ATH. Þetta er gamla matið – hið nýja má finna hér.
Hópurinn París 1,5 hefur gert úttekt á loftslagsstefnu stjórnmálaflokka fyrir kosningarnar þann 29. október 2016. Hér verður fyrst rakin aðferðafræðin, þ.e. farið yfir þá þætti sem voru notaðir við loftslagsrýni flokkanna, fjalla um einkunnagjöfina og það hvernig við völdum stjórnmálaflokkana sem eru í úttektinni. Neðst er svo niðurstaða þessa mats og umræða.
Aðferðafræðin
Til að stjórnmálaflokkur kæmi til greina í þessari rýni þá völdum við að taka þá sjö flokka sem hafa mestan möguleika (samkvæmt skoðanakönnunum) að ná manni á þing. Loftslagsstefnur eftirfarandi flokkar voru rýndar (í stafrófsröð):
Til að gefa flokkunum einkunn þá notuðum við kerfi þar sem við mátum sjö mismunandi þætti og gáfum þeim einkunn á bilinu 0-10, en misjafnt vægi er á milli þátta. Fjórir þættir fá einfalt vægi (mest 10 stig hver þáttur) og þrír þættir fá tvöfalt vægi (mest 20 stig hver þáttur) – í allt 100 stig mest. Einn þátturinn er á bilinu mínus 10 til plús 10, þannig að flokkar geta fengið mínus stig þar (mest 20, þar sem þetta er þáttur með tvöfalt vægi). Nánar er fjallað um hvern þátt hér á eftir.
Reynt var að finna stefnur flokkanna í loftslagsmálum á vefsíðum þeirra, ef ekkert kom þar fram þá var ekki gert ráð fyrir að til væri opinber stefna um þann þátt hjá þeim stjórnmálaflokki í kosningunum 2016. Við sendum að auki öllum sjö flokkunum tölvupóst þar sem við spurðumst nánar fyrir um þessa þætti – sumir svöruðu, aðrir ekki. Stundum var hægt að finna í stefnum flokkanna eitthvað sértækt þar sem rætt var um loftslagsmál, en stundum þurfti að grafa dýpra til að finna eitthvað fjallað um málin – beint eða óbeint. Við lögðum svo okkar mat á hvern þátt og hvað kom fram hjá hverjum flokki og gáfum einkunnir – sem endaði svo í þeirri einkunn sem hver flokkur fékk varðandi loftslagsmálin.
Þættirnir sjö eru eftirfarandi:
- Er flokkurinn með eða á móti olíuvinnslu á Drekasvæðinu.
- Hér var hægt að fá mínusstig, þar sem þeir flokkar sem taka einarða stefnu með olíuvinnslu fá mínus stig – þeir sem ekkert nefna um málið fá 0 og þeir sem taka einarða afstöðu gegn olíuvinnslu fá plús .
- Tvöfalt vægi – mest 20 stig og lægst mínus 20 stig
- Eru tölu- og/eða tímasett markmið varðandi samdrátt í losun CO2
- Því nánari markmið, því betra
- Tvöfalt vægi – mest 20 stig
- Er gert ráð fyrir kolefnisgjaldi eða hagrænum hvötum á losun gróðurhúsalofttegunda
- Tvöfalt vægi – mest 20 stig
- Tillögur um breytingu innviða til að taka á vandanum
- Til að mynda er hér verið að skoða tillögur til að flýta rafbílavæðingu og öðrum breytingum innviða til að taka fyrr á vandanum
- Einfalt vægi – mest 10 stig
- Tillögur varðandi endurheimt votlendis og skógrækt
- Almennar tillögur varðandi þessa þætti
- Einfalt vægi – mest 10 stig
- Flokkur og/eða frambjóðendur hafa tekið málið upp í aðdraganda kosninga
- Ef einhverjir frambjóðendur eða flokkar hafa sett þetta mál á oddinn með því að fjalla um það á opinberum vettvangi
- Einfalt vægi – mest 10 stig
- Annað almennt um loftslagsmál
- Skoðuðum aðra þætti sem flokkarnir töldu vert að nefna varðandi loftslagsmálin og reyndum að meta það á hlutlægan hátt – þarna gátu flokkarnir skorað aukastig
- Einfalt vægi – mest 10 stig
Niðurstaða
Loftslagsstefnur flokkanna voru rýndar og einkunnir gefnar samkvæmt fyrrgreindum forsendum. Eftirfarandi eru tenglar á úttekt hvers flokks fyrir sig, ásamt einkunnum (innan sviga):
- Björt Framtíð (6,0)
- Framsókn (0,4)
- Píratar (4,2)
- Samfylkingin (5,4)
- Sjálfstæðisflokkurinn (0,7)
- Viðreisn (4,1)
- Vinstri Græn (6,4)
Þrír flokkar standast prófið eins og staðan er í dag, en lítið vantar upp á hjá Pírötum og Viðreisn. Þess ber þó að geta að í kosningakerfi Pírata er mjög metnaðarfull stefna sem getur breytt þessari mynd nokkuð. Ef sú stefna verður samþykkt, þá er mjög líklegt að þeir taki forystu í þessu mati.
Við munum uppfæra einkunnir u.þ.b. viku fyrir kosningar. Þannig opnum við fyrir að flokkarnir geti hækkað sig með því að setja málið á dagskrá, enda okkar aðalmarkmið að loftslagsmálin verði tekin á dagskrá í kosningunum. Við fögnum allri umræðu og málefnalegri gagnrýni.
Umræður
Við í París 1,5 hópnum viljum gjarnan hvetja stjórnmálaflokka og frambjóðendur til að taka þetta mikilvæga mál á dagskrá. Einkunnakerfið hér að ofan er tilraun til að meta stefnur flokkanna.
Við erum opin fyrir gagnrýni og flokkar og frambjóðendur mega gjarnan benda á efni sem þeir telja að geti lyft einkunn þeirra upp. Við stefnum á að endurskoða einkunnir þegar vika er í kosningar, þ.e. ef einhverjar breytingar eru sjáanlegar.
Við viljum að allir flokkarnir geri betur og að þessi mál verði á dagskrá fyrir kosningarnar 2016 – ekki bara sem örfá atriði í stefnuyfirlýsingum, heldur sem eitt af aðalatriðum hjá öllum flokkunum og ekki síst fjölmiðlum sem spyrja spurninganna. Ef við göngum ekki vel til verks í þessum efnum, þá skipta öll hin málin miklu minna máli – því við erum hluti af borgurum jarðarinnar og við þurfum öll að gera okkar til að minnka kolefnisfótspor af mannavöldum, því fyrr sem við byrjum þá mikilvægu vinnu, því betra.
—–
Vegna athugasemda frá þeim flokkum sem ekki fengu mat á sinni stefnu og þeirra sem telja á sig hallað:
Aðstandendur geta sent okkur tölvupóst á loftslag@loftslag.is með tilvísunum í hvar viðkomandi lið (1-7) er að finna, þannig að við getum afritað það og metið á einfaldan hátt – hvort heldur til viðbóta eða uppfærslu á stefnunni. Stefnt er að því að uppfæra matið viku fyrir kosningar.
Hvers vegna í ósköpunum eru ekki allir flokkar með í þessari könnun? Nú er ekki hægt að nota þá röksemd að það sé ekki pláss í pallborði eða ræðutími sé takmarkaður. Þetta gertir könnunina algerlega ómarktæka. Henni er varla ætlað að ákveða hvaða flokkum sé hægt að taka mark á. Alþýðufylkingin hefur nýlega gefið út ítarlega kosningastefnuskrá unir heitinu “Fjögurra ára áætlun Alþýðufylkingarinnar”. Þar er talsvert fjallað um þessi má. Líklega trúverðugra en frá öðrum flokkum.
Eins og stendur í færslunni:
Vegna athugasemda frá þeim flokkum sem ekki fengu mat á sinni stefnu og þeirra sem telja á sig hallað:
Aðstandendur geta sent okkur tölvupóst á loftslag@loftslag.is með tilvísunum í hvar viðkomandi lið (1-7) er að finna, þannig að við getum afritað það og metið á einfaldan hátt – hvort heldur til viðbóta eða uppfærslu á stefnunni. Stefnt er að því að uppfæra matið viku fyrir kosningar.