Alla síðustu viku þá var umræðan sterk í ýmsum bloggmiðlum og fréttamiðlum, bæði hér heima og erlendis, um að vísindamenn við Háskólann í East Anglia (CRU) hefðu stundað falsanir á loftslagsgögnum og hefðu fleira misjafnt í pokahorninu (sjá Blogg: Að stela bíl og nota fyrir sjónvarp).
Svo virðist sem þetta mál sé þannig að vexti að sumir telja að hægt sé að afneita heilli öld loftslagsrannsókna og afgreiða hlýnun jarðar af mannavöldum sem eitt risastórt samsæri. Því miður er það mikill misskilningur á því hvernig vísindin virka.
Þótt við þyrftum að henda öllu því sem þau hjá CRU hafa gert (sem ekkert bendir til) þá hefði það lítil sem engin áhrif á stöðu málanna í dag. Það eru aðrar stofnanir sem stunda loftslagsrannsóknir, t.d. má finna óháðar hitastigsmælingar á heimasíðu NASA, NOAA og JMA – sem sýna svipaða sögu og gögnin frá CRU.
Þetta eru ekki einu gögnin sem sýna að hitastig fer hækkandi, sem dæmi má nefna gögn um hörfun jökla, sjávarstöðubreytingar, úr ískjörnum, snjóalög, sjávarhita og hafísmælingar, svo við nefnum nokkur af þeim gögnum sem vísindamenn nota til að staðfesta hlýnun jarðar. Út frá þessum gögnum hafa þúsundir vísindamanna skrifað tugþúsundir greina um vandamálið: Hlýnun jarðar af mannavöldum.
Það verður að teljast ansi langsótt að vísindamenn séu búnir að fikta við öll þessi gögn og séu allir í einhverju stórkostlegu samsæri. Ef það kemur svo í ljós að vísindamenn CRU hafi átt við gögnin, þá er það vissulega ámælisvert fyrir þá vísindamenn – en það segir ekkert um alla hina.
Hér hefur verið safnað saman tenglum á öll helstu loftslagsgagnasöfn sem í boði eru: Data Sources
Í því samhengi er gott að rifja upp frétt frá því í síðustu viku, en þá kom út áhugaverð skýrsla um stöðu þekkingar á loftslagsbreytingum sem orðið hefur frá því að IPCC skýrslurnar árið 2007 komu út. Þessi skýrsla er unnin upp úr ritrýndum greinum og mikið af þeim gögnum sem vísað er í hér fyrir ofan voru notuð við gerð greinanna sem að skýrslan byggir á.
Hér eru nokkrar myndir úr skýrslunni, en þær tala sínu máli (ásamt texta).
Heimildir:
Skýrslan þaðan sem myndirnar voru fengnar má finna á heimasíðunni www.copenhagendiagnosis.com en hún er troðfull af fróðleik um loftslagsvísindin.
Sælir,
Þið skrifið:
“Það eru aðrar stofnanir sem stunda loftslagsrannsóknir, t.d. má finna óháðar hitastigsmælingar á heimasíðu NASA, NOAA og JMA – sem sýna svipaða sögu og gögnin frá CRU.”
Í ljósi þess sem stendur í HARRY_READ_ME skránum ( sjá t.d. hér þá er einmitt mikilvægt að fá á hreint hvaða gögn er verið að fjalla um þar og hvaða önnur gagnasett notfæra sér þau, annars er hætt við að öll hitastigsgagnasett verði dregin í efa.
Vitið þið hvaða gögn er verið að fjalla um í HARRY_READ_ME skránum og hvort að aðrar stofnanir hafi nýtt sér þau gögn ?
Það treystið ykkur allavega til að fullyrða að hitastigsmælingar hinna stofnana séu óháðar CRU. Eitthvað konkret hljótið þið að hafa fyrir ykkur í því, er það ekki ?
Linkurinn á ískjarnamælingarnar er ekki heppilegur það sem að ef þið fylgjið honum og smellið svo á Data þá er efsta gagnamengið einmitt frá CRU.
Þetta er annars fróðlegur og þarfur vefur hjá ykkur.
Kannski vanhugsaður tengill með tilliti til samhengisins – rétt hjá þér 🙂
En í samhengi yfirlýsinga þeirra sem gera hvað mest úr þessu máli, þá túlka þeir það sem svo að það sé ekki hægt að treysta hitafarsgögnum út af mögulegum fölsunum þessarar einu stofnunar. Punkturinn var því að það væri önnur gagnasöfn sem hægt væri að styðjast við.
Þessi gagnasöfn eru óháð hvoru öðru er ég viss um – allavega hvað varðar úrvinnsluaðferðir. En það er rétt, maður verður að passa sig á fullyrðingum – það er nóg af þeim úr hinni áttinni.