Hulin hlýnun

Hitafrávik 1880 - 2014 blá lína. Appelsínugul lína er 5 ára hlaupandi meðaltal. [Heimild http://data.giss.nasa.gov/gistemp/tabledata_v3/GLB.Ts+dSST.txt]

Hitafrávik 1880 – 2014 blá lína. Appelsínugul lína er 5 ára hlaupandi meðaltal. Gögn NASA

Undanfarin ár hefur stundum heyrst að það sé að kólna eða a.m.k. að hlýnunin sé lítil sem engin. Þær raddir tala jafnvel um “pásu” í hlýnunni, sem vísindamenn skrifa reyndar fæstir undir – enda sveiflan enn innan marka náttúrulegs breytileika og leitnin enn vel upp á við. Þá er vitað að þó lægðagangur hafi leikið okkur Íslendinga grátt síðustu mánuði og kalt hafi verið á Austurströnd Bandaríkjanna, þá heldur jörðin áfram að hitna, enda var árið 2014 hnattænt hlýjasta ár í sögu mælinga.

Nú bendir margt til þess að þessi “pása” eða náttúrulega sveifla sé á undanhaldi og að við taki einhver ár með töluverðri hnattrænni hlýnun. Það skal tekið fram að staðbundin pása eða kólnun getur vel átt sér stað tímabundið í hitnandi veröld. Til dæmis er mögulegt að á Íslandi geti orðið bakslag í hitastigi, enda hefur hitinn aukist mun meir hér á landi en hnattrænt og hitastig verið mjög hátt og jafnt undanfarinn rúman áratug eða svo. Enda var síðasta ár eitt hlýjasta á Íslandi frá upphafi mælinga.

Náttúrulegar sveiflur úthafana

Fyrir nokkru birtist grein í Science (Steinman o.fl. 2015) þar sem kastljósinu er beint að úthöfunum og hvernig þau hafa veitt okkur einskonar falskt öryggi hvað varðar framtíðarhorfur í loftslagi jarðar. Vísindamennirnir notuðu nýjustu loftslagslíkön og niðurstaðan er áhugaverð.

Loftslag er sveiflukennt og ofan á hinni undirliggjandi hnattrænu hlýnun eru náttúrulegir ferlar sem hafa tímabundin áhrif á loftslag jarðar – ýmist í átt til kólnunar eða hlýnunar. Slíkir ferlar eða sveiflur (oscillations) eru ráðandi í skammtímasveiflum loftslags. Í þessari grein skoðuðu höfundar sérstaklega áratugasveiflur í Atlantshafinu (Atlantic Multidecadal Oscillation – AMO) og í Kyrrahafinu (Pacific Decadal Oscillation – PDO). AMO er reglubundin sveifla í hitastigi Norður-Atlantshafsins sem tekur um 50-70 ár, á meðan PDO er sveifla í Kyrrahafinu og blanda af styttri sveiflu (16-20 ár) og lengri (50-70 ár). Lengri sveiflan er hér kölluð PMO. Sveiflan í hitastigi á norðurhveli jarðar er kölluð hér NMO og er það sem eftir stendur þegar búið er að draga frá ýmsa þætti í loftslagi, t.d. gróðurhúsaáhrifin (og önnur áhrif á loftslag frá mönnum), sólvirkni og eldvirkni. Talið er að NMO samanstandi af sveiflum AMO og PMO.

Höfundar skoðuðu þessar löngu sveiflu og spurðu sig hvort núverandi staða í úthöfunum geti útskýrt sveiflur í hitastigi við yfirborð jarðar, þá sérstaklega á norðurhveli. Niðurstaða þeirra er áhugaverð, en PMO er talið skýra stóran hluta af sveiflum í NMO.

Sveiflur í sögu AMO (blá), PMO (grænn) og NMO (svartur). Óvissa mörkuð með skyggingu.  Greinilegt er að AMO er í grunnu hámarki núna á meðan PMO er í mikilli niðursveiflu. PMO skýrir að miklu leiti neikvæða sveiflu í NMO. - Af RealClimate

Sveiflur í sögu AMO (blá), PMO (grænn) og NMO (svartur). Óvissa mörkuð með skyggingu.
Greinilegt er að AMO er í grunnu hámarki núna á meðan PMO er í mikilli niðursveiflu. PMO skýrir að miklu leiti neikvæða sveiflu í NMO. – Af RealClimate

Eins og sést á myndinni hér fyrir ofan, þá er NMO sem stendur á niðurleið og er PMO helsti sökudólgurinn. PMO tengist köldum fasa í ENSO (El Nino Southern Oscillation), en sú sveifla hefur verið í áberandi köldum fasa undanfarið. AMO virðist aftur á móti hafa haft lítil áhrif á hitastig norðurhvels síðastliðna tvo áratugi, en sveifla þess hefur verið lítil og er hún flöt sem stendur.

Niðurstaðan bendir til þess að það sé í raun engin pása í hnattrænni hlýnun af mannavöldum, í raun hafa náttúrulegar sveiflur og þá sérstaklega í Kyrrahafinu, náð að hylja hina hnattrænu hlýnun tímabundið og þá sérstaklega á norðuhveli jarðar. Keyrsla gagna í nýjustu loftslagslíkönum benda til þess að hér sé um að ræða tilviljunarkennda innri sveiflu í loftslaginu. Líklegt þykir að þetta muni þó ekki halda lengi því ef skoðað er mynstur breytinga undanfarna rúma öld þá er líklegt að PMO sveiflan muni skipta um gír fljótlega og bæta á núverandi hnattrænu hlýnun næstu áratugi, í stað þess að hylja hana. Því miður er því útlit fyrir því að hin hnattræna hlýnun muni halda áfram og af fullum krafti næstu ár eða áratugi.

Heimildir og ítarefni

Steinman o.fl. 2015 (ágrip) í tímaritinu Science: Atlantic and Pacific multidecadal oscillations and Northern Hemisphere temperatures

Umfjöllun um grein Steinman o.fl. má t.d. finna á heimasíðu Guardian (The oceans may be lulling us into a false sense of climate security) og á RealClimate (Climate Oscillations and the Global Warming Faux Pause)

Tengt efni á loftslag.is

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál