Blogg ritstjórnar
Það eru uppi vangaveltur um þýðingu þeirra mistaka sem gerð voru hjá IPCC í 4. matsskýrslunni um loftslagsmál. Fyrir þá sem ekki þekkja til, þá kom fram mikilvæg villa í skýrslu vinnuhópis II (WG II) hjá IPCC. Villan er sú að þar er talað um að mögulega hverfi jöklar Himalaya fyrir árið 2035, nánar má lesa um þetta í færslunni, Jökla Himalaya og álitshnekkir IPCC.
En hvað gerðist eiginlega?
Það má segja að vinnuhópur II, sem skrifar skýrslu um afleiðingar loftslagsbreytinga, hafi gert þessi mistök. Þeir höfðu ekki ritrýndar heimildir fyrir skrifum sínum, eins og fram kemur í færslunni um málið. Eftir að þetta kom upp hefur orðið mikil umræða um störf Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna (IPCC). Þessi villa er m.a. í mótsögn við það sem t.d. kemur fram í skýrslu vinnuhóps I (WG I) um jökla Himalaya. Í vinnuhópi I eru sérfræðingar á hverju sviði sem stjórna skýrslugerðinni. Þar kemur m.a. fram að “Asian High Mts.” skera sig ekki úr hvað afkomu varðar, (Sjá t.d. mynd 4.15 í WG I) eða þá málsgrein á bls. 360 í WG I þar sem sagt er að háfjallajöklar í Asíu “have generally shrunk at varying rates”, auk þess sem nefnd eru dæmi um jökla sem hafa þykknað eða gengið fram. (sjá nánar athugasemd eftir Halldór Björnsson). Raunar er líka merkilegt að þessi villa hafi ekki komið upp fyrr, en ein ástæðan fyrir því gæti verið að þessi texti var djúpt grafinn í skýrslu vinnuhóps II og kom m.a. ekki fram í úrdráttum um þann hluta matsskýrslunnar.
Eins og fram kom í færslu okkar, þá mun þetta mál væntanlega hafa þau áhrif að efasemdarmenn fá byr í seglin:
Þetta mál á væntanlega eftir að gefa efasemdarmönnum byr í seglin, þar sem þeir munu væntanlega taka djúpt í árina og oftúlka merkingu þessa atviks. Jafnvel mun verða reynt að tengja þetta Climategate málinu svokallaða, þar sem ummæli vísindamanna í tölvupóstum voru oftúlkuð og rangtúlkuð í mörgum tilfellum og af ýmsum talin grafa undan sjálfum vísindunum, sem þó er fjarri lagi.
Það er mikilvægt að hafa í huga að matsskýrslur IPCC eru upp á ca. 3.000 bls. og það kemur fjöldinn allur af skýrsluhöfundum að gerð þeirra. Þessi mistök velta í sjálfu sér ekki loftslagsvísindunum, jörðin er því miður enn að hlýna og það mun væntanlega hafa einhverjar afleiðingar í framtíðinni, hvað sem um þessa meinlegu villu er hægt að segja.
Það er orðið ljóst a.m.k í sambandi við ártalið 2035 ( eða 2030 hjá J. Hansen ) sem árið sem jöklar Himalayafjalla yrðu horfnir, voru ekki nein mistök sbr aðalhöfund þess kafla “Prof Murari Lal admits, the inclusion of the year 2035 had not “crept in the report by mistake.”
Með öðrum orðum þetta var meðvituð ásetningslýgi, að öllum líkindum sett þarna til að svíkja út rannsóknarstyrki, en ekki slys eða mistök.
Ártalið sem IPCC setti í skýrsluna frá 2007 er algjörlega rangt, svo mikið er víst.
Þetta sem þú vitnar í þarna, er væntanlega “viðtal” David Rose við Prof Murari Lal, þar sem hann (ekki í fyrsta skipti) hefur rangt eftir sérfræðingi sem hann vitnar í, sjá t.d. í pistli þar sem þetta er skoðað nánar.