Stóra málið sem liggur fyrir COP21 loftslagsráðstefnunni í París er að ríki heims vilja reyna að ná samkomulagi um að taka á loftslagsvandanum og reyna að halda hlýnun jarðar innan 2°C markinu. Það virðist þó vera eitt stórt atriði varðandi það sem gæti hugsanlega valdið töluverðum vanda við lausnina, en það er einfaldlega þegar allir þættir eru lagðir saman, þá virðist sem dæmið gangi ekki alveg upp.
Eins metnaðarfullt og COP21 ráðstefnan er, þá eru ákveðnir þættir sem vinna á móti og gera verkefnið flóknara. T.d. er tímaþátturinn erfiður og flækjustig verksins sem framundan er líka flókið. Sumir vísindamenn og sérfræðingar telja að 2°C markmiðið sé nú þegar utan seilingar vegna þess að biðin sé nú þegar orðin of löng og of lítið hafi verið gert hingað til. Verkefnið sé þannig vaxið að erfitt sé að ná markmiðinu án þess að það hafi mikil áhrif á efnahag heimsins eða að sumar forsendur fyrir árangri séu tækni sem ekki sé enn búið að finna upp.
Kevin Anderson, aðstoðarframkvæmdastjóri Tyndal Center for Climate Research í háskólanum í Manchester (hann kom nýlega til Íslands og hélt fyrirlestur) hefur m.a. hrært upp í umræðunni um 2°C markið nýlega þar sem hann sakar starfsfélaga sína á sviði loftslagsrannsókna um að velja að ritskoða eigin rannsóknir. Anderson gerir sérstaklega athugasemdir við að mörg módel treysti á “neikvæða losun” með ókominni tækni sem á að fjarlægja koltvísýring úr loftinu. Þessi tækni, tiltekur hann að sé enn aðeins huglæg og ekki í hendi. Aðrir hafa einnig tekið undir með Anderson og telja að tíminn til að ná 2°C markinu sé hugsanlega nú þegar runninn úr greipum okkar.
Markmiðin eru einnig hlaðin óvissu, t.d. varðandi það hversu mikil kolefnislosun sé í raun örugg og hvernig aðrir ófyrirséðir þættir geti haft áhrif á útkomuna (hversu viðkvæmt er loftslagið?). 2°C markið er mögulega ekki öruggt til að byrja með, kannski þyrfti í raun að setja markið enn neðar (sem myndi gera verkefnið enn flóknara).
Á myndinni hér að ofan má sjá að árið 2014 voru losuð um 52,7 gígatonn af gróðurhúsalofttegundum – mælt í svokölluð CO2 jafngildseiningum (CO2 equivalents). Miðað við núverandi þróun í losun gróðurhúsaslofttegunda þá stefnum við um eða yfir 4°C hækkun (þó nokkur óvissa) á hitastigi jarðar (miðað við 1880). Miðað við útgefin vilyrði þjóða heims um losun á næstu árum og áratugum (fram til 2030) þá erum við enn yfir markinu. Bláa línan sýnir svo mögulega þróun í losun gróðurhúsalofttegunda til að halda okkur innan 2°C markinu (það er töluvert gap á milli hennar og núverandi vilyrða þjóða heims). Það er fátt sem bendir til þess á núverandi tímapunkti að síðasta leiðin verði valin í París. Að sjálfsögðu er hægt að skerpa á markmiðunum í framtíðinni og reyna að draga enn meira úr losun þegar fram líða stundir. Tíminn virðist ekki ætla að vinna með okkur í þessu risavaxna verkefni, en það verður þó fróðlegt að fylgjast með árangrinum á COP21 í París og að sjá fram á hvaða væntingar verður hægt að hafa til þess sem þar gerist fyrir framtíðina – þeim mun afgerandi skref sem eru tekin þar, því minna flækjustig í framtíðinni.
Heimildir og ýtarefni:
Þessi færsla byggist lauslega á eftirfarandi grein af vef The Washington Post:
- The magic number eftir Chris Mooney – sem við getum mælt með að lesendur okkar glöggvi sig á, enda enn ýtarlegri en hér.
Tengt efni á loftslag.is:
- Hnattrænt hitafrávik gæti farið yfir 1°C markið í ár
- COP21
- Hulin hlýnun
- COP15: Kaupmannahafnaryfirlýsingin
Leave a Reply