Frétt: Vöxtur trjáa í takti við munstur geimgeisla

_46563046_sigriddengel2

Vísindamenn við háskólann í Edinborg, Skotlandi hafa fundið áhugaverða tengingu á milli vöxt trjáa og geimgeisla síðastliðna hálfa öld. Enn sem komið er hafa þeir ekki getað útskýrt þetta samband, en breytingar í geimgeislum hafði mun meiri áhrif á vöxt trjánna heldur en hitastig eða úrkoma. Þeir koma þó með sennilega tilgátu. Grein um málið birtist nýlega í tímaritinu New Phytologist og er þessi frétt að mestu byggð á þeirri grein – auk þess sem stuðst er við frétt BBC.

Vísindamennirnir rannsökuðu mánaðarlegan breytileika í vexti sitkagrenitrjáa frá Skotlandi sem uxu á tímabilinu 1953-2005. Eftir að venjubundin úrvinnsla var búin að fara fram (eyða eðlilegum vaxtahraðabreytingum trjánna – þau vaxa hægar með aldri), þá báru þeir saman vaxtarhraðann við ýmis veðurfarsgögn, þ.e. sólvirkni, hitastig, dreifða geislun (e. diffuse radiation), úrkomu, rakaþéttleika (VPD), skýjahulu og geimgeisla (e. cosmic ray flux):

Fylgni milli loftslagstengdra breytistærða og mánaðarlegs vaxtar sitkatrjáa á Skotlandi (Dengel o.fl. 2009).

Fylgni milli loftslagstengdra breytistærða og mánaðarlegs vaxtar sitkagrenis á Skotlandi (Dengel o.fl. 2009).

Eins og sjá má er fylgnin langmest milli vaxtar sitkagrenis og geimgeisla fyrir alla mánuðina, fylgnin er það mikil að líkurnar á að slík fylgni sé tilviljun ein er einungis 0,008. 

Geimgeislar eru í raun orkueindir, mest róteindir, en einnig rafeindir og kjarni frumeindarinnar helíum, sem streyma um geimin og koma inn í lofthjúp jarðar.  Magn geimgeisla sem ná jörðinni sveiflast upp og niður í öfugu hlutfalli við virkni sólar (sólbletta), 11 ára sveifla.

Geimgeislasveiflur (þykk lína) og vaxtarfrávik (þunn lína).  Merkt er inn óvenjuleg veðrafrávik sem höfðu áhrif á vöxt trjánna (I-IV). Dengel o.fl. 2009

Geimgeislasveiflur (þykk lína) og vaxtarfrávik (þunn lína). Merkt er inn óvenjuleg veðrafrávik sem höfðu áhrif á vöxt trjánna (I-IV). Dengel o.fl. 2009

 

Höfundar ræða hvað geti valdið þessari fylgni, en þar sem sýnt hefur verið fram á að fylgni milli geimgeisla og skýjahulu eru lítil, auk þess sem ekki getur verið um venjulega örðumyndun (e. aerosols) að ræða af völdum geimgeisla (þá hefðu önnur náttúruleg fyrirbæri yfirskyggt það, t.d. við eldgos), þá bjuggu þeir til nýja tilgátu, sem þeir kalla radiation-scattering effect – sem hægt er að þýða sem dreifgeislunaráhrif.

Í því felst sú hugmynd að trén nemi geislunaráhrif sem séu dreifð vegna arða sem geimgeislar myndi og að þessi geislunaráhrif verði ekki numin með venjulegum bylgjulengdarmælum sem nema einnig hávaða frá veðrakerfum og litrófsdreifingu ljóss úr lofthjúpnum. Samkvæmt þessari kenningu þá styrkja þessi dreifgeislunaráhrif ljóstillífun – þ.e.að dreifðari geislar vegna móðu auki ljóstillífun.  Þeir segjast þó ekki geta útilokað bein áhrif geimgeisla á vöxt planta eins og sumar rannsóknir benda til.

Það má áætla að upp muni spretta einhverjar deilur um þessa grein, sérstaklega frá þeim sem stundað hafa trjáhringjarannsóknir í sambandi við fornloftslag – en það verður áhugavert að sjá. Einnig er spurning hvort þetta hafi einhver áhrif á kenningar Svensmark, enda margt sem bendir til að ekki séu mikil tengsl milli geimgeisla og loftslags.

Heimildir

Dengel o.fl 2009 – A relationship between galactic cosmic radiation and tree rings

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál