Frétt: Austur-Suðurskautið líka að missa massa?

antarctic_dome_a_226Í nýjasta hefti Nature Geoscience sem er hliðarrit Nature, er bréf til tímaritsins um nýjar niðurstöður á úrvinnslu úr þyngdarmælingar með nýrri kynslóð gervitungla sem nefnist GRACE (Gravity Recovery and Climate Experiment). Hingað til hefur verið vitað að Vestur-Suðurskautið væri að missa massa hratt – en gögn hingað til hafa bent til þess að Austur-Suðurskautið væri tiltölulega stöðugt.

Þessar nýju rannsóknir benda til þess að Austur-Suðurskautið sé búið að vera að missa massa síðastliðin þrjú ár, en rétt er að benda á að óvissa er nokkuð mikil.  

Hér eru plottaðar saman massabreytingar Austur-Suðurskautsins og Vestur-Suðurskautsins eins og það var út árið 2005. Eins og sjá má, þá var Austur-Suðurskautið í jafnvægi, á meðan mikil bráðnun var á Vestur-Suðurskautinu.

Hér eru plottaðar saman massabreytingar Austur-Suðurskautsins (græn lína) og Vestur-Suðurskautsins (rauð lína) eins og það var út árið 2005. Eins og sjá má, þá var Austur-Suðurskautið í jafnvægi, á meðan mikil bráðnun var á Vestur-Suðurskautinu.

Til að hafa tölurnar á hreinu, þá þýðir algjör bráðnun Grænlandsjökuls og Vestur-Suðurskautsins um 6-7 m hækkun í sjávarstöðu, en Austur-Suðurskautið er talið geta valdið um 50-60 m hækkun í sjávarstöðu. Það býst þó enginn við að slík bráðnun geti orðið á næstu nokkuð hundrað árum, en þarna er þó komin vísbending um að þetta geti gerst hraðar en áður hefur verið talið.

 Samkvæmt þessari nýju úrvinnslu þá hefur Austur-Suðurskautið, frá 2006, verið að missa um 57 gígatonn á ári (reyndar er óvissan um 52 gígatonn á ári og því gæti þetta legið á bilinu 5-109 gígatonn á ári). Þetta er samt lítið miðað við það sem Grænlandsjökull og Vestur-Suðurskautið hafa misst undanfarin ár, en þær tölur eru um 270 og 130 gígatonn á ári.

gracedata_226x320

Það sem gerir úrvinnslu og túlkun á svona gögnum enn erfiðari en ella, er að jöklar á síðasta jökulskeiði ísaldar voru enn þykkari en þeir eru í dag og landið undir er að jafna sig af þeirri fargléttingu sem hefur orðið síðan þá og því að rísa. Annað sem gerir túlkun erfiða er sú klassíska spurning með gögn sem ná yfir svona stutt tímabil – eru þetta breytingar í veðri, reglubundin hegðun í jöklinum – eða loftslagsbreytingar?

 Massabreytingin virðist vera mest við ströndina, en ekki er ljóst hvað veldur því. Eitt er víst að ekki getur það verið vegna bráðnunar af völdum lofthita, því hitastig á þessum slóðum er töluvert fyrir neðan frostmark. Mögulegt er að einhverskonar tengsl við breytingar í sjávarstraumum eða veðrakerfum valdi aukinni bráðnun við ströndina, en enn ein tilgátan er að stöðuvötn undir jöklinum geti með reglubundnum hætti valdið einskonar neðanjökulshlaupum sem að smyrja undirlagið og valda hröðun jökulstrauma í átt til sjávar. Það er því alls ekki víst að um sé að ræða loftslagstengdan atburð.

Hver svo sem ástæðan er, þá er ljóst að það verður að fylgjast með þessu enn frekar því þetta gæti verið vísbending um að það geti farið að hitna í kolunum í bráðnun jökla og ef þetta heldur áfram í nokkur ár, þá er ljóst að möguleikar á mun hraðari sjávarstöðubreytingum eru inni í myndinni ef Austur-Suðurskautið fer að bráðna og missa massa í einhverju magni – það er þó ekkert við þessa rannsókn sem nægir til að draga svo dramatískar ályktanir.

Heimildir og ítarefni

Ágrip bréfsins til Nature Geoscience:  Accelerated Antarctic ice loss from satellite gravity measurements

Gestapistill Tómasar Jóhannessonar:  Jöklabreytingar og hækkun sjávarborðs heimshafanna

Um breytingar í sjávarstöðu:  Sjávarstöðubreytingar

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál