Jöklar Íslands blandast oft inn í umræðu um loftslagsbreytingar hér á landi, enda eru jöklar taldir góðir vísar um breytingar á loftslagi. Þó er ekki alltaf allt sem sýnist í þeim málum.
Hvað bræddi jöklana á Vestfjörðum?
Stundum birtast fullyrðingar um að fyrst loftslag hafi breyst áður, þá sé ólíklegt að losun CO2 af mannavöldum hafi eitthvað með núverandi loftslagsbreytingar að gera. Ekki er alltaf farið djúpt í vísindin, en stundum hljómar það trúverðugt, þó ekki sé það alltaf raunin ef það er skoðað ofan í kjölinn. Lítum á nýlegt dæmi:
Ef við sleppum því að sannreyna hvort rétt sé farið með, þá má segja að hlýnun loftslags á fyrri helmingi tuttugustu aldarinnar hafi verið vegna samspils aukinnar sólvirkni, minni eldvirkni og aukningar á CO2 af mannavöldum. Ef undanskilið er CO2 af mannavöldum, þá hafa hinir þættirnir spilað litla rullu eftir miðja síðustu öld. Sólvirkni hefur verið nokkuð stöðug á þeim tíma og eldvirkni jókst sem hefur kælandi áhrif á Jörðina – á sama tíma og Jörðin hefur hlýnað mjög mikið af völdum aukningar CO2 af mannavöldum.
Breytingar í jöklum Íslands fyrri alda voru að miklu leyti af náttúrulegum völdum öfugt við nú. Ef skoðaðir eru hvaða þættir hafa helst áhrif á loftslag nú, þá kemur í ljós að helstu áhrifaþættir hinnar hnattrænu hlýnunnar er losun CO2 af mannavöldum (sjá færsluna Áhrifaþættir hinnar hnattrænu hlýnunar):
Að gamni má samt benda á að ekki er allt sem sýnist varðandi gögnin sem myndin af jöklum Vestfjarða virðist byggja á:
- Glámufannirnar voru líklega aldrei jöklar og hvað þá svona stórt svæði. Í grein eftir Odd Sigurðsson (2004) segir: “Fyrirliggjandi gögn, einkum sú staðreynd að jökullinn var ekki á Glámu árið 1893, við lok eins kaldasta aldarþriðjungs íslandssögunnar þegar flestir eða allir jöklar landsins voru í hámarki, benda eindregið til þess að Glámujökull hafi ekki verið til sem slíkur á sögulegum tíma”.
- Drangajökull náði aldrei yfir þetta svæði sem sýnt er þarna. Í Jöklabók Helga Björnssonar (2009) stendur… “Sveinn Pálsson (1794) teiknaði hann [Drangajökul] allt of langt suður og á korti Björns Gunnlaugssonar (1848) nær hann suður á Steingsrímsfjarðarheiði svo að hann er sýndur tvöfallt stærri en hann var í raun og veru”. Þá er til nokkuð skýr mynd af því hvernig jökullinn leit út samkvæmt vísindamönnum, þegar hann var stærstur á Litlu Ísöld (Brynjólfsson o.fl. 2015).
Þó jöklarnir hefðu verið mikið stærri, þá skiptir það ekki máli – því öfugt við þær náttúrulegu breytingar sem voru í gangi í loftslagi fyrri alda, þá er hin hnattræna hlýnun nú nær eingöngu vegna aukinnar losunar CO2 af mannavöldum.
Ok og hin táknræna athöfn
Fyrr í haust var táknræn athöfn til að minnast þess að ekki sé lengur jökull á Ok. Sumum fannst það “…undarleg athöfn… jökullinn væri löngu horfinn” og að “… jökullinn hefði horfið vegna þess að Jörðin væri að koma út úr Litlu Ísöldinni”.
Reyndar hafa áður komið fram fullyrðingar um að hin hnattræna hlýnun sé vegna þess að Jörðin sé að koma út úr Litlu Ísöldinni og jafnvel hafa menn haldið því fram að yfirvofandi sé nýtt kuldaskeið (sjá Um yfirvofandi Litla Ísöld).
Það er vissulega ekki langt síðan okkar hluti jarðkringlunnar gekk í gegnum kuldatímabil sem kallað er Litla Ísöldin (hjá okkur má telja að hún hafi staðið frá um 1450-1900). Ekki er alveg eining um hvort þá hafi verið töluverð hnattræn kólnun eða lítilsháttar og að einhverju leiti staðbundin kólnun.
Það er þó ljóst að hitastig hafði farið hægt lækkandi allavega síðustu 2000 ár, sérstaklega á svæðinu umhverfis Norðurskautið (Kaufman o.fl 2009).
Þessi breyting á ásveltu jarðar, er einn anginn í svokallaðri Milankovitch sveiflu.* Hluti af niðursveiflunni sem varð rétt fyrir iðnbyltinguna má þó hugsanlega einnig rekja til virkni Sólar, mikillar eldvirkni og eflaust líka í tímabundnum breytingum í hafstraumum sérstaklega þá í Evrópu (sjá t.d. Orsakir fyrri loftslagsbreytinga til nánari útskýringa á hlut þessara þátta).
*Ásveltan (precession) veldur því að jörðina rekur til innan sporbaugsins. Um tíma er jörð í sólnánd þegar sumar er á norðurhveli, en 10 þús árum síðar er hún í sólfirð þegar sumar er á norðurhveli. Þetta þýðir að hámarks-inngeislun sólar er meiri að sumarlagi í fyrra tilvikinu og mesti sumarhiti einnig meiri.
Í stuttu máli má því segja að Jörðin hafi verið að kólna smám saman síðustu árþúsundin, sérstaklega á norðurslóðum og Litla Ísöldin er að öllum líkindum hluti af þeirri kólnun. Því er það ekki svo að Jörðin hafi verið að jafna sig eftir Litlu Ísöldina, heldur er hlýnunin til komin af völdum aukinnar losunnar CO2 af mannavöldum.
Okjökull lét undan vegna þessarar hlýnunar og því eðlilegt að tengja hvarf Okjökuls við hnattræna hlýnun af mannavöldum. Án þeirrar hlýnunar hefði Okjökull að öllum líkindum haldið áfram að vera til og jafnvel stækkað, miðað við hina langdrægu kólnun sem var að eiga sér stað (sérstaklega á norðurslóðum).
Það að jökullinn hefði verið fyrir löngu horfinn, er hægt að deila um. Það er þó ljóst að vísindamenn töldu jökulinn ekki lengur til jökla árið 2014 (sjá „Jökullinn“ Ok er ekki lengur jökull), en þá segir Oddur Sigurðsson um Okjökul og skilyrði til að teljast vera jökull:
„Það er í fyrsta lagi að vera nógu þykkir til að hníga undan eigin fargi og til þess þurfa þeir að vera 40 til 50 metra þykkir og því nær þessi jökull alls ekki“.
Íslenskir jöklar og loftslagsbreytingar
Íslenskir jöklar breytast í takt við loftslagsbreytingar og þó að hægt sé í sumum tilfellum að telja upp jökla sem voru minni t.d. á Landnámsöld (mögulegt er að Ok hafi ekki einu sinni verið til þá) eða stærri í byrjun síðustu aldar (líkt og flestir jöklar á Íslandi), þá er staðreyndin sú að þær breytingar urðu vegna náttúrulegra orsaka og voru breytingar í Sólinni og sporbraut jarðar mikilvirkastar (auk eldvirkni) síðustu árþúsundin.
Það felur samt ekki þá staðreynd að hin hnattræna hlýnun sem nú er, er vegna aukinnar losunnar CO2 út í andrúmsloftið af mannavöldum og við því verður að bregðast með öllum ráðum.
Heimildir og ítarefni:
Oddur Sigurðsson 2004: Gláma
Helgi Björnsson (2009): Jöklar á Íslandi.
Brynjólfsson o.fl. (2015): A 300-year surge history of the Drangajökull ice cap, northwest Iceland, and its maximum during the ‘Little Ice Age’
Kaufman o.fl. 2009: Recent Warming Reverses Long-Term Arctic Cooling
Um áhrifaþætti hnattrænnar hlýnunnar:
- Tett o.fl. 2000
- Meehl o.fl. 2004
- Stone o.fl. 2007
- Lean og Rind 2008
- Huber og Knutti 2011
- Gillett o.fl. 2012
Tengt efni á loftslag.is
Áhrifaþættir hinnar hnattrænu hlýnunar
Orsakir fyrri loftslagsbreytinga
Hjólastóllinn – ný heildarmynd
Leave a Reply