Hitinn í hæstu hæðum

Þeir sem fylgjast með breytingum á loftslagi vita að árið 2014 var það heitasta frá upphafi mælinga og að árið 2015 sló það met all rækilega. Nýjustu fréttir af hitastiginu það sem af er árinu 2016 eru sláandi.

Janúar 2016 var sá heitasti frá upphafi mælinga samkvæmt gögnum frá NASA, eða 1,14°C yfir meðalhitastigi áranna 1951-180. Það var þó aðeins forsmekkurinn af því sem febrúar bauð okkur upp á.

Febrúar 2016 var með mesta hitafrávik allra mánaða frá upphafi mælinga eða 1,35°C yfir meðalhita 1951-1980.

Hnattrænn hiti til febrúar 2016

Mánaðargildi hnattræns hitafráviks samkvæmt NASA frá árinu 1880 til febrúar 2016. Sýnt sem frávik frá meðalhitastigi áranna 1951-1980. Rauða línan sýnir 12 mánaða hlaupandi meðaltal.
Mynd: Stephan Okhuijsen, datagraver.com.

Vissulega er El Nino í gangi í Kyrrahafinu og er hann megin ástæða þess að met eru að falla núna. Sveiflur á milli El Nino (heitt) og La Nina (kalt) í kyrrahafinu eru almennt stærstu sveiflurnar sem hafa áhrif ofan á hina undirliggjandi hlýnun af völdum gróðurhúsalofttegunda. Þessi El Nino sem er nú í gangi er svipað öflugur og sá sem sló öll met árið 1998. Sá toppur er ekki eins merkilegur að sjá núna og fyrir nokkrum árum sem sýnir hversu mikil hin undirliggjandi hnattræna hlýnun er í raun og veru.

Hin undirliggjandi hlýnun sést hvað best ef skoðuð er leitni gagnanna.

Leitni hnattræns hitafráviks samkvæmt NASA. Mynd Tamino - tamino.wordpress.com.

Leitni hnattræns hitafráviks samkvæmt NASA. Mynd Tamino – tamino.wordpress.com.

Eins og sést vel þá eru miklar sveiflur, en ef eingöngu væru sveiflur en ekki undirliggjandi hnattræn hlýnun, þá myndu metin ekki falla svona ár eftir ár, jafnvel þó El Nino væri í gangi.

Einhverjir vilja reyndar mæla hitastigið í neðri lögum lofthjúpsins með gervihnattamælingum, en jafnvel gervihnattamælingar sýna hnattrænt hitastig í hæstu hæðum:

Hnattrænt hitafrávik samkvæmt RSS. Mynd Tamino – tamino.wordpress.com.

Hnattrænt hitafrávik samkvæmt RSS. Mynd Tamino – tamino.wordpress.com.

Ef einhver telur að það sé búið að vera óvenjulega kalt hér á landi miðað við þessi miklu met, þá er ástæða fyrir því. Þótt vissulega sé ekki jafn kalt og var í köldum árum tuttugustu aldar, þá er enn kuldafrávik í kringum landið og þá sérstaklega suður af landinu. Miðað við heita loftið sem er um mest allt norðurhvel jarðar, þá verður að teljast líklegt að hér hitni aftur á næstu misserum, þó ómögulegt sé að spá fyrir um það.

Yfirborðsgildi hnattræns hitafráviks fyrir febrúar 2016 samkvæmt NASA sýnt sem frávik frá meðalhitastigi áranna 1951-1980. Mynd: NASA/GISS

Yfirborðsgildi hnattræns hitafráviks fyrir febrúar 2016 samkvæmt NASA sýnt sem frávik frá meðalhitastigi áranna 1951-1980. Mynd: NASA/GISS

Eins og sést þá var Norðurskautssvæðið óvenju heitt í febrúar. Það endurspeglast nokkuð vel í hafísútbreiðslu fyrir febrúar:

Hafísútbreiðsla noðurskautsins í febrúar 2016 samanborið við fyrri ár. Mynd NSIDC.org

Hafísútbreiðsla noðurskautsins í febrúar 2016 samanborið við fyrri ár. Mynd NSIDC.org

Við endum á góðu myndbandi eftir Peter Sinclair þar sem fjallað er um muninn á mælingum á hnattrænu hitastigi:

 

Heimildir og ítarefni

GISS Surface Temperature Analysis

February Smashes Earth’s All-Time Global Heat Record by a Jaw-Dropping Margin

Record-breaking heat AGAIN

February continues streak of record low Arctic sea ice extent

February breaks global temperature records by ‘shocking’ amount

Tengt efni á loftslag.is

Hraðari hnattræn hlýnun og samsæriskenningar

2015 var heitt

Hafísinn ekki að jafna sig

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál