Opnun Norðursins

Ari Trausti Guðmundsson

Ari Trausti Guðmundsson

Í óefni getur stefnt

Sennilega er hlýskeiðið sem við lifum á, og einkennist af bærilegu hitastigi, aðeins hlé á milli jökulskeiða ísaldar sem hófst á heimsvísu fyrir meira en tveimur milljón árum. Rúm ellefu þúsund ár eru liðin af þessu hléi og við gætum átt álíka langt tímabil fyrir höndum, eða mun styttra, þar til risastórir jöklar þekja meira en þriðjung plánetunnar á ný og allt samfélag manna kollsteypist.
Á örstuttum hluta hlýskeiðsins hefur mannkynið náð að breyta eigin lífsskilyrðum svo mikið að alvarleg veðurfarsvandamál munu hafa áhrif á hvert mannsbarn í eina til tvær aldir hið minnsta.
Á nyrðri heimskautasvæðunum lifa um fjórar milljónir manna, þar af um 400 þúsund frumbyggjar. Vegna mannfæðar og aðstæðna hafa íbúarnir haft lítil áhrif á gróðureyðingu og loftmengun. En samtímis byggja þeir svæði sem er gríðarlega þýðingarmikið þegar kemur að framvindu lífsskilyrða. Jöklar, hafís, pólsjór, kaldir hafstraumar og jarðklaki mynda stórar breytur í veðurfarsjöfnunni; svo stórar að djúptækar breytingar á þeim og þar með náttúrufari norðursins á skipta sköpum fyrir mannkynið.
Þegar menn nú standa í ræðustól og fagna opnun norðursins sem hafsjó tækifæra og sæg krefjandi og sjálfsagðra verkefna er þörf á að staldra við og segja: – Já, en raunveruleikinn hefur fleiri en eina eða tvær hliðar. Horfumst í augu við hann og málum ekki enn eina rósrauða glansmynd af okkur sjálfum og veröldinni. Föum vandlega yfir ógnanirnar.
Við erum ekki lengur á braut sem stefnir að hlýnun undir tveimur stigum á heimsvísu heldur að illviðráðanlegri þriggja til fjögurra stiga hækkun meðalárshita jarðar. Enn má þó bjarga okkur fyrir horn, ef þjóðir heims taka sig saman í fullri alvöru á loftslagsráðstefnunni í París, COP 21, haustið 2015.
– Við erum á leið til mikilla árekstra við móður náttúru; við þörfnumst hagvaxtar en hann verður að vera grænn – þetta var megininnihald þess skjáávarps sem José Ángel Gurria framkvæmdastjóri OECD – Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu – hélt við opnun ráðstefnu Arctic Circle 2014. Ávarpið skar sig eftirminnileg úr öðrum á opnunardegi hennar. Þessi samtalsráðstefna hefur í tvígang ekki unnið með umhverfismál í forgangi, heldur pólitíska samvinnu um sem gróðavænlegasta og víðtækasta auðlindanotkun og greiðastar samgöngur í norðrinu. Ýmis skilaboð er þar heyrast, kynningar á stefnu þjóðríkja og samtöl sem fara fram gera þó gagn.

Þekking er þegar mikil

Vísindaleg þekking manna á vistkerfum, náttúrufari og samfélögum norðurslóða er ríflega aldargömul. Löngu er orðið ljóst að flókið samspil lofthjúps, íss, hafs og stórra landsvæða á afar gildan þátt í að stýra jafnt veðurfari um alla jörð sem framboði á fæðu, einkum í sjó. Fullyrða má að þekking á norðurslóðum er næg til þess að hefjast handa við allra nauðsynlegustu þætti mannlegrar virkni sem geta hægt á eða snúið við þátt manna í skemmdum á náttúrufari jarðar. Þekkingin hér og nú ætti að vera skýr hvatning til að taka af skarið nú þegar, rétt eins og ICCP (Alþjóða loftslagssamráðsnefndin) og Sameinuðu þjóðirnar hvetja endurtekið til. Þær úrtöluraddir sem ýmist hafna of hraðri hlýnun eða reyna að smætta áhrif hennar eru margfalt færri en þær sem styðjast við óhrekjanlegar staðreyndir um hið gagnstæða.1280px-Qamutik_1_1999-04-01
Líka er ljóst að aðlögun manna að aðstæðum í norðrinu og þekking frumbyggja á hagfelldum lífsháttum eru dýrmæt innlegg í ákvarðanir um hvað beri að gera til að mæta allt of hraðri og mikilli hlýnun veðurfarsins. Aðlögun allra þjóða að henni er flókin og brýnt að þær skiptist á reynslu og þekkingu. Einna mikilvægast er að gera sér grein fyrir umfangi mótvægisaðgerða og kostnaði við þær. Stærstu tryggingarfélög heims hafa hafið þá vinnu fyrir sitt leyti.

 

Áhuginn á norðrinu

Heimskautasvæðin voru lengst af ekki skrifuð hátt meðal stjórnmálamanna eða umsvifamanna; athafnaskálda sem svo hafa verið nefnd, gjarnan af aðdáun. Land- og hafsvæðin hafa heldur ekki staðið hátt í huga almennings vegna fjarlægðar og óaðgengileika. Engu að síður vekja þau aðdáun þeirra sem líta hvítar breiður, borgarísjaka, náhvali, hvítabirni og veiðimenn á hundasleðum, t.d. í bókum og sjónvarpi. Og þúsundir flykkjast í ferðalög þangað á meðan ótal vísindamenn stunda mikilvægar rannsóknir og gefa út þúsundir ritgerða og skýrslna. Margar þjóðir hafa skipulagt heimskautastofnanir og á tveimur til þremur áratugum hefur samstarf þeirra um nám, rannsóknir og upplýsingamiðlun til samfélaga og þjóða margfaldast.
Norðurheimskautsráðið og hliðarafurðir stofnunarinnar eru staðfesting þess að þjóðirnar á norðurslóðum, og allmargar utan þeirra, hafa tekið til við að nýta bráðnauðsynlegt samstarf og stunda tilraunir til að koma þar á samræmdu skipulagi og ýmsum jákvæðum aðgerðum, m.a. á sviði mennta og rannsókna og samræmdra björgunaraðgerða á sjó.
Á allra síðustu árum hafa svo augu fjárfesta, fjármálastofnana og ríkisstjórna beinst að svæðinu. Ástæðan er einföld: Skyndilega blasir við að aðgangur að gjöfulum auðlindum getur opnast og nýjar siglingaleiðir að auki. Nægur auður og digur hagnaður getur fallið mörgum í skaut; eftir himinháar fjárfestingar. Talið er að um 90 milljón milljónir dala fari ef til vill í þær á næstu árum. Og forvígismenn samfélaga, sem sum hver eru erfið í rekstri, sjá fyrir sér hlutdeild þeirra í auðæfunum. Á Grænlandi og í Færeyjum eygja þarna margir leið til sjálfstæðis.

Réttur frumbyggja og hugmyndafræði

Eins og oftast í mannkynssögunni við sókn auðlindanýtenda inn á ný landsvæði eru þar fyrir mannverur. Hver kann ekki sögur um misbeitingu valds gegn fólkinu og hundsun á rétti þess eða lífsháttum. Nú til dags er ekki unnt að fara þannig óheft fram á norðurslóðum. Frumbyggjar hafa skipulagt sig og sett fram sínar kröfur og staðið á sínum rétti. Einnig hefur viðhorf, jafnt almennings sem stjórnvalda í heima og heiman, breyst í þá veru að viðhorf frumbyggja eru að nokkru viðurkennd – og að fullu meðal margra í hópi leikmanna, sérfræðinga og stjórnmálamanna. Að því sögðu er ekki þar með viðurkennt að viðhorf frumbyggja séu í alla staði og ávallt réttmæt eða kröfur þeirra alltaf sanngjarnar. Meginatriðin eru þó ljós. Rétt frumbyggja til að lifa af náttúrunni og í sátt við hana ber að virða og líka rétt þeirra til að ákvarða hvernig þeir aðlagast breyttum aðstæðum og tækni. Sömuleiðis rétt þeirra til sjálfbærrar auðlindanýtingar. Misgjörðir gagnvart frumbyggjum ber að leiðrétta og bæta fyrir.
Þúsunda ára reynsla frumbyggja af sambýli við náttúru norðursins á erindi við alla sem koma að málefnum norðurslóða. Þar er að finna upplýsingar, viðhorf, hugmyndafræði og aðferðir sem eiga fullt erindi í alla ákvarðanatöku um næstu og hin fjarlægari skref við nýtingu og stjórnun norðurslóða.
Efla verður miðlun frá frumbyggjum til okkar, þar á meðal með stofnun Frumbyggjaskóla SÞ. Þar geta þeir frætt okkur hin um margvísleg efni, líkt og íslenskir sérfræðingar hafa frætt útlendinga um jarðhita og jarðhitanýtingu í Jarðhitaskóla SÞ. Ég sendi Mannréttindaskrifstofu SÞ þessa hugmynd haustið 2014 en hef ekki séð nein viðbrögð, enda erindið frá einstaklingi/leikmanni en ekki stofnun eða stjórnvaldi.

Auðævi hverra?

Námuauðlindir á borð við kol, olíu og málma eru jafnan ávísun á mikil auðævi. Það sýnir sagan. Hún afhjúpar líka að stórveldi, öflug herveldi og þau samfélög sem lengst eru komin í tækni hverju sinni hafa sótt í auðlindir út um allt, oft í krafti einkafyrirtækja eða ríkisfyrirtækja. Nú gerist slíkt oft með opnum milliríkjasamningum en ekki valdbeitingu. Hana sjáum við reyndar stundum innan landamæra ríkja þar sem valdstjórn tekur hagsmuni erlendra eða innlendra fyrirtækja eða stofnana fram yfir hagsmuni hópa heimamanna, til dæmis frumbyggja, bænda eða fiskimanna, og þá gjarnan með tilvísun til hagsmuna heildarinnar eða efnahagslegrar nauðsynjar.
Hitt er dagljóst að náttúruauðlindir innan landamæra ríkja eru lagalega séð eign þjóða sem þau byggja og aldrei unnt að beita sem rökum fyrir innkomu erlendra aðila að þær séu eign mannkyns; eins þótt stundum megi færa siðferðileg rök fyrir að svo sé. Það gæti til dæmis átt við sjaldgæf efni til nota í heilbrigðisþjónustu eða staði, einstæða í náttúrunni.
Þegar kemur að auðlindanýtingu er auðvelt, en oft ofureinföldun, að höfða til þess að auðlindirnar “verði að nýta”, ella strandi samfélagið. Hugtök eins og hagvöxtur og velferð eru að sjálfsögðu afstæð en lýsa alls ekki sjálfvirkri atburðarás á borð við náttúrulögmál. Hagnaðarvon knýr líka marga fjárfesta til þess að leita stöðugt að hærri og hraðari ávöxtun fjármagns, oft með tilvísun til eins óljósasta hugtaks í stjórnmálum og hagfræði sem til er: Þróun, jafnvel framþróun.

Auðlindir á norðurslóðum

2011.7.6- oil_rigÓþarft er að telja upp allar jarðauðlindir í norðrinu. Meirihlutinn er ónuminn. Sagan leiðir eflaust í ljós að hópar heimamanna hafa nú þegar orðið að gjalda dýrt fyrir auðlindavinnslu, ýmist með búferlaflutningum, heilsu sinni, aðgengi að fersku vatni eða velferð veiði- og húsdýra. Mest af þeirri sögu er lítt skráð og fáum kunn.
Þrennar höfuðauðlindir eru mest áberandi í umræðunni um “tækifæri og áskoranir” á norðurslóðum: Jarðefnaeldsneyti, málmar og steinefni og loks land undir vegi, járnbrautir, orku- og efnaleiðslur, flugvelli og hafnir. Augljóslega fylgir nýtingu þeirra allra mikið rask og veruleg mengun í lofti, hafi og á landi. Ferðaþjónusta og fiskveiðar koma í næstu sæti í umræðunni.
Tækifæri á norðurslóðum eru sögð felast í auðlegð og framförum, ásamt hagvexti, en áskoranirnar einkum í að minnka eða koma í veg fyrir rask og mengun, og enn fremur neikvæð áhrif á samfélög manna.
Hvernig finnum við jafnvægið á milli þessara póla? Hvenær er best að láta verkefni kyrr liggja? Hvenær og hvar taka umhverfisáhrifin fyrsta sæti en auðlindanýting annað sæti? Marga langar að ræða þetta til hlítar og láta náttúru og vilja nærsamfélaga ráða mestu en aðrir meta tækifærin mest og telja tækni og góðan ásetning einkafjármagnseigenda, í samvinnu við ríki og þjóðir, geta leyst vandamálin. Og jafnvel fer þannig að umhverfismálin eða réttindi frumbyggja eru tónuð svo hressilega niður að umhverfisvandinn nánast hverfur eða er sagður óviss; frumbyggjar reknir á hliðarlínu vegna mannfæðar og “úreltra” lífshátta eða orðanotkun tekin upp eins og sást í grein í sérútgáfu Morgunblaðsins 1. nóvember 2014. Þar var ensk þýðing á hugtakinu norðurslóðasókn, á tímum kröfu um sjálfbærar náttúrunytja, orðin að: Conquering the north – norðrið sigrað. Að mörgu leyti fela þau í sér kjarna sóknarinnar sem stórfyrirtæki, t.d. kínversk, rússnesk, bandarísk, norsk og alþjóðleg standa fyrir. Og hugtakið er í reynd nær því að merkja að leggja undir sig. Þegar þess er gætt að viðmiðun í olíu- og gasvinnslu er á þann veg að fyrir hvern dollar sem fjárfest er fyrir fást tíu í staðinn, ef sæmilega tekst til, er ekki að undra að margir vilja sigrast á … hverju? Og gefa lítið fyrir áframhaldandi hlýnun af mannavöldum á meðan hagnað í beinhörðum peningum er að hafa.

Meiri olía og gas?

Enn eru um 70% raforku heimsins framleidd með jarðefnaeldsneyti og langmest af farartækjum veraldar ganga fyrir því. Erfitt er að vinda ofan af vinnslu og brennslu efnanna en engu að síður veltur velferð mannkyns á að það takist á örfáum áratugum. Stundaglasið tæmist hratt. Einu framfarir sem kveður að í bili er minni nýting kola í heild en því meiri af gasi og olíu. Þær duga þó hvergi til.
Hvernig sem menn umgangast hugtakið hlýnun jarðar af mannavöldum er ljóst að ýmis umhverfisáhrif vinnslu og brennslu eru nægilega alvarleg til þess að taka megi afstöðu með viðmiðum ítrustu varkárni. Nefna má hvers kyns loftmengun, gastegundir og sót, mengun grunnvatns, mengun og súrnun hafsins, sóun hráefna sem þarf til vinnslunnar og efnisflutninga, og loks gegndarlausa skógar- og gróðureyðingu sem fylgir vinnslu á mörgum stöðum. Hver stórborgin eftir aðra er að verða að fyllilega óþolandi mengunarpottum, utan helstu velmegunarlanda.
Um þaulrætt viðmið eru flestir vísindamenn og fjölmargar alþjóðastofnanir, líka fjármálastofnanir á borð við Alþjóðabankann, sammála: Aðeins má vinna 25-30% þekktra kola-, olíu- og gaslinda. Vinnsla umfram það er því miður fyrst og fremst drifin áfram af hagnaðarvon fyrirtækja og skorti á samfélagsábyrgð. Verulegt magn olíu og gass er að finna á norðurslóðum og vinnsla þegar hafin næst meginlöndunum en fjær, við strendur Grænlands eða Jan Mayen, eða á miklu sjávardýpi. Rússneskur sérfæðingur á ráðstefnu Arctic Circle 2014 nefndi að 60% af olíu- og gasþörf samtímans yrði að koma úr óþekktum lindum og af þeim væri stór hluti í norðrinu, sennilega um fjórðungur. Og hann upplýsti um leið að umhverfisáhrif leitar og vinnslu væru “largely unknown” – að mestu leyti óþekkt.
Í hnotskurn fer þarna stórgölluð hugmyndafræði sem skellir skollaeyrum við staðreyndum og þekkingu. Vissulega er vitað nægilega mikið um áhrif frekari olíuleitar, olíuvinnslu og vaxandi notkunar jarðefnaeldsneytis til að þau megi meta.
Andsvarið við framrás olíu- og gasrisanna á norðurslóðum á að vera þetta: Setja verður núverandi vinnslu skorður og hverfa frá frekari hugmyndum um stórfellt nám jarðefnaeldsneytis á norðurslóðum. Nú er styrkur koldíoxíðs í lofti er kominn í 400 milljónustuhluta en var um 320 fyrir 60-70 árum. Aukningin er sú hraðasta og magnið það mesta sem vísindagögn ná yfir 500-800 þúsund ár aftur í tímann. Vilja olíufélögin, ríkisstjórnir og fjárfestar nefna einhver efri mörk styrks sem við eigum að þola? Er frekari aukning ávísun á bjarta framtíð?

Öflugari námuvinnsla?

kvanefjeldstur_0750_w480Önnur námuvinnsla en vinnsla gass og olíu er þegar hafin norðan heimskautsbaugs. Sókn í málma, einkum sjaldgæf jarðefni, er skilgetið afkvæmi kröfu um tækniframfarir, æ fleiri mannvirki og sem mestan hagvöxt.
Í sumum tilvikum eru efnin ákaflega eftirsótt, t.d. í snjallsíma, tölvur og hluta vindmylla. Í öðrum tilvikum er um málma á borð við gull að ræða, sem ekki skortir í sjálfu sér, en fyrirtæki sjá hagnaðarvon í að nema, hvað sem ítrustu þörfum líður. Demantar eru annað dæmi um jarðefni þar sem gróðasókn stýrir að stórum hluta vinnslunni, hvorki brýn nauðsyn né umhyggja fyrir umhverfinu.
Opinn aðgangur að námuvinnslu á norðurslóðum, án tillits til burðargetu náttúrunnar á námustöðum, með skertri getu staðbundinna samfélaga til að lifa samkvæmt eigin, lýðræðislegu ákvörðunum, og sem sniðgengur raunverulegar þarfir mannkyns, er andstæð okkur öllum. Sú röksemd að námuvinnsla leiði til uppbyggingar innviða og þar með framfara er til lítils, því hún lýtur þröfum fyrirtækja, einkum í uppbyggingarfasanum, en sjaldnast brýnum þörfum samfélaga eins og þau skilgreina þær.
Í stað stórsóknar fyrirtækja inn í þennan heim verður að nýta alþjóðlega samvinnu heimskautaríkja og alþjóðastofnana á jafnréttisgrunni til þess að skilgreina þá vinnslu sem mörg landsvæði geta borið með lágmarks umhverfisáhrifum og í samræmi við þarfir alþjóðasamfélagsins, ekki einstakra ríkja eða fyrirtækja. Þetta er hörð afstaða en réttlætanleg. Hún kallar á nýja hugmyndafræði í verki: Raunyrkju í stað rányrkju.

Hvað er í húfi?

Viðamikil nýting jarðefna og jarðefnaeldsneytis á norðurslóðum, í andstöðu við það sem hér kemur fram að framan, hefur eyðandi áhrif, langt umfram það sem mannkyn þolir. Í húfi eru mörg dýrmæti. Má nefna hvíta varnarskjöld norðursins gegn sólgeislun og ofhitnun, sjálfan hafísinn. Rýrnun hans veldur að lokum hraðri hlýnun norðurhafa með enn alvarlegri áhrifum en við höfum lifað. Benda má á jarðklaka sem varðveitir metan; hættulega gróðurhúsalofttegund, margfalt öflugri en koldíoxíð. Og áfram: Nokkuð hreinan sjó og fiskimið enda þótt blikur séu á lofti hvað óholl efni efst í fæðukeðjunni varðar. Mikil skógarflæmi sem binda koltvísýring, hreint yfirborðsvatn og stóra jökla er geyma mikilvægan vatnsforða sem aðeins getur nýst til langs tíma ef búskapur jöklanna er í nokkru jafnvægi og rýrnun sem minnst. Jarðefni sem á að skila til margra kynslóða en ekki eyða á nokkrum áratugum. Lífshætti og þekkingu fólks sem má miðla til annarra svo að þekking á sjálfbærum búskap hvíli ekki aðeins á kenningum heldur líka á raunverulegu starfi og reynslu.
Veröldin ber ekki enn eina stórfellda innrásina í óbyggðir jarðar; inn í ein af fáum lítt skemmdum lungum jarðar; kalda jarðarhlutann sem viðheldur góðum lífsskilyrðum í tempruðum og hlýjum loftslagsbeltum jarðar. Mikið er í húfi, jafnvel þótt aðeins sé litið til vanda í hlutfallslega smáum stíl, t.d. olíuleka úr borholum eða skipstapa, með alvarlegum afleiðingum fyrir staðbundna fiskistofna og sjávarspendýr.
Við getum metið bitra reynslu að eyðingu hægvaxta og gamalla frumskóga í flestum heimsálfum; gróðurs sem bindur koldíoxíð hraðast allra lífvera. Rýrnun skóga með góðri bindigetu koldíoxíðs og eyðimerkurmyndun ár hvert er af stærðargráðunni 30.000 ferkílómetrar. Skógarrýrnun er ein af helstu ástæðum hlýnunar loftslags á heimsvísu. Jörðin er sannanlega ekki að verða grænni eins og stundum heyrist og þaðan af síður bindur gróður meira af koldíoxíði eftir því sem magn hans eykst í lofti. Slíkt gerist aðeins ef gróðurmagn eykst.

Öruggar siglingar

arctic shipsSamfara hlýnun jarðar opnast nýjar siglingarleiðir um norðurhöfin, eins þótt andófið gegn hlýnun jarðar beri árangur. Sú ógn sem stafar af slysum á þeim vandförnu leiðum vegst á við umhverfisávinninga af miklu styttri siglingaleiðum en nú eru notaðar. Þá gildir að öryggismál séu tekin föstum tökum og alþjóðleg samvinna allra sem stjórna og nota siglingaleiðir innan og utan lögsögu ríkja verði haldin í heiðri. Mjög brýnt er að Alþjóða siglingamálastofnunin IMO aðlagi reglur og réttindi að sérstöðu norðurslóða og Alþjóða hafréttarsáttmálinn UNCLOS taki í reynd mið af að hafsvæðið utan 200 mílna réttindalögsögu fimm strandríkja norðursins geti verið skilgreint sem alþjóðlegt hafsvæði.

Sjálfbærni í norðri

Námavinnsla er aldrei sjálfbær og því verður að undanskilja hana öllu tali um sjálfbærni. Umhverfisvæn olíu- eða járnvinnsla, svo dæmi séu tekin, eru misvísandi orðaleppar og með öllu óhæfir, hvað þá sjálfbær gas- og olíuvinnsla. Í meginatriðum stefna flest ríki heims vissulega að sjálfbærni og hún á sem aldrei fyrr við á norðurslóðum en gildir ekki um olíuvinnslu. Það væri blekking.
Vissulega getur olíuvinnsla nær notkunarstað minnkað kolefnisútblástur um það sem styttri flutningsleiðir kalla fram en það er ekki ígildi aukinnar sjálfbærni vegna þess að auðlindin er ekki endurnýjanleg. Líta ber ávallt á takmarkaða vinnslu jarðefna sem nauðsynlegan fórnarkostnað við velferð mannkyns. Um leið verður að lágmarka umhverfisáhrif vinnslunnar, meðal annars með hófsemi, endurnýtingu og mótvægisaðgerðum, án þvaðurs um sjálfbærni.
Samgöngur verða seint sjálfbærar – nema hvað eldsneyti varðar og þá í nánustu framtíð, ef vel á að fara. Farartækin sjálf krefjast óafturkræfrar námuvinnslu að vissu marki. Sjálfbærni landbúnaðar, fiskveiða, veiða á landi, skógarvinnslu, virkjana eða sjálfbær nýting annarra auðlinda getur aftur á móti verið næstum alveg kleif ef auðlindum er skilað með nánast óskertri afkasta- eða afrakstursgetu til komandi kynslóða, hagkvæmni er metin heildrænt og umhverfi ekki skert af mannavöldum meir en svo að úr sé unnt að bæta.
Verkefnin í norðri – ofleikur

Því miður hafa ýmsir forystumenn í málefnum norðurslóða talað með of hástemmdum orðum um þýðingu norðursins. Inntakið er sem svo að þar “ráðist framtíð mannkyns”. Slíkur ofleikur er óréttlætanlegur vegna þess að samhengi í framgöngu allra þjóða heims við málefni norðurslóða er augljóst. Allar þjóðir bera ábyrgð á framtíð mannkyns. Hún ræðst ekki síður í Kína á leið til iðnvæðingar eða í hlýju Afríku, mestu matarkistu heims, eða í Brasilíu með sína regnskóga, svo dæmi séu nefnd. Fjöldann meðal okkar manna er að finna í suðrinu og þar ráðast líka örlög mannkyns, svo ekki sé minnst á Suðurskautslandið og umhverfi þess sem lýtur sérstökum alþjóðasáttmála. Hann virkar þrátt fyrir kröfur allmargra ríkja til yfirráða þar yfir afmörkuðum landsvæðum; kröfur sem eru án haldbærra raka á tímum alþjóðavæðingar og aukins lýðræðis. Upphafning norðursins er, með öðrum orðum, úr takti við raunveruleikann.
Verkefni á norðurslóðum eru ærin og að þeim verður að vinna með öflugri alþjóðasamvinnu undir forystu ríkjanna átta í Norðurskautsráðinu þar sem Danmörk er handhafi utanríkissamskipta Færeyja og Grænlands, og einnig fyrir tilstilli SÞ, auk frumbyggjasamtakanna sex.
Ofleikur einstaklinga í umræðum um norðrið kann að virðast tilkomumikill en hann varpar einungis hulu yfir vandmeðfarin málefni og jarðbundna afstöðu til þeirra. Til þeirra verður að horfa með raunsærri hliðsjón af stöðu annarra heimshluta.

Kapphlaup og árekstrar?

arctic_circleTil eru þeir sem telja að samvinna í Norðurskautsráðinu og samvinna þess og margra landa, sem þar hafa áheyrnarfulltrúa, geti tryggt að ekki verði alvarlegir árekstrar við opnun norðursins, hve langt sem hún kann að ná að lokum. Telja unnt að halda samvinnu milli ríkjannam átta á friðsamlegum og lýðræðislegum nótum þar sem samningar tryggja bæði rétt þeirra og annara ríkja sem ekki eru ákvörðunaraðilar að Norðurskautsráðsinu.
Aðrir óttast að ströng hagsmunagæsla hvers ríkis og merki um nýja og aukna heruppbyggingu séu til vitnis um að andstæðingar takist á þegar fram í sækir. Ekki endilega með vopnavaldi heldur með því að helga sér og tryggja haf- og botnsvæði og segjast munu verja þau með öllum ráðum. Önnur ríki gætu reynt að koma sér fyrir, beint eða bakdyramegin, með verkefnum, eigin vinnuafli og aðstöðu í heimskautalöndunum, einkum þeim minni. Oft er þá bent á Kína.
Nú þegar hafa orðið til ásteytingarsteinar. Stærstir eru stefna sem byggir á víðtækum hafsbotnsréttindum langt út frá ströndum ríkja (studd jarðfræðilegum rökum líkt og þegar Ísland seilist vestur fyrir Færeyjar og Bretland, eftir Reykjaneshrygg) og krafa um ríkjabundna stjórnun alls hafsvæðisins í hánorðri. Með því er átt við að fimm strandríki taki yfir stjórnun hafsvæðis frá landgrunni þeirra allt til norðurpólsins. Yfirlýsing þess efnis liggur þegar frammi sem sameiginlegur vilji fimm ríkja, Kanada, Bandaríkjanna, Rússlands, Noregs og Danmerkur, eftir lokaðan fund fyrir fáeinum árum. Ísland átti þar ekki sæti, ekki fremur en Svíþjóð og Finnland.
Til hliðar standa svo ýmis Evrópuríki, og fjarlægari ríki, og telja að beita verði mun alþjóðlegri og sameiginlegri viðmiðum þegar vélað er um réttindi og stjórnun innan “nýja leikvallar” mannkyns.

Ábyrgð vísindamanna

Mikill meirihluti vísindamanna sem fjalla um hlýnun jarðar og orsakir hennar er sammála um grundvallaratriðin og þá einkum þrennt: Hvert stefnir með meðalárshitann, hvað það hefur í för með sér og loks að stærstur hluti hlýnunarinnar er af völdum útblásturs, gróðureyðingar og mannvirkjagerðar.
Vísindamenn bera mikla ábyrgð á að staðreyndir séu til reiðu handa almenningi, stjórnvöldum, stofnunum og fyrirtækjum. Þeim ber að leggja þær fram, ótrauðir og óþreytandi, og hika ekki við, þegar skyldur leyfa, að tengja staðreyndir við tillögur að aðgerðum eða ábendingum um hvar leysa þyrfi hnúta eða höggva á þá, og á hverju hefur strandað jafn lengi og raun ber vitni. Margir þeirra standa sig vel en raddirnar ná ekki nógu víða. Gagnrýni á framlag þeirra sem telja hlýnunina eðlilega, eða gera lítið úr afleiðingum hennar, ber ávallt að svara faglega.

Ábyrgð stjórnvalda og fyrirtækja

Enn sem komið er vantar víðtæka samninga um aðgerðir í loftslagsmálum milli aðalleikaranna á veraldarvísu. Nokkur lönd hafa unnið fremur varfærnar aðgerðaáætlanir, til dæmis Þýskaland, og ber að fagna því. Mestu varðar auðvitað að fram komi ný og verulega framsækin stefna og skilvirkni ríkja sem mest losa, svo sem Bandaríkjanna, Kína, Indlands og Rússlands. Einnig vantar gjörbreytt viðhorf miklu fleiri ríkja, sem ýmist eiga í olíuvinnslu eða framleiða mikla orku með kolum, olíu og gasi. Þar í flokki eru til dæmis Frakkland, Kanada, Noregur, Bretland og Ástralía, auk olíuríkja í S-Ameríku, Mið-Austurlöndum og enn austar. Stefnan ætti að snúast um að draga olíu- og kolavinnslu saman í takt við hraða orkuumbyltingu á heimsvísu, leita ekki víðar að þessum hráefnum í bili og ganga ekki frekar en orðið er á land, gróður, búsvæði og auðlindir í eigin löndum eða öðrum. Stöðugur hagvöxtur og ítrustu orkukröfur verða að láta undan með afleiðingum sem þrengja myndi að lífstíl í öllum iðnríkjum heims og seinka umbreytingu stóru þróunarríkjanna í iðnríki.
Þessu er ekki enn þannig varið. Stjórnmálaöfl, ríkisstjórnir og stórfyrirtæki draga lappirnar vegna eigin hagsmuna eða þrýstings hagsmunaafla. Þau verða þar með í æ erfiðari andstöðu við jafnt væntingar almennings um bærilega velferð og heilsusamlegt umhverfi, hvað þá siðferðileg álitamál.
Greinilega vantar líka mikið á að upplýsingagjöf, einkum til almennings, teljist næg um orkumál, ógnir hlýnandi loftslags, jafnt sem tækifæri eða leiðir til aðlögunar. Úr því verður varla bætt nema með ábyrgri forystu stjórnvalda og opinberra stofnanna. Það sama gildir þegar horft er á tregðu stórfyrirtækja og alþjóðlegra fyrirtækjarisa til að skera niður starfsemi með hefðbundnum orkugjöfum, leggja stórfé í þróun til annarrar orkuöflunar, miðla meiri orku til fólks en minni til stóriðju og taka fulla ábyrgð að sínum þætti í vandamálum sem hljótast af brennslu jarðefnaeldsneytis. Sýnt hefur verið fram á minni kostnað og meiri hagnað af tafarlausum viðbrögðum við hlýnuninni og afleiðingum hennar í stað þess að reyna að lágmarka skaða eftir ár eða áratugi. Það ætti að vera mörgum bein fjárhagsleg hvatning til að gera betur.
Og sú ætlan gengur því miður ekki upp að þoka meira en helmingi mannkyns sem hefur orðið á eftir í lífsgæðum, meðal annars vegna nýlenduafskipta margra ríkja og seinkomu að borði iðnþróunar, til jafns við þau hin með stóraukinni orku úr jarðefnaeldsneyti. Þar verður að reyna á rýmri tímaramma, þolinmæði og aðrar leiðir en ofurhraða og hefðbundna orku- og iðnvæðingu. Þar verður að finna efni til nýsköpunar og þróunarsamvinnu á forsendum græns hagvaxtar og treysta á mun hægari vöxt orkugetu en flest þróunarríki og þá einkum Kína og Indland gera ráð fyrir.
Íslensk stjórnvöld hafa markað þá stefnu að minnka losun kolefnisgasa um 30% fyrir árið 2020. Er sannarlega vandséð að það takist. Og þróunarsamvinnan er ekki til að guma af, nema ef til vill í jarðhitageiranum.

Ábyrgð okkar

Almenningur getur og á að leggja sitt af mörkum til að hamla gegn hlýnun andrúmsloftsins. Búnar hafa verið til leiðbeiningar um það víða um heim. Meirihluti jarðarbúa sinnir þeim ekki, ýmist vegna vanþekkingar, rangra upplýsinga, fátæktar eða í þeirri vissu að gerðir einstaklinga skipti ekki máli í stóra samhenginu. Meira að segja telja sumir landsmenn mínir að gerðir Íslendinga séu ekki umtalsverðar og hér geti framvindan áfram fylgt metlosun á heimsvísu per mannbarn, ef horft er framhjá raforku- og upphitunargeiranum, og við hagnast á sem allra mestri vinnslu og sölu á íslenskri olíu.
Rétt eins og hvað mannréttindi áhrærir, ber hver jarðarbúi sína agnarögn af ábyrgð, ekki bara á sjálfum sér heldur og á meðbræðrum sínum og – systrum.

Samvinna og stjórnun norðursins

Ari og strákarnir í QaanaaqÍ alþjóðasamvinnu um stjórnun landsvæða eða nýtingu auðlinda er aldrei fullkomlega tryggt að samvinna verði án alvarlegra deilna eða öllum til góða.
Samvinna innan Norðurskautsráðsins, að nokkrum sáttmálum SÞ og undir gamla sáttmálanum um fyrirkomulag mannlegrar virkni á Suðurskautslandinu gefur góð fyrirheit. Auk fjölda samstarfsverkefna sem gengið hafa vel, er til dæmis komið fram heildstætt samkomulag um leit- og björgun á hafsvæði norðursins.
Í hverri ræðu ráðamanna á alþjóðavettvangi er ítrekað að samvinna á norðurslóðum og stjórnun á hafsvæðinu norðan strandríkjanna skuli vera friðsamleg og á sjálfbærum eða umhverfisvænum nótum. Því ber að fagna.
Samtímis er ýmislegt við ummælin að athuga. Sjálfbærnihugtakið er notað að hluta með röngum formerkjum um stefnu sem miðar að umfangsmikilli námavinnslu á landi og vinnslu og notkun meiri jarðefnaeldsneyta. Hugtakið umhverfisvernd getur ekki náð yfir kapphlaup um olíu- og gaslindir, nema hvað varðar varnir gegn óhöppum við starfsemina. Ábyrgð vinnslulands á umhverfisvernd nær líka til sölu og notkun efnanna í öðrum löndum. Noregur er gott dæmi um hvernig ráðamenn skjóta sér undan ábyrgð á hlýnun jarðar með því að vísa aðeins til umhverfisverndar norskra fyrirtækja við vinnslu gass og olíu. Sala efnanna og notkun er sögð vera á annarra ábyrgð.
Enn fremur hafa fimm strandríki lýst einhliða yfir vilja til þess að þeirra sé að hafa ákvörðunarrétt yfir nyrstu hafsvæðum, utan við 200 mílna mörkin. Samhliða gera sömu ríki kröfur um auðlindir á hafsbotni langt út fyrir þessi mörk. Hvorugt rímar við framsækna umhvrefisvernd eða samhyggð.
Hér þurfa strandríkin fimm að gefa eftir ítrustu hafsbotnskröfur, halda sig við eigin auðlindir innan 200 mílna marka og leyfa alþjóðasamfélaginu að líta á miðju Norður-Íshafsins sem svæði undir verndarvæng mannkyns. Það verður þá efni alþjóðlegs samkomulags að ábyrgjast hafsvæðið og stjórna því, jafnvel með því að fá strandríkin til að taka það að sér með framlagi SÞ.
Annað og enn flóknara verkefni lýtur að því að endurskoða hafréttarsáttmálann og vinda ofan af óréttmætum kröfum um auðlindir langt út á öll helstu hafsvæði sem verða að fá að vera ósnertar, mannkyni til góða. Þar getum við sýnt gott fordæmi með því að láta af kröfum um hafsbotnsréttindi alla leið vestur fyrir Bretlandseyjar.

Alþjóðleg verndarsvæði

Af hverju er svo mikilvægt að sem mestur hluti norðurhafa sé alþjóðlegt verndarsvæði? Meðal ástæðna er nauðsyn þess að láta auðlindir þar liggja að mestu kyrrar. Önnur ástæða er nauðsyn þess að ábyrgð á umhverfisvernd í norðrinu sé allra ríkja en ekki fárra. Þriðja ástæðan er sú táknræna gjörð sem í vernduninni felst; viðurkenning á því að bæði heimskautasvæðin skipa mikilvægan sess í verndun lífríkis um leið og þau eru tákn um hófsemi í auðlindanýtingu. Auk þess er því þannig varið að ófyrirséð kólnun veðurfars getur á skammri stund breytt aðstæðum á fyrrum og núverandi hafíssvæðum. Viðbrögð við því ættu, ef svo ber undir, að vera á ábyrgð alþjóðasamfélagsins, ekki nokkurra strandríkja.
Til viðbótar hafsvæðinu næst norðurpólnum er brýnt að ná samkomulagi við öll átta heimskautaríkin og frumbyggjasamtökin um að afmörkuð landgrunnssvæði og fleiri landshlutar en sem svara núverandi þjóðgörðum lúti fullri vernd vegna lífríkis, náttúrufars eða samfélagslegra hagsmuna íbúa við þau eða innan þeirra.

Fimm ára stöðvun?

Dr. William Moomaw, prófessor emeritus við Tufts háskóla í Bandaríkjunum hélt erindi um orkuauðlindir á norðurslóðum við Háskólann í Reykjavík 30. október 2014. Hann er meðal annars þekktur fyrir að leggja til fimm ára hlé á kolavinnslu í Bandaríkjunum til þess að enduskipulegga þann þátt með vinnslulok fyrir augum. Það sama varðar umdeilt fracking eða jarðlagabrot með efnablönduðu vatni til að ná upp jarðgasi.
Á fundinum lagði hann fram mat á því sem kallast tækifæri og áskoranir í orkuvinnslu á norðurslóðum. Niðurstaðan hans er einföld: Það verður að sameina þjóðir, sem við eiga, um fimm ára bann við frekari ásókn í olíu- og gaslindir á norðurslóðum. Samtímis er leitað lausna til þess að vinda ofan af fyrirætlunum um gas- og olíuleit og núverandi vinnslu eins og unnt er. Tillagan er róttæk og vafalítið mætir hún harðri andstöðu. Hún er engu að síður mikilvæg sem umræðuefni og stefnumál til að vinna að í sem allra nánustu framtíð. Alþingi og ríkisstjórn eiga að styðja tillöguna. Stjórnvöld eiga líka að gangast fyrir sem víðtækustum umræðum um nýja stefnumótun í orkuvinnslu í norðrinu – t.d. ráðstefnu í samvinnu við erlenda aðila og á vegum Norðurskautsráðsins, en á ólíkum og heppilegri nótum þeim er gjarnan eru slegnar þar, eða í allt of oft á haustfundum Arctic Circle .

Drekasvæðið og aðrar leiðir

olia_kortMikil meirihluti landsmanna studdi olíuleit og vinnslu á Drekasvæðinu við Jan Mayen í skoðanakönnun árið 2013. Allir stjórmálaflokkar sem þá störfuðu litu jákvætt á olíuleit þriggja samstarfshópa. Einn þeirra hefur dregið umsókn sína til baka.
Nú er tekið að kvarnast úr stuðningnum hér innanlands, bæði vegna nýrra gagna og upplýsinga og vegna aukinnar umræðu. Sennilega fjölgar þeim flokkum sem taka afstöðu gegn olíuvinnslunni til viðbótar Samfylkingunni sem snúist hefur til andstöðu, t.d. Vinstri grænir og Björt framtíð. Afstaða Pírata til leitar og vinnslu hefur verið óljós og verður það ef til vill áfram.
Leitendur að olíu og gasi við Jan Mayen eru íslenskir, norskir og kínverskir með ýmsa ráðgjafa sér við hlið, bæði breska og kanadíska. Þeir eru bjartsýnir og telja að allt að 10 milljarðar tunna séu á að minnst kosti einu svæðanna en sennilega tugir milljarðar á öllu hafsvæðinu sem Noregur og Ísland hafa réttindi til að nýta.
Ýmis konar hagfræðileg rök má færa fram til stuðings vinnslu. Þau einföldustu eru setningar á borð við: – Lykill að mikilli velmegun og greiðslu allra skulda ríkisins. – Olíu og gass er þörf næstu áratugi og við getum unnið efnin vel og vandlega. – Við minnkum heildarlosun koldíoxíðs með þessu móti. – Af hverju eigum við að láta augljós verðmæti kyrr liggja.
Vegin á móti tjóni og vá, sem velmeguninni, aðgæslunni og lítilsháttar minni losun kolefnisgasa kann að fylgja, eru þessi orð léttvæg. Fjármuni til fjárfestinga við Jan Mayen geta sömu aðilar nýtt til verka sem þjóna andófi gegn hlýnun (ef til vill með minni hagnaði en ella). Auk þess sjá aðrir um að vinna olíu og gas umfram þau mörk sem þolmörk hlýnunar segja til um, miðað við að ekki megi snerta nema þriðjung þekktra olíulinda, og verða krafðir ábyrgðar á því.
Hér á landi er unnt að framleiða eldsneyti á bílvélar (t.d. alkóhól) á umhverfisvænan hátt, lífdísil á bíla (úr þörungum og repju) og hluta skipaflotans, vetni til nota á bíla og í skip og loks raforku á vistvænan hátt, einmitt fyrir hluta þess fjár sem á að fara í gin drekans.
En er í raun unnt að snúa við því starfi sem fyrirhugað er á Drekasvæðinu, og jafnvel vinnslu, ef olía finnst þar? Er raunhæft að krefjast hlés eða stöðvunar?
Leitendur munu segja þvert nei og vísa til alþjóðasamninga og bótakrafna. Þær aðstæður þarf vissulega að skoða, en ekki treysta fullyrðingunum einum.
Hitt er jafn ljóst að óréttmætar umhverfiskröfur verða ekki settar fram gagnvart leitarhópunum í þeirri von að það endi leit eða vinnslu, eins og heyrst hefur. Ef ekki reynist unnt að rifta samningum með eðlilegu móti kann eina leiðin að leitar- eða vinnslutöðvun að vera þung skattlagning og þá með sem allra mestum fyrirvara. Því miður fór svo að ferlið á Drekasvæðinu var sett af stað, vissulega á hefðbundinn þinglegan hátt, allt of hratt og þá einmitt á þeim tíma sem þjóðinni vegnaði illa. Því fór fjarri að næg samstaða ríkti um fyllstu varkárni, bæði á þingi og í samfélaginu eða allar hliðar teldust vel ræddar.

Orka handa jarðarbúum

Samfélög veraldar standast ekki álag á umhverfið sem frekari vinnsla jarðefnaeldsneytis á norðurslóðum leiðir af sér til viðbótar við vinnslu þekktra linda. Enn fremur er næsta víst, að með átaki sem kostað er með hagnaði af orkusölu næstu árin, og með sparnaði í útgjöldum til hermála, geta þjóðir heims lagt fram nægt fé, mannafla og þekkingu til þess að bæta nógu hratt úr orkuþörf sem minnkandi öflun jarðefnaeldsneytis ylli. Það gerist með fjölbreyttri, sjálfbærri orkuöflum sem að mörgu leyti er vitað hvernig á að fara fram en fé skortir til.
Stóru ríkin og Evrópusambandið verða að koma sér saman um meginleiðir, leyfa alþjóðastofnunum að marka útfærsluna og láta af gamaldags hagsmuna- og yfirráðadeilum. Í samvinnu við minni þjóðir og þróunarlönd verða þau enn fremur að tryggja, aftur með alþjóðastofnunum, að um helmingur mannkyns, sá er hallar á, hafi orku, vatn, fæðu, húsaskjól, mannréttindi, menntun og vinnu. Ef fjölþjóðahringar hlíta ekki markmiðum samtökum þjóða og stofnana, verður að setja þeim nýjar starfsreglur. Margir þeirra og sumir öflugustu einkafjárfestar heims skilja raunar nú þegar hverjum klukkan slær: Þeim sjálfum jafnt sem okkur öllum. Þaðan heyrast nú skynsemisraddir og gerðir fylgja.
Gerist allt þetta ekki fljótlega mun neyðin þvinga okkur til þess arna.

Breyttur lífsstíll og breytt tækifæri

Flestum hrýs hugur við að þurfa að breyta um lífsstíl eða afla sér velsældar með nokkuð öðru innihaldi og að hluta á annan hátt en oft áður. Minni orkunotkun, jafnvel orkuskömmtun, færi ferðir innan samgöngukerfisins, minna af lúxus, meira af nærfengnum matvörum, flutningar til nýrra búsvæða og fleira í þessum dúr verður nær örugglega hlutskipti næstu 1-2 kynslóða.
Tækifæri til þess að lifa friðsamlega og ríku lífi, hafa vel í sig og á, geta alið sómasamlega upp börn, geta lært og unnið verða ekki færri en áður eða verri kostir, aðeins breyttir að sumu leyti. Sú þróun er þegar hafin með sókn til aukins lýðræðis og mannréttinda víða um heim en um leið með andófi gegn fáveldi, misskiptingu auðs og spillingu.
Slíkt gerist þó ekki án mótöldu eins og sjá má í aukinni þjóðernisstefnu og rasisma eða í framgangi ofbeldiskenndrar ofsatrúar sem hafnar mörgu efnislegu og býr til andstæður milli trúarbragða.
Við eigum að vita að trúarbrögð eru stef við sömu grunnhugsun meginþorra fólks í ólíkum samfélögum heims: Tilvist heilagra afla handan mannlegrar getu. Það gerir þau öll jafn rétthá og ekkert þeirra merkari eða betri en hin. Gerir þau aðeins ólík og á mismunandi þróunarstigum innan ólíkra samfélaga.
Ljúki brátt gnægtaröldinni, sem byggst hefur á óheftri orkunotkun, offramleiðslu og ofneyslu, með breyttum en nógu vistvænum lífsháttum, er björninn unninn. Gerist það of seint, mun verða afar erfitt að komast upp úr feiknardýrum og eyðandi öldudal eftir holskeflur allt of hlýs veðurfars. Bjartsýni er góð en hún má ekki fela staðreyndir.

Höfundur er jarðvísindamaður, rithöfundur og áhugamaður um norðurslóðir.

Athugasemdir

ummæli

About Ari Trausti Guðmundsson