Nýlega skrifaði Sölvi Jónsson grein á visir.is, sem hann nefnir “Um loftslagsbreytingar“, þar sem hann fer í gegnum stöðuna í loftslagsmálunum út frá sínu persónulega sjónarhorni. Hann vísar í heimildalista, þar sem hann virðist nota þekktar afneitunarsíður og rökfræði þá sem þar finnst sem helstu heimildir og efnistök – ég þakka honum fyrir það, þar sem það einfaldar verulega að hrekja skrif hans. Á meðan það eru enn einhverjir sem skrifa á þennan hátt um loftslagsvísindin og vísa í svona einhæfar og óáreiðanlegar heimildir þá er þörf á að svara þeim – þó svo um sé að ræða endurtekið efni, sem oft hefur sést áður í umræðunni.
Við höfum áður skoðað aðferðafræði þeirra sem hafa “efasemdir” um loftslagsvísindi hér á loftslag.is og kannski ágætt að byrja á örlítilli upprifjun áður en grein Sölva er tekin fyrir. Efnistök þeirra sem afneita loftslagsvísindum eru frekar einhæf og aðferðafræðin fyrirséð. Útúrsnúningar á alvöru rannsóknum eru t.a.m. stundum notaðar sem rökfærslur – þar sem að t.d. einstakir þættir eru teknir úr samhengi og reynt að spinna út frá þeim. Stundum eru rannsóknir sem ekki fjalla um loftslagsbreytingar einnig yfirfærðar á þau fræði, með eftirfarandi spuna og útúrsnúningum (Sölvi gerir þetta hvoru tveggja óbeint, t.d. með því að vísa í afneitunarsíður sem heimildir). Endurteknar rökvillur eru líka algengar í umræðunni og það er líka meðal þess sem Sölvi gerist sekur um.
Það virðist vera algeng aðferðafræði þeirra sem afneita loftslagsvísindum, að beita nokkrum vel þekktum aðferðum sem er hægt að lesa nánar um á loftslag.is. Til að mynda er að finna eftirfarandi fróðleik í færslu sem nefnist “Mótsagnarkennt eðli röksemda “efasemdamanna” um hnattræna hlýnun”, sem er um nálgun þeirra sem afneita vísindum, þar sem þetta er orðað á eftirfarandi hátt:
Það má vel færa rök fyrir því að efasemdarmenn nái ekki nógu vel að skilgreina þá sem hafa þá nálgun við vísindin sem eru útskýrð hér að ofan, þar sem nýjar röksemdir og mótsagnir virðast ráð ferðinni eftir því hvernig vindar blása þann daginn. Afneitunarsinnar er hugsanlega betri skilgreining á sumum þeirra sem þetta stunda, enda nota þeir vel þekktar aðferðir við nálgun sína. Nokkrar helstu aðferðir afneitunar eru:
- Samsæriskenningar
- Sérvalin gögn (e. cherry-picking)
- Fals sérfræðingar
- Ómögulegar eftirvæntingar (einnig þekkt sem færanleg markmið)
- Almennar rökleysur
Sumir vilja einnig bæta við 6. liðnum, sem er endurtekning á rökum sem þegar er búið að hrekja og eftir þessar pælingar hér að ofan, þá líka 7. liðnum sem eru mótsagnirnar. Þetta eru atriði sem gott er að hafa í bakhöndinni þegar umræðan um loftslagsmál er skoðuð.
Þessi aðferðafræði virðist vera kjarninn í “rökfærslu” Sölva, það sem hann endurnýtir margar gamlar mýtur og vísar í þekktar afneitunarsíður (fals sérfræðinga) máli sínu til stuðnings, ásamt almennum rökleysum. En nú er ráð að greina grein Sölva. Það má skipta efnistökum hans í nokkra þætti og munum við skoða það í svipaðir röð og hann nefnir það í grein sinni – það er ágætt að hafa aðferðafræðina hér að ofan í huga við lesturinn þar sem efnistök hans falla nánast að flestu leiti inn í flokkunina sem nefnd er.
Sölvi leggur út með að ræða um að ísinn á Suðurpólnum hafi ekki mælst meiri í 30 ár – sem er rétt ef hann er að ræða um hafísinn (dáldið villandi hjá honum að nefna ekki að hann sé að ræða hafísinn, ef það er tilfellið). Ísinn á íshvelinu á Suðurskautinu er að minnka, enda bráðna jöklar þar eins og á mörgum öðrum stöðum á Jörðinni í hlýnandi heimi. Hafísinn á Suðurskautinu aftur á móti er að aukast, sem getur átt sér ýmsar útskýringar og er þekkt staðreynd og engin sem mótmælir því. Það hafa verið nefndar einhverjar útskýringar á aukinni útbreiðslu hafíss þar, m.a. hefur breytt selta í sjónum (vegna bráðnunar jökulhvelfsins) verið nefnt ásamt breytingum í vindakerfum, svo einhverjar líklegar útskýringar séu dregnar fram. Þetta virðist gerast þrátt fyrir hlýnun, en þetta afsannar í sjálfu sér ekki eðlisfræðina á bak við hlýnun af völdum aukina gróðurhúsaáhrifa af manna völdum. Svo nefnir hann norðurskautið og virðist telja að sveiflur (sem hafa alltaf átt sér stað – líka þegar augljós bráðnun á sér stað) í hafísútbreiðslu á milli ára afsanni þá staðreynd að bráðnun sé í gangi. Svo klikkir hann út með að vísindamenn hafi spáð því fyrir 6 árum að hafís “myndi vera orðin íslaus með öllu sumarið 2013” – heimildin fyrir þessu er grein úr DailyMail eftir þekktan afneitunarsinna að nafni David Rose. Reyndar segir í grein David Rose að “the BBC reported that the Arctic would be ice-free in summer by 2013, citing a scientist in the US who claimed this was a ‘conservative’ forecast.” – sem virðist ekki vera alveg í takt við fullyrðingu Sölva um að “vísindamenn” hafi spáð þessu og reyndar er heldur ekki hægt að finna heimild David Rose fyrir þessari fullyrðingu í grein hans, eða hvaða vísindamann er átt við.
Hið næsta sem hann ræðst á er stærð ísbjarnarstofnins. Hann telur að ísbirnir hafi verið um 5-10 þúsund á “fimmta og sjötta áratugnum” og svo fullyrðir hann að ísbirnir hafi lifað af tímabil þar sem ísinn á norðurhveli jarðar hafi horfið með öllu. Saga ísbjarna er ca. 110 – 130 þúsund ár og þetta er fullyrðing sem erfitt er að standa við og heimild Sölva fyrir þessu virðist vera skoðun Amrutha Gayathri sem hún birtir á skoðanasíðum International Business Time (það voru nú öll “vísindin” hjá honum). Þess má geta að tala ísbjarna áður en til friðunar kom (s.s. á fimmta og sjötta áratugnum) er nokkuð á huldu, en gæti hafa verið yfir 20 þúsund (sjá Hvað er vitað um ísbirni?). En eftir að þeir voru friðaðir þá fjölgaði þeim eitthvað. Samkvæmt núverandi mati IUCN sérfræðingahóps um ísbirni, þá eru 19 þekktir undirstofnar ísbjarna, fjöldi í einum þeirra er að aukast, þrír eru stöðugir og átta eru að hnigna (ekki eru til nægilega góð gögn til að meta hina undirstofnana).
Sölvi lætur ekki hér við sitja, næst er það fullyrðing um að vísindamenn hafi gert ráð fyrir einhverri ákveðinni hlýnun sem hann endar með að færa rök á móti af því að það hafi farið kólnandi á síðustu árum (reyndar bara staðbundið, samkvæmt hans persónulega áliti). Fullyrðingin er að “[s]pár vísindamanna IPCC” hafi gert ráð fyrir 0,25°C hækkun hitastigs á áratug. Allar náttúrulegar sveiflur (til að mynda á milli ára) virðast í huga hans afsanna þessa spá sem hann fullyrðir að vísindamenn IPCC hafi gert. Þess má geta að vísindamenn er afskaplega varfærnir í spám og gera ráð fyrir allskyns náttúrulegum sveiflum sem geta haft áhrif til skemmri tíma. Svo er það spurningin hvað hægt er að segja um sérval hans á gögnum, þar sem hann velur ákveðið eitt ár (eins og t.d. 1998) og gera það að einhverju viðmiði sem um það sem kom á undan og eftir. Sérval gagna eins og ársins 1998 er mjög algeng rökvilla afneitunarsinna, sjá t.d. graf hér undir:
Næst er það þáttur hinnar óviðjafnanlegu Oregon Petition, þar sem Sölvi segir að “meira en 30 þúsund vísindamenn [hafi] sett nafn sitt undir yfirlýsingu þar sem kenningunni um hlýnun jarðar af mannavöldum er hafnað” – ætla nú ekki að hafa mörg orð um það, en eftirfarandi myndband lýsir þessu ágætlega, þarna er þetta m.a. orðað sem svo:
Hann skoðar meðal annars hina alræmdu Oregon Petition, þar sem talað er um undirskriftir 32.000 vísindamanna. Eru allir vísindamenn á þeim lista og þá við hvaða fræðigreinar? Myndir þú leita til veðurfræðings vegna húðvandamáls? (sjá Ósérhæfðir sérfræðingar).
Fyrir þá sem ekki vita, þá er þessi alræmda oregon petition ekki nokkurs virði í vísindalegu samhengi, hvað þá annað, nánar á SkepticalScience síðunni – Over 31,000 scientists signed the OISM Petition Project – þar sem þetta er m.a. orðað á eftirfarandi hátt:
“The 30,000 scientists and science graduates listed on the OISM petition represent a tiny fraction (0.3%) of all science graduates. More importantly, the OISM list only contains 39 scientists who specialise in climate science.”
Þegar hér er komið við sögu þá kemur að þætti Al Gore hjá Sölva (Al Gore virðist vera í miklu uppáhaldi hjá ýmsum afneitunarsinnum). Hann virðist líta svo á að ef það má finna einhverjar villur í mynd Al Gore “An Inconvenient Truth” þá hljóti það að afsanna loftslagsvísindin í heild sinni. En höfum það á hreinu að Al Gore er ekki vísindamaður, hann er stjórnmálamaður. Ekki það að stjórnmálamenn geti ekki haft rétt fyrir sér um þessi mál svo sem önnur (það er ekki hægt að útiloka það), eins og við flest (þeir eru væntanlega misjafnir eins og fólk er flest). Margir afneitunarsinnar virðast þó laðast að Al Gore og telja að hann sé talsmaður vísinda og jafnvel vísindamaður (sem hann er ekki). Almennt, þá gefur mynd Al Gore nokkuð rétta mynd af því hvað vísindin segja, þó að það hafi slæðst einhverjar villur inn, en það er svo sem ekkert sem haggar sjálfum vísindunum í sjálfu sér. Á SkepticalScience hefur þetta verið skoðað lítillega, sjá t.d. Is Al Gore’s An Inconvenient Truth accurate? – þar sem eftirfarandi kemur fram:
While there are minor errors in An Inconvenient Truth, the main truths presented – evidence to show mankind is causing global warming and its various impacts is consistent with peer reviewed science.
Í raun er Al Gore bara hluti af umræðumenginu – svona svipað og ég er hluti af því. Ég hef ekki miklar áhyggjur af því að vísindin myndu breytast mikið þó að ég myndi halda fram einhverri vitleysu eða gera villu einhvers staðar í umræðunni – enda eru loftslagsvísindin byggð á tugþúsundum rannsókna sem gerðar eru með vísindalegum aðferðum (sem stundum uppfærast við nýjar upplýsingar – eins og gengur og gerist), hvorki ég né Al Gore getum breytt því, en okkar viðhorf eru þó í samræmi við almenna niðurstöðu vísindanna um þessi mál. Í þessari málsgrein heldur Sölvi einnig fram endurteknum ruglingi afneitunarsinna um að þar sem að CO2 styrkur hefur hækkað eftir að hitastig byrjar að hækka, á SkepticalScience (sjá CO2 lags temperature – what does it mean?) orða þeir þetta sem svo:
When the Earth comes out of an ice age, the warming is not initiated by CO2 but by changes in the Earth’s orbit. The warming causes the oceans to release CO2. The CO2amplifies the warming and mixes through the atmosphere, spreading warming throughout the planet. So CO2 causes warming AND rising temperature causes CO2rise. Overall, about 90% of the global warming occurs after the CO2 increase.
Áður en Sölvi fer í niðurlag greinar sinnar, þá rifjar hann upp nokkrar algengar mýtur sem hafa oft sést í umræðunni hér og eru hér undir tenglar á umfjöllun um þau efni og tengd í nokkrum tenglum – það er of langt mál að fara út í allar villur hans hér í þessari færslu:
- Það er að kólna en ekki hlýna
- Lítil ísöld eða kuldaskeið er á næsta leiti
- Það er kalt á Klonke Dinke og því er engin hnattræn hlýnun
- Afsanna loftslagsbreytingar fyrri tíma, hlýnun jarðar af mannavöldum?
- Hlýnunin nú er af völdum Sólarinnar
- Hlýnun jarðar er af völdum geimgeisla
Í niðurlagi greinarinnar nefnir Sölvi þá augljósu staðreynd að hann er ekki sérfræðingur um loftslagsbreytingar og að hann sé ekki að afsanna kenningar um hlýnun jarðar af mannavöldum, en svo heldur hann áfram að spá í lækkun hitastigs og að það hljóti að vera verra en ef hitastig hækkar (sem hann virðist einungis byggja á sinni persónulegu skoðun á málinu). Sölvi ræðir svo um sjálfan sig sem einlægan umhverfisverndarsinna – hann virðist bara ekki vilja taka mark á vísindamönnum sem vinna við ákveðið svið vísinda (sem er synd fyrir hann).
Fróðlegt þykir mér reyndar að sjá að hann endar með því að segjast ekki vilja láta “skattleggja [sig] og komandi kynslóðir vegna koltvísýringslosunar á fölskum forsendum” – þarna liggur hundurinn sjálfsagt grafinn, þetta virðist snúast um pólitíska sýn á skattamálum, sem virðist stundum þurfa að endurspeglast í afneitun loftslagsvísinda hjá ákveðnum hópi – sem er einkennilegt í mínum huga. Fólk getur haft ýmsar skoðanir á skattstigi landsmanna og skiptingu opinbers fjárs, en að afneita vísindum vegna pólitískra og/eða persónulegra skoðana sem stundum virðist endurspeglast í einhverri heimsmynd sem virðist ekki vera samrýmanleg við eðlisfræði gróðurhúsalofttegunda finnst mér undarleg nálgun.
Tengt efni á loftslag.is:
- Rökleysur loftslagsumræðunnar
- Mótsagnarkennt eðli röksemda “efasemdamanna” um hnattræna hlýnun
- Er jörðin að kólna? – Í tilefni fréttar á Visir.is og Stöð 2
- Mýta Það er að kólna en ekki hlýna
- Mýta Hlýnun jarðar er af völdum geimgeisla
- Mýtur
- Hvað er vitað um loftslagsbreytingar?
- Vísindin á bak við fræðin
Leave a Reply