Loftslagsafneitun með hjálp línurita, fyrri hluti.

Þekktur er íslenskur rafmagnsverkfræðingur sem heitir Ágúst H. Bjarnason er telur sig vera efasemdamann um hnattræna hlýnun af mannavöldum. Ágúst hefur í gegnum tíðina notað ýmis línurit til að mistúlka gögn og mælingar vísindamanna og hefur gert í áratugi. Bent hefur verið á að þeir sem mistúlka vísvitandi gögn og mælingar vísindamanna og telja sig vera þannig að efast um hnattræna hlýnun, eru í raun að afneita vísindagögnum og hafa í daglegu tali fengið á sig heitið loftslagsafneitarar (e. climate denialists).

Myndband sem útskýrir helstu einkenni vísindaafneitunar (e. science denial).

Nú nýlega birti Ágúst línuritasúpu í dreifiriti sem heitir Sámur fóstri (bls. 16-17), sjá einnig heimasíðu Ágústar sem virðist vera orðin að upplýsingaveitu fyrir loftslagsafneitara. Þar má sjá gömul og klassísk línurit sem notuð eru til að slá ryki í augu lesenda, í þeim tilgangi að þeir “efist” um loftslagsvandann sem við stöndum frammi fyrir. Með þessu ýtir Ágúst undir og hvetur til loftslagsafneitunar. Hér er fyrri hluti yfirferðar um línuritin sem hann birtir í sinni blaðagrein (seinni hluti birtist vonandi síðar ef tími gefst), texti undir myndum hans birtist hér eins og þær birtust hjá Ágústi.

Hitafrávik jarðar frá 1880 til dagsins í dag

Hér notar hann hnattrænt hitafrávik frá NASA-GISS gagnasafninu og telur að þar sé hitastigið ýkt.

Mynd 1:   Lóðrétti ásinn á líuritinu er þaninn gríðarlega mikið út. Um það bil einn millímetri á hitamælinum er stækkaður næstum 100 falt í 100 mm eða 10 cm.  Allur lóðrétti skalinn kæmist á milli tveggja 1° strika á venjulegum útihitamæli.

Hér er í grunninn mynd sem sýnir meðalhitafrávik til ársins 2014 (meðalhiti hnattrænn og sýnir ágætlega breytingar milli ára). Hann teiknar síðan skýringar inn á myndina til að villa um fyrir lesendum. Þar gefur hann til dæmis í skyn að þetta sé lítil sem engin breyting á hitastigi, af því að hitafrávikið kemst fyrir milli strika á venjulegum hitamæli. Þetta gæti verið dæmi um svokallaða Red herring rökvillu, en mælikvarði meðalhitans skiptir ekki máli og tekur athyglina frá mælingunum sjálfum. Hann gerir lítið úr þessari breytingu, en það sést vel hversu alvarlegar breytingar þetta eru, þegar á það er horft að það þurfti bara um 4°C hækkun hitastigs til að koma jörðinni úr ísköldu jökulskeiði ísaldar og yfir í hlýjasta skeið nútíma (e. climatic optimum).

Það skal bent á að mynd Ágústar nær ekki nema til ársins 2014 en næstu fjögur ár þar á eftir hafa öll verið mun heitari en öll árin fyrir árið 2014 (sjá mynd hér neðar).

Hnattrænn hiti frá 1880-2018 (NASA-GISS). Svarta línan sýnir árlegt meðalhitafrávik og rauða línan fimm ára meðaltal. Sjá upplýsingar um gagnasafnið í  Lenssen et al. (2019).

Eins og sést ef skoðað er nýtt línurit, án mistúlkana þá hefur hitastig haldið áfram að aukast og nú hafa menn þurft að teygja lóðrétta ásinn meir til að koma meiri gögnum fyrir. Fjögur síðustu árin ná ekki inn á mynd Ágústar – þrátt fyrir að þau gögn séu til og ber það vott um að notuð séu sérvalin gögn (e. cherry picking), enda munar alveg um fjögur heitustu ár síðan mælingar hófust (þannig að lóðrétti ásinn sem sýnir bara um 1,0°C mun er allt í einu kominn með lóðréttan ás sem sýnir 1,5°C).

Hitafrávik á nútíma (e. holocene)

Hægt er að áætla fornhitastig á yfirborði Grænlandsjökuls með því að skoða samsætur (e. isotopes) í ískjörnum jökulsins og hefur þannig fengist góðar vísbendingar um sveiflur í hitastigi við yfirborð jökulsins – sem dæmi eru stöðvarnar GISP (Greenland ice sheet project) og GRIP (Greenland ice core project). Ágúst notar GISP kjarna og niðurstöður vísindamanna sem rannsaka þá, en varar um leið við að hér sé um að ræða hitastig á Grænlandsjökli en ekki meðalhiti jarðar. Samt telur hann sig geta fullyrt að það sé “... ámóta hlýtt í dag og fyrir 1000 árum (Medieval Warm Period), allnokkuð hlýrra fyrir 2000 árum (Roman Warm Period) og töluvert hlýrra fyrir um 3000 árum (Minoan Warm Period)“.

Mynd 2:   Niðurstöður mælinga á ískjörnum fengnum úr rúmlega 3000 metra djúpri holu sem boruð var í Grænlandsjökul. Skammvinn hlýskeið á sögulegum tíma eru sýnd með grænu.  Takið eftir að lóðrétti skalinn vinstra meginn sýnir lofthitann á Grænlandsjökli, en lóðrétti skalinn hægra meginn sýnir áætluð frávik í hnattrænum meðal lofthita, sem er talinn helmingur af hitabreytingunni á jöklinum.

Fyrst skal ítreka viðvörunarorð Ágústar um að þarna er alls ekki um að ræða hnattrænt hitastig, heldur mjög staðbundið hitastig og því ekki hægt að setja sama sem merki milli þessa línurits og hitasveifla hnattrænt.

Því næst er rétt að benda á að þarna er að auki beitt sama bragð og við fyrstu myndina, þ.e. að sýna ekki nýjustu gögnin og gefa í skyn að búið sé að uppfæra gögnin til nútímans (sjá einnig: Að fela núverandi hlýnun). Hvernig annars ætti hann að geta fullyrt að hitinn í dag sé jafn mikill eða lægri en þessi fyrri tímabil (fyrir 1000, 2000 og 3000 árum)? Þegar gögnin eru skoðuð betur, þá kemur í ljós að þau ná eingöngu fram til ársins 1855, töluvert áður en hin hnattræna hlýnun byrjaði.

En hvernig hefur hitastigið breyst upp á Grænlandsjökli síðastliðin 160 ár eða svo? Í grein sem kom út árið 2009 (Jason E. Box 2009) og var fjallað um á Skeptical Science (Confusing Greenland warming vs global warming), var kannað meðal annars hvernig hitastig hefði breyst á Grænlandi frá árinu 1840-2007. Einn af stöðunum sem kannaður var, er þar sem GRIP ískjarnarnir voru boraðir, en það er eingöngu í um 28 km fjarlægð frá þeim stað sem GISP kjarnarnir voru boraðir og fyrrnefnt línurit sem Ágúst birtir er byggt á.

Hitastig á GRIP staðnum. meðalhitinn á GRIP staðnum frá 1850-1859 (blá lína) og 2000-2009 (rauð lína). Einnig má sjá hitastig fyrir 1847 og 1855 fyrir GISP (rauðir krossar).

Á GRIP hækkaði hitastig um 1,44°C frá miðri 19. öld og fram til fyrsta áratugs 21. aldar. Í ljós kemur að hitastigið á Grænlandsjökli í byrjun þessarar aldar var orðið sambærilegt við hitastigið fyrir um 2000 árum. Síðan þá hefur hert á hlýnuninni á Grænlandi (samanber frétt á RÚV frá því í sumar – Grænlandsjökull bráðnar mjög hratt). Það er því ljóst að þetta línurit sem Ágúst birtir, sýnir alls ekki það sem hann vill sýna – að það hafi verið hlýrra fyrir 1000, 2000 og 3000 árum heldur en í dag.

Til eru fjölmargar rannsóknir þar sem tekið hefur verið saman hnattrænt hitafrávik undanfarin nokkur þúsund ár (sjá t.d. Hokkíkylfa eða hokkídeild?). Sem dæmi má nefna Marcott o.fl. 2013, en þegar búið er að taka saman áætlað hitastig síðustu 11.300 ár og leggja nútímahitamælingar saman við, þá er nokkuð augljóst að núverandi hlýnun er geysilega hröð og nú þegar er hitinn orðinn meiri en nokkurn tíma áður á nútíma (e. holocene).

Alkul á Kelvin

Að gamni þá fylgir með næsta línurit Ágústar, þó honum geti ekki verið alvara:

Mynd 3:   Sé teiknaður hitaferill sem sýnir hlýnun jarðar frá alkuli í Kelvín-gráðum, þá sést ekki nein breyting. Svo lítil er hún.

En að öllu gamni slepptu, þá segir hann um hitamælingar að “… rétta aðferðin er að miða við Kelvin gráður og þá fæst 0,3% hækkun á síðastliðnum 150 árum“.

Miðaldir og Loehle

Um næsta línurit höfum við á loftslag.is áður fjallað um (sjá Miðaldir og Loehle). Á því línuriti ætlast Ágúst til að lesendur sjái glöggt að hlýnunin nú sé ekki búin að ná þeim hæðum sem að miðaldarhlýnunin náði. Þannig hefur hann náð að sannfæra ansi marga um að hlýnunin nú sé minni en á miðöldum.

Mynd 5:      Hnattrænar breytingar í meðalhita lofthjúps jarðar síðastliðin 2000 ár. 

Þess ber að geta að línuritið sem Ágúst notar er að öllum líkindum teiknað eftir óleiðréttu gögnum Loehle (Sjá leiðrétt gögn Loehle 2007).

En er þetta réttmæt mynd af hitastigi síðastliðinna tvö þúsunda ára ef miðað er við gögn Loehle? Áhugamaður um loftslagsbreytingar að nafni Rob Honeycutt, hafði samband við Loehle sjálfan og eftir töluverð samskipti þá afhenti Loehle honum hitagögn með sambærilegu vegnu meðaltali frá HadCRU (29 ára meðaltal) – til að framlengja línurit Loehle fram til loka síðustu aldar. Hann teiknaði það upp og fékk eftirfarandi mynd:

Svo virðist vera, að þrátt fyrir allt þá sé hlýnunin undanfarna áratugi einstök síðastliðin 2000 ár. Ef við síðan berum rannsókn Loehle  saman við önnur línurit þar sem metið hefur verið hitastig síðastliðin 2000 ár (Mann o.fl., Crowley og Lowery, Jones o.fl., Moberg og Shaolin o.fl.), þá sést að þrátt fyrir allt, þá er enginn vafi á því að hlýnunin nú er óvenjuleg – einungis er spurningin sú, hversu mikið meiri er hlýnunin nú en á miðöldum:

Þannig að þó notuð séu gögn Loehle (sem þykja byggð á of fáum gagnasöfnum), þá er ljóst að niðurstaðan er sú að hlýnunin nú er meiri en á miðöldum, sem er allt önnur mynd en Ágúst vill teikna upp af hitabreytingum síðustu 2000 ár.

Hafísútbreiðsla Norðurskautsins undanfarin árþúsund

Eitt af því sem vísindamenn nota til að sýna fram á að hnattrænt hitastig er að hækka, er hafísútbreiðsla Norðurskautsins. Árið 2017 birtist í Nature áhugaverð grein um breytileika í hafísútbreiðslu Norður-Atlantshafsins og birtist þar línurit sem sýnir breytileika í hafís norður af Íslandi síðastliðin 3000 ár (sjá North Atlantic variability and its links to European climate over the last 3000 years).

Mynd 6:  Útbreiðsla hafíss norðan Íslands síðastliðin 3000 ár.   Grein Paola Moffa-Sánchez & Ian R. Hall í Nature Communications 2017. Við erum stödd á ferlinum lengst til vinstri. Hafísinn hefur lengst af undanfarin 3000 ár verið mun minni en undanfarið. Litla ísöldin svokallaða sker sig þó úr.

Þetta línurit sýnir einungis breytileika á litlu svæði Norður-Atlantshafsins og því frekar vel útilátið að segja: “Að undanskilinni Litlu ísöldinni hefur hafís yfirleitt verið minni en í dag unanfarinn 3000 ár hið minnsta”.

Nákvæm gögn hafa verið söfnuð um útbreiðslu hafíss í um 40 ár byggð á gervihnattagögnum. Hægt er að sjá lengra aftur í tíman með svokölluðum vísum (e. proxy) sem sýna óbeint hvernig hafísútbreiðslan hefur verið í fortíðinni (samanber línuritið hér að ofan). Árið 2011 kom út grein þar sem rýnt var í vísa um fornútbreiðslu hafíssins á Norðurskautinu og nær það til hafíssútbreiðslu síðastliðna 1450 ára (sjá Kinnard o.fl. 2011 og umfjöllun loftslag.is um greinina Hafís Norðurskautsins síðastliðin 1450 ár).

Áhugavert er að skoða útlit línuritsins, en glöggir lesendur loftslag.is kannast kannski við útlitið – en það minnir mjög á hokkíkylfur sem orðnar eru fjölmargar (sjá Hokkíkylfa eða hokkídeild?).

Meiri óvissa er eftir því sem farið er lengra aftur í tíman – þá aðallega vegna þess að þau gögn sem nothæf eru fækkar. Engu að síður er augljóst að í lok tuttugustu aldar er niðursveiflan fordæmalaus – allavega síðastliðin 1450 ár – bæði hvað varðar magn og lengd tímabils.

Niðurstaða

Í þessari yfirferð hefur verið farið yfir fyrri hluta þeirra línurita sem fylgja nýlegri blaðagrein Ágústar H. Bjarnasonar um breytingu á meðalhita jarðar. Þar kemur glögglega fram mistúlkun og sérval gagna (e. cherry picking) sem eiga að hans mati að sýna hvernig núverandi hlýnun sé hverfandi í stóra samhenginu. Þannig sérvelur hann gögn sem sýna ekki hlýnunina undanfarin ár eða áratugi. En einnig birtir hann línurit sem sýna eingöngu mjög lítinn hluta hnattarins og þar með staðbundnar sveiflur í loftslagi sem segja ekkert til um hvernig loftslag er að breytast hnattrænt sem einnig er angi af því að sérvelja gögn sem passa rökunum. Mögulega má finna fleiri rökleysur, en greinilegt að sérvalin gögn eru í uppáhaldi hjá Ágústi.

Tengt efni á loftslag.is

Fimm einkenni loftslagsafneitunar
Eru vísindamenn ekki sammála?
Hafísinn ekki að jafna sig
10 loftslagsmýtur afhjúpaðar

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál