Það sem aðallega situr eftir, við yfirlestur helstu frétta af loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn nú yfir helgina, eru fréttir af mótmælum og handtökum. Það hafa þó einnig staðið yfir stíf fundarhöld og ráðherrar ýmissa landa komu til Kaupmannahafnar til að taka þátt í ráðstefnunni, enda margir lausir endar sem þarf að ganga frá ef einhver von á að vera á því að samningar náist.
Helstu atriði helgarinnar af loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn:
1. Mótmæli og handtökur
Um helgina hafa verið mótmælagöngur um götur Kaupmannahafnar þar sem talið er að yfir 60.000 manns hafi tekið þátt, bara á laugardeginum. Á laugardag voru næstum 1.000 mótmælendur handteknir í stærstu aðgerðum dönsku lögreglunnar frá upphafi. Lögreglan fékk víðtækar heimildir til að framkvæma svokallaðar fyrirbyggjandi handtökur. Það hafa margir verið handteknir en fáir ákærðir og flestum hefur verið sleppt eftir varðhaldið. Það hefur komið fram hörð gagnrýni á vinnubrögð lögreglunnar, m.a. þar sem hluti þeirra handteknu á laugardeginum þurftu að sitja á kaldri jörðinni í langan tíma áður en þeir voru fluttir í hin svokölluð loftslagsfangelsi (d. klimafængsel). Mikil umræða hefur orðið í Danmörku um þessar aðgerðir lögreglu og sýnist sitt hverjum. Einnig hefur sú umræða náð í ýmsa fjölmiðla um allan heim.
2. Umhverfisráðherrar 48 landa hittust
Forseti COP15, Connie Hedegaard, hefur í dag fundað með loftslags- og umhverfisráðherrum 48 landa, þar sem samningaviðræðurnar á hinu pólítíska plani byrjuðu fyrir alvöru. Þessi fundur fór ekki fram í Bella Center, heldur í Eigtveds Pakhus, sem er við utanríkisráðuneytið. Það var því engin frídagur í dag og haft var eftir Connie Hedegaard í gærkvöldi að ekki væri tími til að taka frí frá viðræðunum, því annars næðist ekki árangur. Hún vildi með þessum fundi með loftslags- og umhverfisráðherrum, reyna að fá þá til að koma fram með áþreifanleg markmið fyrir framtíðarlosun CO2 í þeirra heimalöndum. Einnig á að byrja á viðræðum varðandi leiðir til fjármögnunar. Það er talið nauðsynlegt að sem mest af þessum atriðum verði afgreidd áður en þjóðarleiðtogarnir koma til fundarins á miðvikudag og fimmtudag.
3. Fulltrúar Afríku landa hóta að yfirgefa viðræðunar
Fulltrúar nokkura Afríku þjóða gáfu nú í kvöld til kynna að þjóðarleiðtogar þeirra myndu ekki taka þátt í lokadögum ráðstefnunnar, nema að marktækar framfarir yrðu á næstu þremur dögum. Lokaviðræður hefjast á næstu dögum, þegar þjóðarleiðtogar koma til Kaupmannahafnar til að vera í forsvari á lokadögum ráðstefnunnar. Hingað til hafa samningamenn þjóðanna ekki náð að semja um nokkur lykilatriði, eins og t.d. losunar markmið, langtíma fjármögnun og hvenær fátækari þjóðir eiga að byrja að minnka losun. Meira en 110 þjóðarleiðtogar koma til fundarins seinni part vikunnar, þar sem reynt verður að ganga frá samningum.
Myndband með aðalatriðum 6. dagsins samkvæmt COP15 á YouTube, má sjá hér.
Eldri yfirlit og ítarefni:
- Dagur 1 – Bætur, áskoranir og grátur
- Dagur 2 – Leki, framlög, bið og barátta
- Dagur 3 – Uppnám, þrýstingur og titringur
- Dagur 4 – Eyríki, varagjaldeyrisforði og samstaða
- Dagur 5 – Drög, miljarðar og mótmæli
- Samningsstaða hina ýmsu þjóða – Kröfur og væntingar þjóða
- Yfirlit varðandi loftslagsráðstefnuna – COP15
Hvað segið þið sjálfir, sem hafið nú skoðanir á ýmsu, um aðgeðrir lögreglunnar? Afhverju koma þær ekki fram? Til hvers er að vera með þennan hlutlæga front um þetta á síðu sem yfirleitt liggur ekki á skoðunum sínum? Ég geri svo reyndar ráð fyrir því að enginn Íslendingur, á ráðstefnunni, t.d. Svandís eða Árni Finnsson, muni segja eitt einasta orð um aðgeðrir lögreglunnar. Þögn er þar sama og samþykki. Í mínum augum er þetta skeytingarleysi um réttindi eða öllu heldur réttindaleysi fólks sem yfirvöld úthluta þeim þegar þeim hentar ekki síður hættulegt en hlýnun loftslagsins.
Umræðan um mótmælin og aðgerðir lögreglu er sá hluti þessarar ráðstefnu sem virðist hafa fengið mest pláss í fjölmiðlum um fundinn í Kaupmannahöfn. Hugmyndin hér er að segja frá því sem gerist á fundinum, óhjákvæmilega segjum við einnig frá mótmælum. En í þessum pistlum um COP15 erum við ekki að koma fram með okkar persónulegu skoðanir heldur að segja frá því sem þar fer fram, ásamt greiningu á stöðunni þar sem það á við. Í færslunni hér að ofan er t.d. sagt frá báðum hliðum mótmælanna: