Hnattrænt hitafrávik á þessu ári gæti farið 1°C yfir meðalhitastig þess sem var fyrir iðnbyltingu, samkvæmt Met Office (bresku veðurstofunni). Það yrði langhæsti hiti sem mælst hefur frá upphafi mælinga og markar ákveðin tímamót í loftslagssögu jarðar, sem nú stýrist í grófum dráttum af losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum.
Árin 2015 og 2016
Ef skoðuð eru gögn frá janúar til september, þá sýna gögn frá HadCRUT að hitafrávik það sem af er þessa árs er um 1,02 °C (±0.11 °C) ofan við hitastig fyrir iðnbyltingu.
Eins og við fyrri hitamet jarðar er það El Nino sem keyrir hitastigið upp, ofan á hinni undirliggjandi hnattrænu hlýnun af mannavöldum. Þróunin minnir um margt á undanfara metársins 1998, en það ár var um skeið lang heitasta árið frá upphafi mælinga eða fram til 2005. Árin 2012 og 2014 hafa samkvæmt flestum mælingum verið heitari og það án sterkra áhrifa El Nino. Ef þróunin heldur fram sem horfir, þá verður 2015 heitasta árið frá upphafi mælinga – en þar með er ekki öll sagan sögð, því áhrifa El Nino gæti gætt meira árið 2016 og það því slegið það met sem 2015 slær eða að minnsta kosti verið nálægt því.
Þó svo fari að árin 2015 og 2016 verði þau heitustu frá upphafi, þá er búist við því að ofanáliggjandi náttúrulegar sveiflur haldi áfram að hafa áhrif á hnattrænan hita og því mun hlýnunin ekki halda stanslaust áfram á næstu árum – þó undirliggjandi hnattræn hlýnun haldi áfram.
Áhrifin seinvirk
Hitastigið eftir þetta ár, verður þá langt komið með að vera hálfnað upp í tveggja gráðu markið (2°C) sem er það hitastig sem oft er notað núorðið í alþjóðasamskiptum sem mörk ásættanlegrar hækkunar hitastigs. Þótt flestir telji það ásættanlegt, þá eru ýmsir sem telja þá hækkun hitastigs óásættanlega m.a. vegna hækkunar sjávarstöðu, auk þess sem hliðarafurð losunar CO2 út í andrúmsloftið, súrnun sjávar, getur verið orðið vandamál fyrr.
Magn heildarlosunar á CO2 út í andrúmsloftsins verður lykillinn að því hversu mikil hin hnattræna hlýnun af mannavöldum verður. Það er talið að ef losað verði að mesta lagi 2.900 gígatonnum af CO2 út í andrúmsloftið, þá muni vera yfir 66% líkur á því að hægt verði að takmarka hlýnunina við 2°C. Í lok árs 2014 var búið að losa yfir 2.000 gígatonnum af CO2, sem þýðir að mannkynið hefur lítið borð fyrir báru og að nú þegar sé töluverð hlýnun í viðbót í kortunum. Þó það taki langan tíma fyrir jörðina að hitna, þá tekur enn lengri tíma fyrir sjávarstöðu að ná jafnvægi miðað við ákveðið hitastig þ.e. jafnvægi þarf að komast á vegna þenslu sjávar vegna aukins sjávarhita og vegna bráðnunar jökla.
Það er því þannig að um 2/3 hefur verið losað af því CO2 sem mun mögulega valda um 2°C hækkun eftir iðnbyltingu og á sama tíma hefur hitastigið aukist um helming af því – en á sama tíma hefur sjávarstaða eingöngu hækkað um 20 sm frá því fyrir iðnbyltingu eða 1/3 af því sem talið er að geti orðið ef hitastigið nær stöðugu 2°C hitafráviki um aldamótin 2100.
Er mögulegt að koma í veg fyrir að hitinn fari yfir 2°C markið?
Rannsóknir benda til að enn sé hægt hægt að koma í veg fyrir að hitinn fari yfir 2°C markið, hins vegar er það svo að því seinna sem dregið verður úr losun, því hraðar verður mannkynið að draga úr losun til að svo verði.
Heimildir og ítarefni
Global temperatures set to reach 1 °C marker for first time
Tengt efni á loftslag.is
- Hraðari hnattræn hlýnun og samsæriskenningar
- Hulin hlýnun
- Hvað er El Nino?
- Súrnun sjávar
- 2014 var hlýjasta ár í sögu mælinga og hnatthitaspámeistari ársins
Leave a Reply