Gestapistill: Er hafísinn á hverfanda hveli?

Undanfarin ár hefur athygli manna í auknum mæli beinst að Norður-Íshafinu enda er það sá staður á jörðinni sem hlýnandi loftslag hefur einna mest áhrif. Minnkandi ís á norðurpólnum hefur þar af leiðandi orðið ein af táknmyndunum fyrir loftslagsbreytingar af mannavöldum og neikvæðar afleiðingar þeirra. Jafnvel er hægt að segja að norðurpóllinn sé orðinn að einskonar vígvelli í umræðunni um loftslagsmál en um leið vopn í baráttunni um að sannfæra heimsbyggðina um þær loftslagsbreytingar sem eiga sér stað í heiminum.

Jákvæð eða neikvæð þróun?
Það eru líka skiptar skoðanir hvort íslaust Norður-Íshaf að sumarlagi hafi einhverjar alvarlegar afleiðingar í för með sér. Það getur auðvitað komið sér vel ef siglingaleiðir opnast norður fyrir Síberíu eða Kanada þótt það verði aldrei nema nema hluta af ári. Einnig gera sjálfsagt einhverjir sér vonir um að komast í hugsanlegar auðlindir á svæðinu. Það á síðan eftir að koma í ljós hvort vistfræðilegar breytingar verði jákvæðar eða neikvæðar í heild sinni. Áhyggjur manna af minnkandi hafís snúast hinsvegar ekki síst um svokallaða magnandi svörun (e. positive feedback). Á norðurslóðum byggist það á því að dökkur sjórinn gleypir í sig varma sólarinnar og hitnar í stað þess að hitinn endurkastist frá hvítum ísnum. Afleiðingin er þá enn meiri hlýnun við Norður-Íshafið sem eykur á annað vandamál sem er aukin metangaslosun vegna bráðnandi sífrera á norðurslóðum og þar af leiðandi enn aukin gróðurhúsaáhrif. Þó verður að hafa í huga að þegar liðið er svona seint á árið eru áhrif sólarinnar hverfandi þetta norðarlega og því gæti minni hafís á haustin allt eins leitt til aukins hitataps frá sjónum þangað til ísinn leggst yfir svæðið á ný yfir veturinn.

Þróunin síðustu ár
Einn besti mælikvarði á ástand hafísbreiðunnar er hið árlega útbreiðslulágmark í septembermánuði þegar sumarbráðnuninni lýkur og vetrarfrostin taka við. Að þessu sinni átti þetta útbreiðslulágmark sér stað í kringum 13. september og þá kom í ljós, eins komið hefur fram í fréttum, að útbreiðslan var hin þriðja lægsta frá því nákvæmar gervihnattmælingar hófust árið 1979. Þetta hefur hinsvegar verið túlkað á mismunandi hátt enda vilja sumir frekar benda á að hafísútbreiðslan hafi aukist annað árið í röð, sem er vissulega líka rétt. Hvernig sem þetta er annars orðað þá er staðreyndin sú að útbreiðsla hafíssins hefur farið minnkandi síðustu áratugi og þá sérstaklega að sumarlagi.
Árið 2007 sló sumarbráðnunin öll fyrri met, auk þess sem óvenjumikið ísmagn tapaðist út úr íshafinu vegna óhagstæðra ríkjandi vindátta fyrir ísinn. Sömu óvenjulegu aðstæður hafa hinsvegar ekki verið fyrir hendi síðustu tvö ár og því eðlilegt að hafísinn hafi eitthvað náð að jafna sig aftur. En það er ekki bara útbreiðslan sem þarf að horfa á þegar ástand hafíssins er metið. Samkvæmt nýjum fréttum frá Dönsku veðurstofunni, sem fylgist vel með ástandi íssins, hefur heildarrúmmál íssins aldrei verið minni en í nú ár í 30 ára sögu gervitunglamælinga, enda er ísinn orðinn mun þynnri og gisnari en áður var. Þynnri ís er þar að auki mun hreyfanlegri en sá þykki og gamli sem eykur líkurnar á því að hann brotni upp og berist frá pólnum til hlýrri svæða.

Íslaust íshaf að sumarlagi
Í rauninni er varla mögulegt að spá því með nokkru viti hvenær við getum átt von á allsherjar bráðnun íssins að sumarlagi. Þó að norðurpóllinn sjálfur nái því einn daginn að vera íslaus geta liðið mörg ár þar til við sjáum Norður-Íshafið íslaust í heild sinni en samkvæmt spám virðist sumarísinn hverfa síðast af svæðum norður af Grænlandi og Kanada. Einnig verður að gera ráð fyrir því að þegar og ef Norður-Íshafið nær því að loks að verða íslaust í fyrsta sinn, er ekki víst að það verði endanlegur atburður og öll sumur þar á eftir verði íslaus. Líklegra er að það verði stakur atburður í fyrstu vegna óvenjulegra aðstæðna, svipað og lágmarkið 2007 og einhver ár munu svo jafnvel líða þar til slíkt gerist á ný. Íslaust íshaf yrði svo í framhaldinu sífellt algengari atburður eftir því sem loftslag hlýnar.
Hvað sem annars má segja um framhaldið má líta svo á að hafíslágmarkið 2007 hafi gefið sterka vísbendingu um hversu viðkvæm ísbreiðan er orðin fyrir óhagstæðum skilyrðum. Það munu áfram koma ár sem eru kaldari en árin á undan, en svo lengi sem hlýnun til lengri tíma er í gangi, ætti að vera óhætt að spá íslausu Norður-Íshafi að sumarlagi, jafnvel innan nokkurra áratuga.

Hafíslágmörk 1979-2009

Hafísútbreiðsla á Norður-Íshafinu þann 15. september árin 1979, 1989, 1999, 2007, 2008 og 2009. Myndin er sett saman útfrá kortum sem hægt er að nálgast að á vefsíðunni, The Cryosphere Today (http://arctic.atmos.uiuc.edu/cryosphere/index.noshade.html).

Athugasemdir

ummæli

About Emil Hannes Valgeirsson

Emil Hannes Valgeirsson er áhugamaður um veður og loftslagsmál og hefur skrifað fjölda pistla um þau mál á bloggsíðum Mbl.is. www.emilhannes.blog.is