COP15: Leki, framlög, bið og barátta

Yfirlit dagsins

COP15-A-Haitian-delegatio-001Það var uppi fótur og fit á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn þegar skjöl sem lekið var, komu fram í dagsljósið. Þessi skjöl, eru talin vera drög að samningi sem þjóðarleiðtogar hafa átt að skrifa undir í næstu viku. Samkvæmt heimildum þá eru skjölin talin veita ríkari löndum meiri völd og á sama tíma setja Sameinuðu þjóðirnar á hliðarlínuna í framtíðarviðræðum um loftslagsmál. Einnig lítur út fyrir að í skjölunum sé þróunarlöndunum sett ólík takmörk varðandi losun kolefnis á hvern íbúa, miðað við ríkari lönd árið 2050. Þetta er talið hafa þá þýðingu að ríkari þjóðir geti losað u.þ.b. tvöfalt meira 2050, en þróunarlöndin. Hinn svokallaði Danski texti, var leynilegt skjal, sem aðeins einstaklingar í innsta hring ráðstefnunnar höfðu unnið að. Í þeim hópi eru m.a. lönd eins og Bretland, Danmörk og Bandaríkin. Aðeins þátttakendur frá örfáum löndum höfðu haft möguleika á að líta þennan texta augum, eftir að hann var kláraður nú í vikunni.

Samkomulaginu í skjalinu sem lekið var til the Guardian, sýnir frávik frá Kyoto bókuninni, en samkvæmt Kyoto áttu þær þjóðir sem í gegnum tíðina hafa losað mest af gróðurhúsalofttegundum, að skila meiri minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda en aðrar þjóðir. Samkvæmt skjalinu þá á Alþjóða bankinn (World Bank) að taka við stjórn fjárstuðnings vegna loftslagsbreytinga, en það er einnig breyting frá því sem var í Kyoto bókuninni.

Greining á skýrslunni, gerð af þróunarlöndunum, hefur komist í hendur the Guardian. Þessi greining sýnir fram á ýmislegt sem veldur þeim áhyggjum, þar á meðal eftirtaldir punktar:

  • Telja þróunarlöndin að neyða eigi þau til að samþykkja ákveðin losunartakmörk, sem ekki voru í fyrri skjölum
  • Flokka á fátækari lönd frekar, með því að búa til nýjan flokk sem kallaður er “þau mest berskjölduðu”
  • Veikja á áhrif Sameinuðu þjóðanna í að höndla fjármagn vegna loftlagsmála
  • Ekki á leyfa þróunarlöndunum að losa meira en 1,44 tonn af kolefni á ári á mann, fyrir 2050, á meðan ríkari lönd fá að losa 2,67 tonn

Þau þróunarlönd sem hafa séð textan eru sögð vera ósátt við hvernig staðið er að málinu, án viðræðna við þau.

Hægt er að lesa nánar um þetta mál á the Guardian, ásamt því að skoða skjalið sjálft hér. Það er spurning hvaða áhrif þetta hefur á viðræðurnar og hvort þetta skjal er eitthvað sem var hugsað sem uppkast að einhverskonar samkomulagi og svo hvort að þjóðirnar geti fundið lausn á málinu þrátt fyrir lekann á skjalinu. En væntanlega verður að telja líklegt að þetta muni hafa einhver áhrif á framgang mála. Samkvæmt þessari heimild, þá er skjalið 10 daga gamalt og gæti hafa tekið breytingum síðan þá.

Önnur helstu atriði dagsins, samkvæmt fréttaritara dr.dk Thomas Falbe:

1. Framlag Evrópubandalagsins til þróunarlandanna

Það var mikið rætt í dag, hversu mikið fjármagn Evrópubandalagið myndi útvega til að hjálpa þróunarlöndunum við að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga. Deilan snýst ekki minnst um það hvort peningarnir eigi að koma frá núverandi þróunaraðstoð eða með “nýjum leiðum”.

NGO samtök (nongovernmental organisations) reyndu að auka pressuna á Evrópusambandið, með gagnrýni varðandi það að Evrópusambandið hafi peninga til ráða, en skorti metnaðinn til að gera eitthvað í málunum. Þær fjárhæðir sem rætt er um yfir styttri tíma, eru 10 milljarðar Evrur á ári næstu fjögur árin. Þegar horft er lengra fram á veginn, þá þarf að tryggja hundruðir milljarðar dollara til þróunarlandanna til að takast á við áhrif loftslagsbreytinga til framtíðar.

2. Allir bíða eftir Bandaríkjunum

Dagurinn einkenndist einnig af því að allir biðu eftir því að Bandaríkjamenn legðu tölur á borðið. Það var þó almennt talið jákvætt merki þegar fréttir um að EPA, Umhverfisstofnun BNA, hefði óvænt krafist niðurskurðar á losun gróðurhúsalofttegunda í Bandaríkjunum. Ástæðan var sögð vera vegna þess að þær hefðu slæm áhrif á heilsufar Bandaríkjamanna. Þetta er talið vera merki til Bandaríkjaþings og fyrirtækja í Bandaríkjunum um að Obama vilji takmarka losunin koldíoxíðs.

3. Þróunarlöndin slást innbyrðis

Það þriðja sem Thomas Falbe telur að þurfi að leggja áherslu á í sambandi við daginn í dag, er að það lítur út fyrir að þróunarlöndin séu farin að slást um það fjármagn sem þau vona að komi í þeirra hlut við þessa samninga. Heimsálfan Afríka krefst þess að fá 50% af heildarfjármununum, á meðan talar sendinefnd Bangladesh um að það sé það land sem mest muni finna fyrir loftslagsbreytingum. Þeir krefjast því um 15% af því sem talið er að geti komið út úr samningunum. Í síðustu viku talaði sendinefnd Bangladesh um 10%, það hefur því orðið breyting þar á.

Annað:

Hér að neðan má sjá svokallað widget (gaman væri að fá íslenskt orð á þetta) sem sýnir hvernig samningaviðræðurnar ganga. Þetta tól er einhvers konar skortafla þar sem sýnt er hvernig talið er að hitsastig geti þróast til ársins 2100, við þrjár atburðarásir, 1) “viðskipti eins og venjulega”, 2) eins og samningurinn lítur út núna og 3) það takmark sem talið er að þurfi að ná, sjá nánar á climateinteractive.org. Þetta mun verða í hliðarstikunni á Loftslag.is á meðan á loftslagsráðstefnunni stendur. Það eiga að koma fram sjálfkrafa breytingar á því eftir því sem samningaviðræðurnar þróast.

Að lokum þá komu fréttir í dag af því að áratugurinn sem er að líða verði væntanlega sá heitasti síðan 1880. Þetta er að sjálfsögðu ekki fréttir fyrir okkur hér á Loftslag.is, sjá “20 heitustu ár frá 1880“, þar sem kemur fram að öll árin eftir 2000 eru á topp 10.

Athugasemdir

ummæli

About Sveinn Atli

Sveinn Atli: Fjölskyldumaður og áhugamaður um loftslagsmál.