Það eru þrjár góðar spurningar sem gott er að hafa í huga þegar rætt er um loftslagsbreytingar og þá hnattrænu hlýnun jarðar sem vísindamenn telja að séu af mannavöldum:
- Er jörðin að hlýna?
- Veldur CO2 hlýnuninni?
- Er aukning á CO2 af völdum manna?
Ef hægt er að svara þessum spurningum játandi með sannfærandi vísindalegum hætti, þá hlýtur hver sá sem er vísindalega þenkjandi að komast að sömu niðurstöðu og mikill meirihluti vísindamanna: þ.e. að jörðin sé að hlýna vegna aukningar CO2 í andrúmsloftið af mannavöldum. Í síðustu bloggfærslu þá var sýnt fram á að við getum ekki annað en svarað fyrstu spurningunni játandi þ.e. jörðin er að hlýna. Í þessari bloggfærslu lítum við á spurningu tvö.
Veldur CO2 hlýnuninni?
Til að byrja með, þá gengur kenningin um gróðurhúsaáhrifin í stuttu máli út frá því að inn í lofthjúpinn koma geislar frá sólu og hafa þeir stutta bylgjulengd. Jörðin geislar frá sér hita á lengri bylgjulengd, sem gróðurhúsalofttegundirnar gleypa í sig, hitna við það og geisla bæði út í geiminn og aftur til jarðar. Við aukið magn CO2 þá geislast meira af langbylgjugeislum til jarðarinnar – jörðin hlýnar.
Gróðurhúsaáhrif CO2 hafa verið þekkt í yfir öld og hafa menn mælt þau samviskusamlega og skráð á rannsóknastofum. Eðlis- og efnafræði þeirra er því vel þekkt og viðurkennd. Samkvæmt kenningunni ættum við að búast við því, að við aukið magn CO2 í lofthjúpnum þá ætti hann að gleypa meira af langbylgjumgeislun frá jörðinni, þegar þeir kastast aftur út í geim. Sem sagt ef minna sleppur út í geim, þá kemur ekkert annað til greina en aukin gróðurhúsaáhrif.
Mæld hefur verið breyting á útgeislun langbylgja frá jörðinni á milli áranna 1970 og 1997. Gervihnöttur frá NASA (IRIS) mældi úgeislun árið 1970 og japanska geimferðastofnunin sendi annan gervihnött árið 1996 sem mældi meðal annars það sama. Við samanburð á útgeislun milli þessara ára fékkst eftirfarandi mynd:
Það kom því í ljós að útgeislun á vissum bylgjulengdum minnkaði á þessu 26 ára tímabili, á þeim bylgjulengdum sem að gróðurhúsalofttegundir, líkt og CO2 og metan (CH4) draga í sig orku. Breytingarnar voru í samræmi við kenningar um gróðurhúsaáhrif CO2. Það er því greinilegt að það eru til beinar mælingar á því að gróðurhúsaáhrif jarðar hafa aukist undanfarna áratugi.
Þær niðurstöður hafa fengist staðfestar með samanburðarrannsóknum annarra vísindamanna á þeim gögnum og gögnum frá öðrum gervihnöttum.
En gróðurhúsalofttegundirnar hitna við að gleypa langbylgjugeislana frá jörðinni og geisla einnig langbylgjugeislum. Því ættum við einnig að búast við aukinni langbylgjugeislun niður til jarðar við aukningu gróðurhúsalofttegunda. Það hefur einnig verið staðfest, langbylgjugeislar niður til jarðar hafa aukist og ekki nóg með það, heldur er búið að staðfesta hvaða gróðurhúsalofttegundir hafa mestu áhrifin.
Niðurstaða
Það er því nokkuð ljóst að búið er að staðfesta gróðurhúsaáhrifin með beinum mælingum. Það sem við vitum þá eftir spurningu 1 og 2 er að jörðin er að hlýna af völdum aukningar CO2 í andrúmsloftinu.
Næst verður fjallað um spurningu 3: Er aukning á CO2 af völdum manna?
Heimildarlisti og ítarefni
Greinin sem mældi aukningu í útgeislun langbylgjugeisla út í geim frá jörðinni: Harries o.fl. 2001 – Increases in greenhouse forcing inferred from the outgoing longwave radiation spectra of the Earth in 1970 and 1997.
Ein af greinunum um aukningu á langbylgjugeislum niður til jarðarinnar: Evans 2006 – Measurements of the Radiative Surface Forcing of Climate
Ítarlegri umfjöllun um greinarnar og aðrar greinar, má finna á Skeptical Science: How do we know CO2 is causing warming?
Það er einn nokkuð augljós galli á þessari sönnun hjá ykkur. Ég tek það fram að ég er ekki að segja að þetta geti ekki verið rétt.
Það er nokkuð vel rökstutt hérna að CO2 og fleiri lofttegundir valda hlýnun jarðar, EN það er ekki þarmeð sagt að þær valdi hlýnuninni sem um var fjallað í fyrstu greininni. Þ.e.a.s. þessar upplýsingar segja ekkert um það hversu mikið af hlýnuninni er tilkomið vegna gróðurhúsaáhrifanna. Eru gróðurhúsaáhrifin það mikil að jörðin væri að kólna án þeirra? Eða valda þau bara broti af hlýnun jarðar? Þetta eru að mínu mati stóru spurningarnar í þessu máli öllu saman og þeim er ekki svarað hér.
Kv. Eggert Jóhannesson
Það er rétt – Það er að hlýna og gróðurhúsaáhrifin eru að aukast, en það er samt ekki hægt að sanna að hlýnunin sé vegna þess að gróðurhúsaáhrifin eru að aukast.
Líkurnar eru samt yfirgnæfandi, sérstaklega í ljósi þess að sýnt hefur verið fram á að önnur náttúruleg ferli geta ekki verið að valda hlýnuninni. T.d. hefur sólvirkni minnkað frá því um 1985 og því ætti að vera kólnun í gangi ef önnur ferli væru stöðug heldur en sólvirkni. El Nino og önnur veðurfræðileg fyrirbæri geta haft einhver áhrif, en á svo löngum tímaskala eins og til eru hitamælingar, þá jafna þau sig út (stundum kólnun og stundum hlýnun af þeirra völdum). Eldgos hafa áhrif í stuttan tíma (nokkur ár) og þá til kólnunar – það er heldur ekki vegna skorts á eldgosum sem að það er að hlýna núna, því undanfarin 100 ár þá hefur tíðni þeirra verið nokkuð jöfn.
Það að önnur ferli útskýra ekki þessa hlýnun – auk þess sem eðlisfræði gróðurhúsaáhrifanna hafa verið sannreynd í rannsóknastofum, þá er erfitt að draga aðrar ályktanir en að jörðin sé að hlýna af völdum gróðurhúsaáhrifa.
Það er því líklegra að við séum ekki að sjá full áhrif þeirrar undirliggjandi hlýnunar sem er í gangi vegna gróðurhúsaáhrifa, vegna þess að náttúrulegar sveiflur t.d. í sólinni dempa þau áhrif. Ef virkni sólar tekur aftur kipp, þá hverfur þessi dempun og hlýnun getur rokið upp. Það má því eiginlega segja að ef ekki verður dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda þá séum við upp á náð og miskun sólarinnar komin – þ.e. við verðum að vonast til þess að hún haldist lítið virk.
CO2 er eitt nauðsynlegasta efnið sem maðurinn notar því það stýrir losun súrefnis frá rauðublóðkornum. Þegar það eykst í innöndunarlofti þá lostnar meira af súrefni og einstaklingurinn verður með meiri orku eða öðrum orðum aukin lífskraft, getur verið einn af stóru hlutunum í þeirri breytingu sem allt líf er að ganga í gegnu hér á jörðinni. hallgrímur
CO2 er nauðsynlegt, en líklega ekki í þessu magni sem nú er í andrúmsloftinu.
Tengdar færslur:
Mýta: Aukning CO2 í andrúmsloftinu er góð.
Er aukning á CO2 af völdum manna?
Hvernig getur CO2 sem er einungis 0.0383% af andrúmslofti jarðar verið að valda breytingum á hitastigi sem eru margfalt meiri en magn CO2 í andrúmsloftinu?
Ef CO2 er að valda þessari hlýnun myndi það þá ekki vera besta hitaeinangrunarefni sem til er í heiminum?
Teitur, ef gróðurhúsalofttegundanna nyti ekki við væri hitastig á jörðu um -18°C, s.s. 33°C lægri en það er í dag, þó svo magnið af þeim sé ekki meira en það er í andrúmsloftinu. Gróðurhúsalofttegundirnar eru margar og þær helstu eru t.d. CO2 (koldíoxíð), N2O (tví-nituroxíð) og metan (mun fleiri eru til, en þær eru í það litlu magni að þær hafa minni áhrif) og einnig er svo H2O gróðurhúsalofttegund. Áhrif gróðurhúsalofttegunda getur verið mikið þó svo magnið sé ekki mikið eins og sést á því að hitastigið er 33°C hærra en það væri án þeirra. Þ.a.l. telja vísindamenn að hægt sé að tengja aukið magn gróðurhúsalofttegunda við hækkandi hitastig.
Annars langar mig að benda á færslu um grunnatriði kenningarinnar hér á síðunum, þar er þessu líst nokkuð vel.
Takk fyrir svarið.
Í andrúmsloftinu er
N2O er 0.3 ppmv (0.00003%)
Metan er 1.745 ppmv (0.0001745%)
Þetta er nánast ekkert.
Hvaðan í veröldinni eru þessar 33°c teknar, hver fann þá hitatölu út?
Ok, tökum annan gír í pólinn.
N2 er 78.084% af andrúmsloftinu.
O2 er 20.946% af andrúmsloftinu.
Samtals er þetta 99.03% sem þýðir að efnin sem ráða hitanum á jörðinni eru 0.97% af andrúmsloftinu?
Það væri fínt Teitur ef þú myndir lesa tengilinn sem ég benti á í síðustu athugasemd. Þar er þetta útskýrt að nokkru leiti, einnig má benda á upplýsingar á Veðurstofunni um þetta, sjá hér. Það eru ekki allar gastegundir með sömu eiginleika, sumar eru gróðurhúsalofttegundir aðrar ekki. Þær sem þú nefnir þarna N2 og O2 eru ekki gróðurhúsalofttegundir og hafa þ.a.l. lítil áhrif á hitastig. Þessi vísindi hafa orðið til með m.a. mælingum og rannsóknum, þannig að talan 33°C er ekki tekin úr lausu lofti, t.d. má lesa um þetta hjá Ágústi Bjarnasyni.
Núna tel ég mig vera búinn að lesa mikið af þessum tenglum sem þú og Ágúst Bjarna gefið upp í heimildaskrá ykkar.
Samlíking við Venus er mjög vinsæl, að þar séu mikil gróðurhúsaáhrif og allt fari hér eins og fór þar. Og það er rétt að þar sé 460° hiti.
En ef við segjum að 1% (0.97%) sé gróðurhúsalofttegundir hérna og þær lofttegundir hækka hitann um 33 gráður eins og komið hefur fram.
Þá væri hitinn hérna 1% = 33° * 96,5 = 3.184,5 gráður.
(1% er sama sem 33 gráður. 33 gráður sinnum 96,5 sem er magn CO2 gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu á Venus. Þetta verða þá þrjúþúsund og eitt hundrað gráður.)
Þá á eftir að leiðrétta þann hita miðað við að Jörðin er lengra frá Sólu en Venus og loftþrýstingur er 92 falt meiri á Venus en á Jörðinni, sem eitt og sér getur útskýrt þennan gríðarlega hita.
Þessi útreikningar eru auðvita algjör þvæla! Það er ekki nokkur leið að bera saman Jörðina og Venus.
Það má jafnvel segja að þetta sé sitthvor plánetan
Ég hef ekki getað séð að þessi tala “33°” sé tekin úr mælingum eða prófunum, kenningum og hreinlega heimspekilegum pælingum.
Mig langar að undirstrika, það er ekki nokkur leið að CO2 sé að valda allri þessari hitaaukningu sem talað er um.
Það þarf ekki að vera eðlisfræðingur eða neitt sérstaklega menntaður, það dugar að hugsa þetta rökrétt.
Skemmtilegar pælingar varðandi Venus og Jörðina – en líklega full mikil einföldun hjá þér. Um lofthjúp Venusar má lesa á stjornuskodun.is.
Athugaðu einnig eitt, CO2 er ekki eina gróðurhúsalofttegundin hér á jörðinni og t.d. er vatnsgufa mikilvirk við hitun lofthjúpsins, ásamt öðrum gróðurhúsalofttegundum. Hér er verið að tala um gróðurhúsalofttegundirnar í heild – þó CO2 sé mikilvirkasta gróðurhúsalofttegundin í þeirri hlýnun jarðar sem nú er.
Varðandi töluna 33°. Þessi hitatala er reiknuð á einfaldan hátt og því mjög þekkt. Hún er fengin út með því að reikna hvað sólin hitar jörðina mikið upp miðað við þá orku sem kemur frá sólinni. Það er um 342W á fermetra – reiknað hefur verið út að 30% af þessari orku speglast aftur út í geiminn án þess að hita jörðina og því fara um 240W á fermetra í að hita jörðina. Hægt er að rekna út geislunarhita jarðarinnar sem er mælikvarði á hversu mikið sólin hitar jörðina og er hann um -18°C (sumir reikna með 31% endurspeglun og þá fæst -19°C). Nú er hiti jarðar að meðaltali um 15°C og því veldur lofthjúpurinn og þar með gróðurhúsaáhrifin um 33° hitun á jörðinni.
Hægt er að lesa meira um þetta í bók Halldórs Björnssonar, Gróðurhúsaáhrif og Loftslagsbreytingar en þar er farið nánar í þetta meðal annars.
Mér sýnist Teitur hér gera ráð fyrir því að tengls C02 og lofthita séu línuleg sem er ekki rétt því ef magn C02 margfaldast, þá margfaldast hitaaukningin ekki að sama skapi. Tengslin eru semsagt lógarithmísk sem þýðir að áhrif C02 til hitaaukningar eru sífellt minni eftir því sem magn CO2 eykst. Stundum er að vísu talað um að tengslin séu línuleg enda eru þau það nokkurn vegin á meðan aukningin á CO2 er svipuð og verið er að tala um á jörðinni. Það gengur allavega ekki að segja 33° x 96,5 og fá þannig út hitaaukningu.
Jamm, líklega rétt ályktað hjá þér Emil. Góð ábending.