Um tímann og vatnið

Við hér á loftslag.is viljum gjarnan mæla heilshugar með sýningunni Um tímann og vatnið eftir Andra Snæ Magnason. Andri segir sögu sem rammar hvað við stöndum frammi fyrir á næstu áratugum og tengir það bæði fortíð og framtíð. Eftirfarandi lýsing er tekin af vef Borgarleikhússins:

Andri Snær Magnason

“Á næstu 100 árum mun jörðin okkar fara í gegnum breytingar sem eru stærri en tungumál okkar og myndhverfingar geta höndlað. Þessar yfirvofandi ummyndanir sprengja í raun skynjun okkar svo við heyrum bara eitthvað hvítt suð. Andri Snær Magnason ætlar að hjálpa okkur að sjá gegnum suðið og skilja stærðirnar með því að blanda saman persónulegum sögum, vísindum, minningum og hugmyndum um framtíðina. Þannig vefur hann fyrir okkur söguþráð sem er í senn ævintýralegur, alvarlegur og kannski með vonarglætu í lokin. Búðu þig undir ferðalag upp á Vatnajökul, þar sem við hittum Robert Oppenheimer, höfund kjarnorkusprengjunnar, leitum að uppruna lífsins og heyrum um frændann sem endurholdgaðist sem forsögulegur krókódíll áður en við förum á fund hjá heilögum manni sem lumar á svarinu við spurningunni um tilgang lífsins.”

Fram koma Andri Snær Magnason, Högni Egilsson og skólakór Kársnesskóla. Það má nálgast miða á vef Borgarleikhússins og næstu sýningar í Borgarleikhúsinu verða þann 12. og 26. nóvember.

Athugasemdir

ummæli

About Ritstjórn Loftslag.is

Ritstjórn Loftslag.is