Frétt: Mikil bráðnun Grænlandsjökuls fyrir 6000-9000 árum

Ískjarnarnir sem rannsakaðir voru, komu frá sex mismunandi stöðum á Grænlandsjökli.

Staðsetning ískjarnanna sem rannsakaðir voru.

 Í nýlegri grein í Nature birtist önnur mynd af bráðnun Grænlandsjökuls en áður hefur verið talið, en hann er talinn hafa bráðnað mjög hratt þegar hitinn var sem hæstur á nútíma (e. Holocene climatic optimum – fyrir 6000-9000 árum síðan). Þeir telja þetta vera vísbendingu um að hlýnunin geti haft dramatískari afleiðingar en áður hefur verið talið.

Um er að ræða ískjarnarannsókn og ætlunin var að finna út hvernig fornloftslagsbreytingar gengu fyrir sig á Grænlandi. Á fyrrnefndu hlýindatímabili (e. holocene climatic optimum – oft kennt við birkiskeiðið fyrr hér á Íslandi) var óvenju hlýtt á jörðinni, sérstaklega á norðurhveli jarðar. Hingað til hafa ískjarnagögn bent til þess að þetta hlýindatímabil finnist ekki á Grænlandi og niðurstaðan hefur því almennt verið sú að Grænlandsjökull bregðist ekki hratt við aukningu hitastigs og að hann hafi jafnframt verið nokkuð stöðugur síðastliðin 12.000 ár.

Höfundar greinarinnar rannsökuðu og efnagreindu ískjarna á sex mismunandi stöðum á Grænlandsjökli og komust að því að þetta hlýindatímabil hafði einnig áhrif á Grænlandsjökul – hitinn á Grænlandi var þá um 2-3°C hærri en nú – en þá missti hann um 150 m af þykkt sinni og hopaði um allt að 200 kílómetra við jaðrana.

 Höfundar benda á að ef slík hlýnun verður í framtíðinni, þá sé líklegt að Grænlandsjökull muni missa jökulísmassa sinn hraðar en áður hefur verið talið – með tilheyrandi hækkunar sjávarstöðu, sem gæti orðið meiri og hraðari en áður hefur verið spáð.

Heimildir

Hægt er að lesa ágrip af greininni hér (en greinin sjálf er fyrir áskrifendur): Holocene thinning of the Greenland ice sheet

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál