnandi veðurfari spáð næstu 30 til 40 árin” [Bændablaðið]. Það er því eðlilegt að spyrja sig hvers vegna þetta orðaval er notað þvert á niðurstöðu og gögn vísindamannanna sem vísað er til samkvæmt frétt BBC?
Ritsjórn loftslag.is hafði samband við vefmiðilinn pressan.is eftir þeirra umfjöllun og fékk að vita að “Pressan stendur við frétt sína. Margir fjölmiðlar víða um heim hafa verið að birta álíka fréttir undanfarna daga.” [Björn Ingi Hrafnsson]. Hugsunarlausar endurtekningar virðast því í þeirra huga bera vott um góða umfjöllun. Reyndar fylgdi líka ávirðing fyrir ábendinguna um að umfjöllun þeirra væri röng og maður spyr sig hvort þeir hafi eitthvað á móti því að lesendur bendi þeim á að umfjöllun þeirra sé kannski úr takti við það sem réttara reynist. Aðhald lesenda ætti að vera jákvætt, enda mikilvægt fyrir fréttamiðil sem vill skrifa réttar fréttir, þó hann verði að bíta í það súra að viðurkenna mistök. Pressan.is virðist samt ekki taka mikið mark á þeim ábendingum, ef marka má orð Björns
Eftirfarandi athugun ritstjórnar loftslag.is (eftir að hafa án árangurs beðið um heimildina) á uppruna fréttarinnar sýndi svo fram á að umfjöllun vefsins pressan.is er nánast orðrétt þýðing af fjölmiðlinum dailymail.co.uk, á frétt sem ber titilinn “Is a mini ice age on the way? Scientists warn the Sun has ‘gone to sleep’ and say it could cause temperatures to plunge” [dailymail.co.uk]. Það er þá ljóst að vísindaumfjöllun á pressan.is hefur uppruna sinn í breskt göturit sem hefur ekki sannfærandi orðstýr varðandi umfjöllun um loftslagsvísindi. En er það eðlileg þróun mála, að fjölmiðlar endurtaki hugsunarlítið slakar umfjallanir nánast orðrétt í krafti þess að aðrir fjölmiðlar lepja svipaða umfjöllun hugsunarlaust upp? Það verður þó að taka það fram að umfjöllun Bændablaðsins er mun ítarlegri en umfjallanir vefmiðlanna og meðal annars með viðtölum við íslenska veðurfræðinga. Það kemur þó ekki í veg fyrir miklar mistúlkanir blaðamanns Bændablaðsins og ályktanir sem eiga ekki sterkar stoðir í vísindalegum veruleika, meðal annars um samspil eldvirkni og loftslags.
Fréttir eins og þessar vekja alltaf mikla athygli. Kannski það sé ástæða þess að ekki þótti rétt að draga til baka þessa frétt á pressan.is þótt auðvelt sé að sýna fram á að hún sé röng. Hver sem ástæðan er, þá er ljóst að sumir íslenskir fjölmiðlar þurfa að vanda sig, því ábyrgð þeirra og annarra fjölmiðla er mikil. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir að lesendur hafi upplýsingar til að sjá í gegnum svona umfjallanir og munu þeir þ.a.l. ekki sjá hag sinn í því að berjast gegn loftslagsbreytingum, sem eru þó óumdeildar meðal loftslagsvísindamanna, svo lengi sem upplýsingar fjölmiðla eru af vafasömu meiði
Leave a Reply