Í dag eru 6 ár liðin frá því að loftslagsvefurinn loftslag.is fór í loftið. Margt hefur gerst á þessum 6 árum og mörg loftslagstengd met fallið, ís bráðnað, bæði á láði og legi o.s.frv. Hlýnunin heldur sínu striki, en þar fyrir utan hefur umræðan farið bæði fyrir ofan garð og neðan og lítið þokast í rétta átt (þó auðvitað megi sjá einhver batamerki ef vel er að gáð). Loftslagsfundir hafa verið haldnir á ári hverju, sá fyrsti sem við fylgdumst með á þessum vettvangi var Kaupmannahafnarráðstefnan sem varð meiriháttar flopp – kannski vegna þess að afneitunarsinnar komust upp með að búa til plathneyksli sem kallað var climategate rétt áður en fundurinn hófst og má færa rök fyrir því að þeir hafi orðið valdir að miklum skemmdarverkum sem töfðu alvöru niðurstöður viðræðna í mörg ár (íslenski bloggarar og fleiri dreifðu meðal annars ósómanum). Stjórnmálamenn virðast ekki vera mjög atkvæðamiklir þegar á brattann sækir og skortir dug og þor og því fór sem fór og ekkert raunverulegt var ákveðið þá til að stemma stigu við hlýnun jarðar og einnig hefur heldur lítið gerst eftir það. Flestir COP fundirnir síðan hafa verið frekar atkvæðalitlir, en nú er enn og aftur stefnt að því að ná einhverju raunverulegu samkomulagi. Það á að gerast í París í desember og eru margir fullir vonar og eftirvæntingar um hvað gerist þá…eftir 6 ára tafir (ef miðað er við Kaupmannahafnarfloppið) – en enn meiri tafir ef litið er til lengri tíma og ef við rýnum í öll þau ár sem vísindin hafa verið ljós um orsakir og afleiðingar óheftrar losunar gróðurhúsalofttegunda útí andrúmsloftið. Það virðist jákvæð stemning fyrir fundinum í desember, en með fullri virðingu fyrir stemningunni, þá er eigi enn sopið kálið þó að í ausuna sé komið. Á meðan stemningin mallar fyrir loftslagsfundinn í París þá er á sama tíma, hér á landi, verið að leggja drög að miklum olíufundum á Drekasvæðinu – og það virðast því ekki allir vera búnir að tengja í þessum efnum og margir sjá fyrir sér olíugróða með betri tíð og blóm í haga, en ekki er allt sem sýnist í þeim efnum.
Árið 2014 var hlýjasta ár frá upphafi mælinga og árið í ár stefnir í að verða hlýrra (eins og staðan er í dag) og því verður árið í ár hugsanlega hlýjasta ár frá upphafi mælinga (og slá þar með met síðasta árs). Hafísinn hefur sjaldan verið minni á norðurslóðum, sem er einn af þáttunum sem fylgst er með varðandi breytingar í loftslagi. Það virðist vera orðin regla að hvert ár sem líður fer á listann yfir allavega 10 heitustu árin frá upphafi mælinga (það á við um öll 6 árin sem loftslagsvefurinn hefur verið í loftinu) og svo eru metin líka slegin inn á milli. Hafísmetið var t.d. slegið árið 2012, þar á undan var það met slegið árið 2007. Eftir 2007 metið, þá var talað um að hafísinn væri að jafna sig árin á eftir – jafnvel töldu einhverjir sig sjá vöxt hafíssins – en svo skall árið 2012 á með nýju meti. Eftir 2012 metið eru menn aftur farnir að tala um að hafísinn sé að jafna sig og/eða jafnvel vaxa…sem virðist enn og aftur vera óskhyggja sem ekki byggir á raunverulegum athugunum. Alveg sama hversu mörg met eru slegin varðandi hitastig á heimsvísu, þá virðast þeir alltaf vera til sem tala um að ekkert hafi hlýnað í X mörg ár eða jafnvel kólnað, með tilvísun í einhverjar misgáfulegar samsæriskenningar og/eða bara helbera afneitun. Afneitunin virðist þó á undanhaldi – sem er jákvætt og vonandi hverfur hún eins og dögg fyrir sólu í hlýnandi heimi. Það virðist þurfa róttækar ráðstafanir til að koma í veg fyrir alvarlegar afleiðingar hlýnunar jarðar og það er vonandi að Parísarfundurinn verði ekki enn eitt floppið í boði afneitunarinnar og misvitra stjórnmálamanna sem ekki sjá í gegnum lygavef afneitunarinnar. Og við höfum ekki einu sinni minnst á illa tvíbura hlýnunar Jarðar, sem er súrnun sjávar…en það eitt og sér ætti að fá allt hugsandi fólk til að gefa óheftri losun gróðurhúsalofttegunda mikin gaum og krefjast tafarlausra aðgerða.
Hvað sem líður afneitun, ákvarðanafælni og dugleysi ráðamanna í gegnum árin, þá fögnum við félagarnir áfanganum – 6 ár er engin aldur og margt á eftir að gerast á næstu árum og við hljótum að vonast til að upplifa alvöru ákvarðanir varðandi það hvernig ber að taka á loftslagsvandanum innan vonandi fárra ára – allavega ef meiningin er að gera eitthvað raunverulegt við vandanum (sem er ekki sjálfgefið ef horft er í baksýnisspegilinn). Við stöndum allavega vaktina áfram – takk fyrir okkur, við höldum okkar striki, enda næg verkefni fyrir höndum í framtíðinni.
Tengt efni á loftslag.is:
- 19. september – Opnun Loftslag.is – 55.000 dagar
- Mælingar staðfesta kenninguna
- Kenningin
- Lausnir og mótvægisaðgerðir
- Skörum fram úr – höfum þor
Leave a Reply