Loftslag.is á afmæli í dag

5 árFyrir fimm árum tók til starfa vefmiðillinn loftslag.is en þá hafði það verið í undirbúningi í nokkrar vikur, fyrsta fréttin var náttúrulega um Opnun loftslag.is. Tilgangur okkar var frá upphafi að fjalla um loftslagsmál frá nokkuð víðu sjónarhorni, þ.e. umfjöllun um orsakir, afleiðingar og lausnir. Þá hefur ýmislegt slæðst með, t.d. umfjöllun um stöðuna á hitastigi og hafísútbreiðslu og fleira. Ekki má gleyma gestapistlunum sem voru svo sannarlega skemmtileg viðbót og mæltist vel fyrir.

Á þeim tíma sem loftslag.is hefur verið starfandi hafa fjölmargar fréttir, pistlar og umfjallanir litið dagsins ljós. Vissulega hefur uppfærslum fækkað síðustu misserin, bæði vegna tímaleysis en einnig vegna þess að fleiri fjölmiðlar fjalla nú margir hverjir af ábyrgð um loftslagsmál, kannski að hluta til okkur að þakka – hver veit?

Loftslag.is var og er, að okkar mati, málsvari þeirra sem leggja áherslu á að styðja mál sitt með gögnum og rannsóknum, því höfum við farið hart fram gegn þeim sem halda einhverju fram, loftslagstengdu, sem ekki er hægt að rökstyðja með gögnum eða á annan hátt stenst ekki skoðun. Við höfum tekið þátt umræðum ýmsum stöðum, stundum á afkimum veraldarvefsins sem fáir vita um, en einnig á þekktari frétta- og bloggmiðlum. Í dag erum við sennilega einna virkastir í Facebook hópnum Loftslagsbreytingar – umræða og fréttir, sem er opin hópur sem allir geta gengið í. Svo bendum við líka á ýmislegt tengt loftslagsmálunum á Facebook síðunni Loftslag.is.

Þó eitthvað af síðum loftslag.is séu mögulega orðnar úreltar og hægt að finna nýjar og uppfærðar upplýsingar víða annars staðar, þá mælum við með að fólk kíki á efni síðunnar. Fyrir utan að fletta í gegnum valmöguleika til hægri og efst, þá er leitargluggi efst á síðunni sem er mjög notadrjúgur.

Við á loftslag.is þökkum samveruna síðastliðin fimm ár og munum halda áfram að uppfæra síðuna eins og tími og aðstæður leyfa.

 Tengt efni á loftslag.is

Athugasemdir

ummæli

About Ritstjórn Loftslag.is

Ritstjórn Loftslag.is