Það eru þrjár góðar spurningar sem gott er að hafa í huga þegar rætt er um loftslagsbreytingar og þá hnattrænu hlýnun jarðar sem vísindamenn telja að séu af mannavöldum:
- Er jörðin að hlýna?
- Veldur CO2 hlýnuninni?
- Er aukning á CO2 af völdum manna?
Ef hægt er að svara þessum spurningum játandi með sannfærandi vísindalegum hætti, þá hlýtur hver sá sem er vísindalega þenkjandi að komast að sömu niðurstöðu og mikill meirihluti vísindamanna: þ.e. að jörðin sé að hlýna vegna aukningar CO2 í andrúmsloftið af mannavöldum. Í síðustu tveimur bloggfærslum þá var sýnt fram á að við getum ekki annað en svarað fyrstu tveimur spurningunum játandi þ.e. jörðin er að hlýna af völdum aukningar CO2 í andrúmsloftinu. Í þessari bloggfærslu lítum við á spurningu 3.
Er aukning á CO2 af völdum manna?
Fyrstu mælingar á magni CO2 í andrúmsloftinu voru gerðar af Charles Keeling árið 1958 á Hawaii. Sú mælistöð hefur lengstu samfellu í beinum mælingum á CO2 í andrúmsloftinu. Nú eru starfræktar mælistöðvar út um allan heim sem mæla CO2 í andrúmsloftinu, meðal annars er ein á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Til að áætla magn CO2 í andrúmsloftinu fyrir árið 1958 hafa menn efnagreint loftbólur í ískjörnum. Síðastliðin 10 þúsund ár hefur magn CO2 í andrúmsloftinu verið frekar stöðugt eða um 275-285 ppm, en undanfarin 250 ár hefur það aukist um sirka 100 ppm. Nú eykst magn CO2 í andrúmsloftinu um 15 gígatonn á hverju ári.
Hnattræn losun manna á CO2 er reiknuð út frá alþjóðlegum orkugögnum, þ.e. notkun á kolum, olíu o.sv.frv. frá öllum þjóðum heims á hverju ári. Þetta þýðir að hægt er að reikna hversu mikið við losum, ekki aðeins undanfarin ár heldur einnig aftur til ársins 1751 – en svo langt aftur ná gögnin. Nú er það svo að losun CO2 af mannavöldum er um 29 gígatonn á ári.
Með öðrum orðum, menn eru að losa næstum tvisvar sinnum meira CO2 heldur en að verður eftir í andrúmsloftinu. Náttúran hefur hingað til náð að binda stóran hluta af CO2 og er þar sjórinn hvað mikilvirkastur í því, með tilheyrandi súrnun sjávar.
Það sem staðfestir síðan að aukning á CO2 í andrúmsloftinu er vegna losunar manna, er efnagreining á CO2 úr andrúmsloftinu. Kolefnisatómið er gert úr mismunandi samsætum (e. isotopes), sem þýðir að það hefur mismunandi fjölda nifteinda. Kolefni 12 hefur 6 nifteindir, kolefni 13 hefur 7 nifteindir. Plöntur hafa lægra hlutfall á milli C13/C12 en andrúmsloftið. Ef aukið CO2 í andrúmsloftinu kemur frá jarðefnaeldsneyti þá ætti hlutfall C13/C12 að vera að lækka. Það er akkúrat það sem menn hafa verið að sjá og fellur það ágætlega saman við losun manna á CO2:
Niðurstaða
Það er því nokkuð ljóst að búið er að staðfesta að aukning CO2 í andrúmsloftinu er af völdum manna.
Það sem við vitum þá eftir spurningu 1-3 er að jörðin er að hlýna af völdum aukningar CO2 í andrúmsloftinu af völdum manna.
Heimildarlisti og ítarefni
Ítarlegri umfjöllun um efnið, má finna á Skeptical Science: Are humans too insignificant to affect global climate?
Einnig er góð umfjöllun á RealClimate: How do we know that recent CO2 increases are due to human activities?
Leave a Reply