Stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar er opinber og tók ný ríkisstjórn við völdum í dag (11. janúar 2017). Almennt eru stjórnarsáttmálar ekki mjög ítarleg plögg, en þar er þó reynt að setja fram hvaða áherslur ný ríkisstjórn vill taka á nýju kjörtímabili (jafnvel til lengri tíma). Stundum eru tiltekin tímamarkmið og stundum kemur slíkt ekki fram. Það má þó ætla að í flestum tilfellum hljóti markmiðin að eiga við um kjörtímabilið, þó slíkt komi ekki beinlínis fram.
Hér verður farið yfir nokkra punkta úr stjórnarsáttmálanum sem snúa að loftslagsmálunum, við tökum þetta út frá einstökum atriðum úr sáttmálanum sem okkur hjá París 1,5 finnst skipta máli og rýnum þau. Nálgast má allan stjórnarsáttmálann hér. Þetta er gert með þeim fyrirvara að þetta er (eins og margir fyrri stjórnarsáttmálar) nokkuð óljóst plagg, almennt orðað og með pólitísku orðalagi og erfitt er að sjá hvernig og af hverjum á að efna orðalag sáttmálans.
Fjölbreytni í atvinnulífinu verður aukin með fjárfestingu eða annars konar hvatningu í skapandi greinum, grænum iðnaði, svo sem umhverfisvænni tækniþróun og framleiðslu, hugverka- og þekkingariðnaði og aukinni rannsóknar- og þróunarstarfsemi.
Það er jákvætt að það skuli eiga að leggja áherslu á fjárfestingu (eða annars konar hvatningu?) í þessum efnum. Allt sem þarna er nefnt getur haft áhrif á og verið hluti af lausn loftslagsvandans. Það er mikilvægt að auka fjárfestingu í lausnum til framtíðar og ber að fagna því að auknu fé sé varið í þessa hlið málsins, þó vissulega eigi eftir að ganga frá smáatriðunum sem skipta miklu máli varðandi framkvæmdina.
Koma þarf á samræmdu kerfi grænna skatta sem fela í sér eðlilegar álögur á mengandi starfsemi og skapa jafnframt hvata til samdráttar í losun og til annarra mótvægisaðgerða. Í því skyni verður áfram unnið að útfærslu skatta á ökutæki og eldsneyti.
Hagrænir hvatar geta “stýrt” neytendum, en einnig atvinnustarfsemi, í átt að umhverfisvænni lausnum. Þannig að vel útfærðar breytingar geta haft áhrif í rétta átt og er von okkar að stefnan verði tekin út frá því sjónarhorni að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins (sjá neðar).
Hreinn landbúnaður, þegar litið er til afurða og umhverfis, og minni kolefnislosun verður ásamt framangreindum þáttum leiðarljósið í landbúnaðarstefnu stjórnvalda.
Minni kolefnislosun þarf vissulega að vera hluti af allri stefnumótun stjórnvalda og er því spurning hvernig beri að túlka það að landbúnaður sé sérstaklega nefndur í þessum efnum. En við verðum að vona að öll stefnumótum stjórnvalda í loftslagsmálum verði í samræmi við Parísarsamkomulagið eins og stjórnvöld stefna að í nýrri aðgerðaáætlun (sjá neðar), þannig að minni kolefnislosun í allri stefnumótun verði höfð að leiðarljósi, ekki bara landbúnaðarstefnan.
Gerð verður aðgerðaáætlun í loftslagsmálum í samræmi við Parísarsamkomulagið. Áætlunin feli meðal annars í sér græna hvata, skógrækt, landgræðslu og orkuskipti í samgöngum. Unnið verður að eflingu græna hagkerfisins.
Eftirfarandi setning er mjög mikilvæg, “Gerð verður aðgerðaáætlun í loftslagsmálum í samræmi við Parísarsamkomulagið”. Ef stjórnvöldum tekst í raun að gera aðgerðaáætlun í loftslagsmálum í samræmi við Parísarsamkomulagið þá er stigið stórt skref fram á við, þó mörgu sé ósvarað varðandi aðferðafræðina. Þar sem ekki eru nefnd tölu- eða tímasett markmið, þá verður að gera ráð fyrir að ríkisstjórnin ætli að fylgja stefnu annarra Evrópulanda um að minnka losun um allt að 40% fyrir 2040 – það er þó ekki ljóst út frá sáttmálanum. Það er ekki komið inn á nánari aðgerðir, en þó minnst á notkun grænna hvata, skógrækt, landgræðslu og orkuskipti – allt mikilvægir þættir. Hagkerfið í heild þarf að taka mið af því að standa þurfi við viðmið Parísarsamkomulagsins, en það þarfnast margra samhentra handa í ríkisstjórn.
Niðurlag
Út frá Loftslagsrýni flokkanna sem við gerðum fyrir kosningarnar þá eru nokkrir punktar sem rétt er að ræða hér í niðurlaginu.
- Ekki er minnst á olíuvinnslu á Drekasvæðinu í stjórnarsáttmálanum, sem í okkar huga telst framför frá stjórnarsáttmála fyrri ríkisstjórnar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, en þar var nefnt að stuðla ætti að nýtingu olíu.
- Eins og áður sagði, þá vantar tíma- eða tölusett markmið. Ef það tekst hins vegar að gera aðgerðaáætlun til samræmis við Parísarsamkomulagið innan kjörtímabilsins, þá erum við á réttri leið. Það ætti reyndar ekki að vera valkvætt markmið á leið Íslands til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda.
- Hagrænir hvatar virðast vera til staðar og verðum við að bíða eftir því hvað kemur út úr því á kjörtímabilinu, en ef það er alvara með aðgerðaáætlunina þá verða hagrænu hvatarnir að fylgja. Með því að stefna að orkuskiptum (vissulega ekki sterkt orðalag) þá hlýtur að fylgja því breyting innviða til að styðja við þau markmið, en það er kannski of sterk túlkun hjá okkur. Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum á samkvæmt sáttmálanum að innihalda græna hvata, m.a. með skógrækt og landgræðslu. Þetta er nokkuð vítt orðað og sem dæmi er ekki minnst á endurheimt votlendis, sem þó er jákvætt og jafnvel mikilvægt púsl til mótvægis við losun gróðurhúsalofttegunda. Vonandi kemur fljótlega fram hvað átt er við.
Það má vissulega orða hlutina mun betur, en það verður að hafa í huga að þetta er stjórnarsáttmáli upp á eingöngu 8 blaðsíður. Við verðum að vonast til að þessi mál verði tekin styrkum höndum, sérstaklega þar sem Parísarsamkomulagið á að verða grunnsteinn aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum. Það segir okkur í raun að stjórnvöld ætli sér að vera þátttakendur í því að halda hlýnun innan 2°C (jafnvel 1,5°C) og hafa valið að orða það sérstaklega í sáttmála sínum. Því ber að fagna. Stefnumörkun í öllum málum verður að miða að því að halda hlýnun innan 2°C, en það setur þeim vissar skorður í ákvarðanatöku, en er nauðsynlegt ef það er í raun og veru áhugi á málinu.
Nú þarf að sjá hvernig stjórnmálamenn vilja taka á þessum málum og hvort að þeir, hver fyrir sig, taki málin upp á næsta kjörtímabili. Það er brýnt að þessi mál séu í alvöru sett á oddinn og viljum við sjá stjórnmálamenn úr öllum flokkum sameinast um að taka á þessum vanda út frá öllum hliðum og vonumst til að sjá jákvæðar breytingar á kjörtímabilinu. Það þarf fljótlega að koma fram hvað felst í aðgerðaáætlun um loftslagsmál, s.s. hvað á að gera, hvenær og hversu mikið á að draga úr losun – þetta eru m.a. þau grundvallaratriði sem þurfa að koma fram. Við í París 1,5 munum fylgjast vel með framvindu mála og halda stjórnvöldum við efnið.
Leave a Reply