Blogg: Veldur CO2 hlýnuninni?

Það eru þrjár góðar spurningar sem gott er að hafa í huga þegar rætt er um loftslagsbreytingar og þá hnattrænu hlýnun jarðar sem vísindamenn telja að séu af mannavöldum:

  • Er jörðin að hlýna?
  • Veldur CO2 hlýnuninni?
  • Er aukning á CO2 af völdum manna?

Ef hægt er að svara þessum spurningum játandi með sannfærandi vísindalegum hætti, þá hlýtur hver sá sem er vísindalega þenkjandi að komast að sömu niðurstöðu og mikill meirihluti vísindamanna: þ.e. að jörðin sé að hlýna vegna aukningar CO2 í andrúmsloftið af mannavöldum. Í síðustu bloggfærslu þá var sýnt fram á að við getum ekki annað en svarað fyrstu spurningunni játandi þ.e. jörðin er að hlýna. Í þessari bloggfærslu lítum við á spurningu tvö.

Veldur CO2 hlýnuninni?

Til að byrja með, þá gengur kenningin um gróðurhúsaáhrifin í stuttu máli út frá því að inn í lofthjúpinn koma geislar frá sólu og hafa þeir stutta bylgjulengd. Jörðin geislar frá sér hita á lengri bylgjulengd, sem gróðurhúsalofttegundirnar gleypa í sig, hitna við það og geisla bæði út í geiminn og aftur til jarðar. Við aukið magn CO2 þá geislast meira af langbylgjugeislum til jarðarinnar – jörðin hlýnar.

Gróðurhúsaáhrif CO2 hafa verið þekkt í yfir öld og hafa menn mælt þau samviskusamlega og skráð á rannsóknastofum. Eðlis- og efnafræði þeirra er því vel þekkt og viðurkennd. Samkvæmt kenningunni ættum við að búast við því, að við aukið magn CO2 í lofthjúpnum þá ætti hann að gleypa meira af langbylgjumgeislun frá jörðinni, þegar þeir kastast aftur út í geim. Sem sagt ef minna sleppur út í geim, þá kemur ekkert annað til greina en aukin gróðurhúsaáhrif.

Mæld hefur verið breyting á útgeislun langbylgja frá jörðinni á milli áranna 1970 og 1997. Gervihnöttur frá NASA (IRIS) mældi úgeislun árið 1970 og japanska geimferðastofnunin sendi annan gervihnött árið 1996 sem mældi meðal annars það sama. Við samanburð á útgeislun milli þessara ára fékkst eftirfarandi mynd:

Breytingar í útgeislun á mismunandi bylgjulengdum milli árana 1970 og 1996, vegna gróðurhúsalofttegunda (Harries 2001 - tekið af Skeptical Science).

Breytingar í útgeislun á mismunandi bylgjulengdum milli árana 1970 og 1996, vegna gróðurhúsalofttegunda (Harries o.fl 2001 - tekið af Skeptical Science).

Það kom því í ljós að útgeislun á vissum bylgjulengdum minnkaði á þessu 26 ára tímabili, á þeim bylgjulengdum sem að gróðurhúsalofttegundir, líkt og CO2 og metan (CH4) draga í sig orku. Breytingarnar voru í samræmi við kenningar um gróðurhúsaáhrif CO2. Það er því greinilegt að það eru til beinar mælingar á því að gróðurhúsaáhrif jarðar hafa aukist undanfarna áratugi.

Þær niðurstöður hafa fengist staðfestar með samanburðarrannsóknum annarra vísindamanna á þeim gögnum og gögnum frá öðrum gervihnöttum.

En gróðurhúsalofttegundirnar hitna við að gleypa langbylgjugeislana frá jörðinni og geisla einnig langbylgjugeislum. Því ættum við einnig að búast við aukinni langbylgjugeislun niður til jarðar við aukningu gróðurhúsalofttegunda. Það hefur einnig verið staðfest, langbylgjugeislar niður til jarðar hafa aukist og ekki nóg með það, heldur er búið að staðfesta hvaða gróðurhúsalofttegundir hafa mestu áhrifin.

Niðurstaða

Það er því nokkuð ljóst að búið er að staðfesta gróðurhúsaáhrifin með beinum mælingum. Það sem við vitum þá eftir spurningu 1 og 2 er að jörðin er að hlýna af völdum aukningar CO2 í andrúmsloftinu.

Næst verður fjallað um spurningu 3: Er aukning á CO2 af völdum manna?

Heimildarlisti og ítarefni

Greinin sem mældi aukningu í útgeislun langbylgjugeisla út í geim frá jörðinni: Harries o.fl. 2001 – Increases in greenhouse forcing inferred from the outgoing longwave radiation spectra of the Earth in 1970 and 1997.

Ein af greinunum um aukningu á langbylgjugeislum niður til jarðarinnar: Evans 2006 – Measurements of the Radiative Surface Forcing of Climate

Ítarlegri umfjöllun um greinarnar og aðrar greinar, má finna á Skeptical Science: How do we know CO2 is causing warming?

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál