Ekki eru allir sem treysta vísindamönnum til að fræða okkur um loftslagsmálin og hver staða okkar er. Þeir eru sumir hverjir í afneitun, vísvitandi eða ómeðvitað. Hér fyrir neðan má sjá myndband sem útskýrir fimm dæmigerð einkenni loftslagsvísindaafneitunnar (og vísindaafneitunar yfir höfuð):
Gervisérfræðingar (e.Fake experts) – loftslagsafneitarar eru duglegir að vísa í svokallaða gervisérfræðinga. Margir eru til kallaðir, sumir á jaðrinum að flokkast sem loftslagsvísindamenn en sumir bara alls ekki. Sem dæmi má nefna dr. Tim Ball. Hann var upphaflega “vísindamaður” sígarettuiðnaðarins en hefur undanfarna áratugi sérhæft sig í að vera sérfræðingur loftslagsafneitunariðnarins.
Rökvillur (e. Logical fallacies) – Fjölmörg dæmi má nefna. Eitt sem stundum er notað, er að af því að hlutfall CO2 í andrúmsloftinu er lítið (mælt í ppm – part per million), þá hafi það lítil áhrif á loftslag. Það er auðvitað fjarri lagi, enda er það styrkaukningin en ekki magnið sem veldur hlýnuninni.
Ómögulegar væntingar (e. Impossible expectations) – Að hamra á óvissunni, þ.e. að af því að vísindamenn vita ekki nákvæmlega 100% allt um loftslagsbreytingar, þá þurfi ekki að gera neitt í vandanum – allavega ekki fyrr en menn vita þetta 100% (sem verður aldrei).
Sérvalin gögn (e. Cherry picking) – Þetta er líklega algengasta afneitunin núna, þ.e. menn velja sér gögn sem henta hverju sinni. Einn daginn er hafísinn búinn að vaxa í viku, það er því að kólna. Heitt er í neðri lögum lofthjúpsins miðað við sama dag fyrir ári síðan, því er að kólna. Hér skiptir leitni og önnur gögn ekki máli, nema þá sjaldan það styðji afneitunina á einn eða annan hátt (en svo viku síðar er ekkert að marka þau gögn).
Samsæriskenningar (e. Conspiracy Theories) – Nú auðvitað eru vísindamenn bara allir (þ.e. þessi 97% sem eru sammála um að jörðin sé að hlýna af mannavöldum) í einhverju samkrulli með að falsa gögn. Mörg þúsund vísindamenn í öllum löndum jarðarinnar eru semsagt svo skipulagðir og samstíga að þeir ná að falsa gögn til að plata almenning.
Tengt efni á loftslag.is
- COP21 og grasrót vafans
- Áhrifaþættir hinnar hnattrænu hlýnunar
- Mýtublöðrur sprengdar
- Mótsagnarkennt eðli röksemda “efasemdamanna” um hnattræna hlýnun
Leave a Reply