Blogg: COP15 – Kaupmannahöfn nokkur lykilatriði

Merki COP15 í Kaupmannahöfn

Merki COP15 í Kaupmannahöfn

Við höfum áður fjallað um loftslagsfund Sameinuðu Þjóðanna sem verður í Kaupmannahöfn 7. – 18. desember næstkomandi (sjá COP15 – Kaupmannahöfn í stuttu máli). Hér verður farið yfir nokkur lykilatriði.

Um hvað fjallar loftslagsfundurinn í Kaupmannahöfn?

Fundur Sameinuðu Þjóðanna er lokadagsetning til að setja saman arftaka Kýótó bókunarinnar, sem hefur það að markmiðið að koma í veg fyrir að hlýnun jarðar verði verulega mikil. Hann verður í tvær vikur, frá 7. desember.

Hvað er málið?

Loftslagssérfræðingar eru sannfærðir um að menn verði að minnka losun á gróðurhúsalofttegundum og það hratt á næstunni. Til að mögulegt sé að halda hlýnun undir tveggja gráðu markinu, verður að minnka losun um 25-40% miðað við þá losun sem var 1990 fyrir árið 2020. Auk þess er miðað við að það þurfi að minnka losun um 80-95% árið 2050. Hingað til hafa flestar þjóðir heims haft lægri markmið en þessi.

Hverjir eiga að draga úr losun?

Fyrst er það helsta meginmálið. Iðnríki líkt og Bandaríkin, Bretland, Japan og fleiri hafa losað mun meira af kolefni út í andrúmsloftið og losa enn töluvert meira á hvert mannsbarn en aðrar þjóðir og þeim ber því siðferðisleg skylda til að draga meira úr losun. Á sama tíma eykst losun frá vaxandi hagkerfum líkt og Kína og Indlandi og mun það hafa töluverð áhrif á efnahagsþróun þeirra. Þessi ríki losa minna á hvern mann en iðnríkin og milljónir manna í þessum ríkjum eru fyrir neðan fátækramörk – sem dæmi þá eru 400 milljónir Indverja án rafmagns. Fyrir vikið geta Kína, Indland og önnur ríki fært rök fyrir því að þau þurfi meiri tíma til að þróast áður en kemur að minnkandi losun . Jafnvægi þarf því að gæta í skyldu hvers ríkis til að draga úr losun og um það snúast þessar samningaumleitanir.

Hverjir munu borga?

Bangladesh séð úr lofti. Bangladesh er láglent og því hefur sjávarstöðuhækkun mjög slæmar afleiðingar í för með sér fyrir það.

Bangladesh séð úr lofti. Bangladesh er láglent og því hefur sjávarstöðuhækkun mjög slæmar afleiðingar í för með sér fyrir það.

Hér er hitt meginmálið. Því er haldið fram að til lengri tíma litið þá munu hagkerfi sem losa lítið verða ódýrari í rekstri en þau sem brenna mikið af jarðefnaeldsneyti og skapa kjörið tækifæri til fjárfestinga. En til skamms tíma litið er talið líklegt að minni losun verði dýr. Menn eru sammála um að fátækari löndin þurfi hjálp. Einstaklingar frá ríkjum eins og Haiti, Súdan og Bangladesh hafa nánast ekkert losað af gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið en munu engu að síður verða verst úti vegna flóða og þurrka. Ríkari þjóðir munu þurfa að borga milljarða – sumir kalla það viðgerðarkostnaður fyrir skemmdir á loftslagi jarðar. Það mun einnig kosta töluverðar fjárhæðir að byggja upp hnattrænt kerfi hreinna orkugjafa til að koma í stað orku frá kola og gasorkustöðvum, sem á þátt í stórum hluta hnattrænnar losunar. Fyrir vaxandi hagkerfi, líkt og Indland, þá er nærtækt að fara beint í endurnýjanlega orkugjafa eða jafnvel kjarnorku. En þá væri einnig ætlast til þess að ríkari þjóðir myndu borga reikningin – ef ekki þá er lítil hvati til staðar til að stöðva uppbyggingu kolaorkustöðvar. Evrópusambandið telur að þetta muni kosta um 100 milljarðar bandaríkjadollara á ári frá 2020, en tölur hafa verið nefndar sem eru fjórum sinnum hærri. Að finna réttu upphæðina sem allar þjóðir sættast á er annað stórt atriði í samningaviðræðunum.

Hvað með verslun á kolefniskvóta?

Fræðilega séð, þá lítur það ekki illa út að þeir sem geta minnkað losun hratt megi selja þeim sem eru í erfiðleikum með losunarmarkmiðin. Hinsvegar má færa fyrir því rök að slíkir verslunarhættir séu í raun sniðnir að því að borga fátækari þjóðum fyrir að hreinsa upp eftir þau ríkari. Einnig að ef slík verslun á að fara fram með það að markmiði að draga úr losun, þá verður hámark losunarinnar að vera mjög lágt til að einhver árangur verði af því, auk þess sem að með þessu kerfi þá hafa hagsmunir Jarðarinnar vikið fyrir pólitískum hagsmunum. Þrátt fyrir það er líklegt að verslun á kolefniskvóta verði stór hluti af samningaviðræðunum í Kaupmannahöfn, líkt og það var í Kýótó.

Er auðveldara að minnka losun með því að stoppa eyðingu skóga?

Um 40% af losun manna á kolefnum hefur hingað til verið vegna skógareyðingar. Að stoppa eyðingu skóga er í raun og veru, ódýrt og einfalt: Ekki fella tré!  En að borga þjóðum – með kolefnis inneignum – fyrir að fella ekki tré verður fljótt flókið. Hver á í raun og veru trén? Átti að fella þau og hvernig er hægt að ganga úr skugga um að hvort þau voru síðan felld eður ei. Að finna lausn á þessu vandamáli er eitt af stóru atriðunum sem vonast er til að verði leyst.

Hverjir eru möguleikarnir á samningi í Kaupmannahöfn?

Samningaviðræður fyrr í mánuðinum sem fóru fram í Barcelóna voru árangurslitlar. Flestir búast við því nú, að ekki sé möguleiki á lagalega bindandi samkomulag á fundinum í Kaupmannahöfn. Talað er um að kraftaverk þurfi til. Forseti Bandaríkjanna, Barack Obama er nefndur sem líklegastur til að geta skapað undirstöðu fyrir góðu samkomulagi – en það er þó talið ólíklegt. Nú eru mestar vonir bundnar við að ekki sjóði upp úr og að þjóðir heims haldi áfram samningaumleitunum fram á næsta ár og að skrifað verði undir þá. Ef það sýður upp úr, þá geta undanfarin 20 ár fara í vaskinn og líklegt að áframhaldandi hlýnun jarðar haldi áfram óhindruð. Það er reyndar líka talið ólíklegt, en ekki jafn ólíklegt að fyrrnefnt kraftaverk.

Heimild

Þetta er að mestu lausleg þýðing á fréttaskýringu sem birtist á vefsíðu The Guardian og heitir: Copenhagen climate change summit: The issues

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál