Allir upp á dekk – #kosningar2016

Þessi pistill er skrifaður í tilefni kosninga og sem hluti af því sem er að gerast í París 1,5 hópnum. París 1,5 er baráttuhópur um að Ísland geri sitt til að stöðva hlýnun jarðar við 1,5°C, m.a. með því að koma loftslagsmálunum að í komandi kosningum. Það munu koma fleiri pistlar á loftlsagsvefinn sem varða París 1,5 og baráttuna fyrir því að taka á loftslagsvandanum í framtíðinni. Á loftslagsvefnum er undirsíða sem nefnist París 1,5 þar sem pistlar sem tengjast hópnum eða tengdum málefnum verða birtir.

Það virðast ekki miklir möguleikar á því að loftslagsvandinn leysist af sjálfu sér. Þátttaka og átak almennings og stjórnvalda verður að koma til. Stjórnvöld geta t.d. haft áhrif á kauphegðun almennings með stjórnvaldsaðgerðum og almenningur getur haft áhrif á stjórnvöld með persónulegum aðgerðum t.d. með því að taka þátt í umræðu um vandann og ýta við aðgerðum á öllum sviðum. Stjórnvöld eru einskonar snið af almenningi hvers tíma og almenningsáliti (sem vissulega má hafa áhrif á) og því munu þau leggja áherslu á þau mál sem er almenningi ofarlega í huga (allavega í teóríunni). Stjórnmálamenn tala með þeim hætti að lofa því sem almenningur virðist vilja heyra á hverjum tíma (það er svo annað mál með efndir). Til að eitthvað gerist tel ég að það þurfi að hafa áhrif á stjórnmálamenn og aðra áhrifamenn – en hvernig er best að ná eyrum stjórnmálamanna og hafa áhrif á stefnu og getu þeirra til að framfylgja ákveðnum málum?

climate-changeÞað er augljóst hverjum sem vill sjá að það eru litlar sem engar alvöru aðgerðir stjórnvalda hér á landi (og þó víðar væri leitað) gegn loftslagsvandanum. Þrátt fyrir fagurt orðskrúð á tyllidögum þá eru aðgerðir nánast ósýnilegar og í þeim fáu tilfellum þar sem eitthvað er gert er það of lítið og of seint og virðist bara vera til að sýnast út á við. En það eru kannski til ráð til að ýta umræðu og almenningsáliti í rétta átt? Sem einstaklingar höfum við þá möguleika að segja skoðun okkar opinberlega, m.a. í ræðu og riti. Ef það eru nógu margir sem að skrifa bréf (já það er gamaldags), senda tölvupósta, standa upp og segja skoðun sína, taka upp símann og ræða við þá sem eru í framboði ásamt því að skrifa pistla í blöð og tímarit um loftslagsvandann þá hef ég þá trú að það muni virka. Segjum eins og rétt er, að það sé ekki of seint að taka á vandanum enn þá og þá verður hlustað (það gæti orðið of seint síðar). Þetta mun væntanlega á endanum verða þannig að flestir verða meðvitaðir um að það er ekki nóg að viðurkenna vandann, heldur þarf líka að taka á honum af alvöru og með því að lýsa því yfir við t.d. stjórnvöld, þar á meðal stjórnmálamenn og aðra sem geta haft áhrif – þannig höfum við áhrif og getum jafnvel flýtt fyrir málum.

Sem sagt – látum í okkur heyra og þá munum við hafa áhrif. Skrifum pistla í blöð og tímarit. Sendum tölvupósta, bréf og hringjum í frambjóðendur flokka og spyrjum þá útí skoðanir þeirra á loftslagsvandanum – mætum á framboðsfundi og spyrjum spurninga. Kjósum ekki þá sem að telja þetta ekki vandamál – kjósum þá sem vilja setja málið á oddinn, sama hvar í flokki fólk stendur. Ef “þinn flokkur” býður ekki uppá einstaklinga sem að hafa vilja til að taka á vandanum, færðu þá atkvæði þitt annað – en það má líka byrja á því að ýta sínu fólki í rétta átt fyrst og vonast eftir breytingum og hafa þannig áhrif á grasrótina. Öll framboð byrja með fólki með skoðanir og það má hafa áhrif á fólk með málefnalegri umræðu og staðreyndum. Allar stjórnmálastefnur þurfa að koma að málinu með sínar nálganir. Það er ekki hægt að taka þá afstöðu miðað við þær upplýsingar sem liggja frami að vandinn sé ekki til staðar af því að einhverjum líkar ekki við lausnir þær sem eru lagðar fram. Ef einhverjum líkar ekki lausnirnar þá er bara um að gera að setja fram lausnir sem viðkomandi hugnast og samræmast lífsviðhorfum og/eða pólitískum skoðunum viðkomandi – afneitun er ekki rétta svarið, enda erum við öll á sama báti þegar að því kemur að taka á vandanum.

Við fólkið erum grasrótin – látum í okkur heyra og hópumst upp á dekk til að hafa áhrif á að móta framtíðina, það er ekki of seint!

#kosningar2016

Athugasemdir

ummæli

About Sveinn Atli

Sveinn Atli: Fjölskyldumaður og áhugamaður um loftslagsmál.