Hvað er El Nino?

Þeir sem fylgjast með fréttum af veðurfars- og loftslagsbreytingum hafa eflaust tekið eftir auknum fréttum af því að fyrirbærið El Nino sé væntanlegt – en það hefur áhrif á veður um alla jörð.

Hvað er El Niño

Á nokkurra ára fresti, á að meðaltali fimm ára fresti, verða breytingar á staðvindum í Kyrrahafinu sem veldur óvenju háum sjávarhita við miðbaug – en það er kallað El Nino. Ef aftur á móti sjávarhitinn verður óvenju kaldur, þá er það kallað La Nina. Þessi sveifla er kölluð á ensku ENSO (El Nino Southern Oscillation) og ber mikla ábyrgð á hnattrænum sveiflum í veðri frá ári til árs.

mynd 1

Yfirborðshiti sjávar við El NIno (vinstri) og La Nina (hægri). Rauðir litaskalar sýna heitt og bláir kalt. [Mynd: Steve Albers, NOAA]

Hvað gerist við El Nino

Í hvert skipti sem breytingar verða á ENSO þá hafa þær áhrif á hnattrænan hita (Trenberth o.fl. 2002) og dreifingu úrkomu hnattrænt.

Við El Nino ár, þá minnkar úrkoman í Indónesíu og Ástralínu, á sama tíma og úrkoma eykst í Suður Ameríku og hluta Bandaríkjanna.

Kyrrahafið losar hita út í andrúmsloftið við El Nino ár. Þegar það bætist síðan við þá undirliggjand hlýnun af völdum styrkaukningar gróðurhúsalofttegunda, þá verða El Nino ár meðal þeirra heitustu frá upphafi mælinga. Ef skoðað er myndin hér fyrir neðan, þá sést að fimm af tíu heitustu árunum hafa verið El Nino ár (rauðgulir stöplar).

mynd2

Hnattrænt frávik í hitastigi jarðar frá 1950-2013. Þessi mynd sýnir glögglega hvernig hitinn sveiflast milli El nino og La nina ofan á undirliggjandi hnattræna hlýnun af mannavöldum (mynd: NASA/GSFC/Earth Observatory, NASA/GISS)

Á La Nina árum er staðan öndverð. Þá draga straumar heitan yfirborðsjó, niður í neðri lög Kyrrahafsins, sem veldur því að það kólnar hnattrænt.

Vísindamenn telja að meiri tíðni La Nina síðastliðin 15 ár (bláir stöplar hér fyrir ofan) skýri að hluta hvers vegna hið hnattræna hitastig hefur ekki aukist eins hratt undanfarið og áratugina á undan (Balmaseda o.fl. 2013). Til samanburðar, þá var minna um La Nina atburði frá 1980-2000.

Líklegt er talið að um séu að ræða áratugasveiflur á milli þess að El Nino er algengur annars vegar og La Nina hins vegar, svokallaðar IPO (Interdecadal Pacific Oscillation)(Meehl o.fl. 2013).

Hér fyrir neðan má sjá sveiflur í hinni hnattrænu hlýnun (efri myndin). Þrátt fyrir minni hitaaukningu undanfarinn áratug eða svo, þá er síðasti áratugur sá heitasti frá upphafi mælinga (neðri myndin).

mynd3

Hnatrænt hitafrávik milli áranna 1850 og 2012, samanborið við viðmiðunarárin 961-1990. Mynd: IPCC AR5 WG1 Summary for Policymakers.

 

Hvenær verður næsti El Nino

Síðasti El Nino var árið 2009/2010, en síðan þá hefur Kyrrahafið verið í hlutlausu eða í La Nina fasa. Núverandi hlutlausi fasi er búinn að vera viðvarandi frá 2012. Það gæti bent til þess að kominn sé tími á El Nino – og vísindamenn telja reyndar að hann sé væntanlegur.

Ástralska Veðurstofan telur að það séu allavega 70% líkur á El Nino í ár (samkvæmt spá í byrjun maí). Helstu einkenni þeirrar hlýnunar sem er undanfari El Nino er í gangi og margt bendir til þess að það haldi áfram næstu mánuði.

Screenshot 2014-05-07 14.32.45

Loftslagslíkön spá því hvenær hiti í Kyrrahafinu kemst í El Niño fasa (rauður). Meðaltal líkana er sýnt með grænu. Mynd: Australian Bureau of Meteorology

Upp úr miðjum síðasta mánuði, þá setti rannsóknastofnun um loftslag í Columbíu (International Research Institute (IRI) for Climate and Society at Columbia University) líkurnar á El Nino í haust upp í 75-80%.

Hversu sterkur verður næsti El Nino

Það er enn of snemmt að segja til um hversu stór næsti El Nino verður – en miklar breytingar geta orðið næstu vikur sem hafa áhrif í hvora áttina sem er.

Tony Barston útskýrir það betur hér:

April Climate Briefing Highlights, with Tony Barnston from IRI on Vimeo.

Er heitasta ár frá upphafi mælinga í pípunum?

Margt bendir til að við næsta El Nino, sem bætist þá ofan á undirliggjandi hnattræna hlýnun af mannavöldum, muni hnattrænn hiti verða sá hæsti frá upphafi mælinga. Aðstæður nú eru svipaðar og þær voru þegar síðasti stóri El Nino var (1997/8), en óvíst er hvort næsti verði þó eins stór.

Þó margt bendi til El Nino, þá er ólíklegt að hann nái hámarki fyrir lok þessa árs og þar með er frekar búist við, ef af verður, að árið 2015 muni verða met í hnattrænum hita.

Stóra myndin

Náttúrulegur breytileiki í loftslagi veldur skammtíma hlýnun og kólnun, ofan á langtímaleitni hnattrænnar hlýnunnar – og ENSO sveiflan lætur ekki sitt eftir liggja í þeim bænum. Því er búist við sveiflum í loftslagi á sama tíma og hitinn eykst smám saman.

Næsti El Nino gæti orðið sá heitasti frá upphafi mælinga, samkvæmt vísindamönnum. Ef það gerist, þá má búast við óvenju miklu öfgaveðri því samfara – auk þess sem hitaaukningin mun að öllum líkindum sækja í sig veðrið. Hvað sem gerist þá verða næstu mánuðir áhugaverðir og um leið spennandi að fylgjast með framhaldinu.

Heimildir og ítarefni

Unnið upp úr færslu af heimasíðu The Carbon Brief: Q & A: What’s El Niño – and why does it matter that scientists say one is on the way? Sjá einnig áhugaverða færslu af Skeptical Science: Is a Powerful El Niño Brewing in the Pacific Ocean?

Trausti Jónsson skrifaði um El Nino fyrir vísindavefinn: Hvað er El Niño?

Trenberth o.fl. 2002: Evolution of El Niño–Southern Oscillation and global atmospheric surface temperatures

Balmaseda o.fl. 2013: Distinctive climate signals in reanalysis of global ocean heat content

Meehl o.fl. 2013: Externally Forced and Internally Generated Decadal Climate Variability Associated with the Interdecadal Pacific Oscillation

Tengt efni af loftslag.is

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál