Hver er staðan á jöklum Suðurskautsins?

Í síðustu viku birtist grein í tímaritinu Journal of Glaciology um rannsókn á hraða bráðnunar á Suðurskautinu (Zwally o.fl. 2015). Niðurstaða þeirra þykir áhugaverð, en samkvæmt rannsókn þeirra þá virðast jöklar Suðurskautsins vera að aukast þ.e. massajafnvægið virðist jákvætt. Það þýðir að mikil bráðnun jökla á Vestur Suðurskautinu nær ekki að yfirskyggja þykktaraukningu jökla á Austur Suðurskautinu.

Þar kemur fram að samkvæmt greiningum á gervihnattagögnum ICESat þá hafi jöklar Suðurskautsins aukist um 112 gígatonn á ári frá árinu 1992 til 2001. Sú aukning minnkaði niður í 82 gígatonn á ári milli áranna 2003 og 2008.

Kort sem sýnir massabreytingar með gervihnettinum ICESat frá 2003-2008 á Suðurskautinu. Mynd: Jay Zwally o.fl./ Journal of Glaciology

Kort sem sýnir massabreytingar með gervihnettinum ICESat frá 2003-2008 á Suðurskautinu. Mynd: Jay Zwally o.fl./ Journal of Glaciology

 

Til samanburðar þá birtist grein frá því fyrr á árinu í tímaritinu Earth and Planetary Science Letters, þar sem notuð eru gögn frá Crace gervitunglinu (Harig og Simons 2015). Niðurstaða þeirra er sú að þegar massajafnvægi jökla Suðurskautsins væri skoðuð, kæmi í ljós að hún væri neikvæð um 92 gígatonn frá árinu 2003.

Massajafnvægi Suðurskautsins samkvæmt Harig og Simons 2015.

Massajafnvægi Suðurskautsins samkvæmt Harig og Simons 2015.

Hér virðist vera um  frekar ósamrýmanlegar niðurstöður að ræða, en ef rýnt er í gögnin þá greinir þeim ekki mikið á – þ.e. ef tekið er tillit til þess hvaða tímabil þessar rannsóknir spanna. Í Zwally o.fl. (2015) er ekki unnið úr gögnum lengra en til ársins 2008, en fyrir þann tíma þá mætti álykta að massajafnvægið væri einnig jákvætt samkvætt Harig og Simons (2015), þ.e. ef skoðuð er leitni gagnanna.

Þessi nýja grein Zwally o.fl. er því í raun ekki í mótsögn við fyrri rannsóknir, þó þeir notist ekki við nýjustu gögn um massajafnvægi Suðurskautsins – en fróðlegt væri að sjá þá vinna úr gögnum fram til dagsins í dag.  Eitt er víst að ekki er hægt að fullyrða út frá grein Zwally o.fl. að jökull Suðurskautsins sé að stækka núna, þó svo virðist vera að hann hafi verið að stækka fram til ársins 2008.

Heimildir og ítarefni

Zwally o.fl. 2015: Mass gains of the Antarctic ice sheet exceed losses

Harig og Simons 2015: Accelerated West Antarctic ice mass loss continues to outpace East Antarctic gains

 

Ágætis umjöllun má einnig lesa hér:  Antarctic ice – growing or shrinking? NASA vs Princeton and Leeds etc

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál