Tvær staðhæfingar
Tvær af þeim staðhæfingum sem hafa verið nokkuð áberandi meðal efasemdarmanna um hnattræna hlýnun hafa verið hraktar sem verandi alrangar og byggðar á óvönduðum vinnubrögðum.
Aðdragandi málsins er sá að tvær staðhæfingar um mælingar á hitastigi hefur verið haldið uppi af efasemdarmönnum (aðallega í BNA). Þessar tvær staðhæfingar eru:
- Að mikil fækkun í fjölda mælistöðva, fyrir hitastig, sem var gerð árið 1992 hafi leitt til rangrar hitaleitni (þ.e. að hitaleitnin hafi því sýnt meiri hækkun hitastigs en rétt sé)
- Að vinnsla gagna (leiðrétting gagna fyrir hverja mælistöð) hafi einnig leitt til rangrar hitaleitni.
Þessum staðhæfingum er m.a. haldið fram af þeim Anthony Watts og Joseph D’Aleo í skýrslu sem þeir birtu í síðasta mánuði. Í skýrslunni velta þeir ýmsu fram og staðhæfa ýmislegt, m.a. um þýðingu þess að fækka mælistöðvum og um vinnslu gagna.
Aðferðafræði við vinnslu gagna
Til að byrja með er væntanleg gott að skoða aðferðafræðina við að reikna hnattrænt meðaltal frá veðurstöðvum. Aðferðafræðin er í grunninn þrískipt:
- Skipta þarf jörðinni upp í reiti
- Reikna meðalhitabreytingu fyrir reitinn með því að nota allar stöðvar innan hans
- Reikna hnattrænt meðaltal allra reita.
Í 2. liðnum eru ýmis vandamál sem stafa af því að stöðvarnar í reitunum eru mismunandi, það eru göt í reitunum, stöðvarnar ná yfir misjöfn tímabil o.fl. Stórt vandamál er hvað gera skal við reiti þar sem fáar stöðvar eru.
Í 3. liðnum þarf að taka tillit til flatarmál reitsins, sem þarf að vera vegið meðaltal. Taka þarf ákvörðun um hvað gera á við reiti sem hafa göt, vegna vöntunar í mæliraðir.
Tamino
Í færslu eftir Tamino, á síðunni Open Mind, eru staðhæfingar efasemdarmannanna athugaðar. Það er svo sem ekki vitað hver Tamino er, en jafnvel er talið að hann sé stærðfræðingur. Það er oft vitnað í hann í loftslagsumræðunni og m.a. má finna tengingu á síðuna hans á heimasíðu RealClimate og einnig rakst ég á þessar upplýsingar um Tamino á loftslagssíðu Yale háskóla. Það má því segja að borin sé ákveðin virðing fyrir færslum hans á Open Mind síðunni. Tamino notar aðferð við að reikna ársgildin, svipað og útskýrt er hér að ofan, sem virðist virka vel varðandi ársgildi hitastigs.
Staðhæfingarnar athugaðar
Til að rannsaka 1. staðhæfinguna, reiknaði Tamino út hver munurinn á norðurhvelinu var fyrir þær mælistöðvar sem hætt var að nota eftir 1992 og þeim sem voru notaðar voru áfram eftir 1992, til að sjá hvort að það væri marktækur munur á leitni hitastigs á milli þessara tveggja þátta á öldinni þar á undan. Þannig á að vera hægt að sjá hvort líklegt væri að myndast hefði einhver skekkja við það að hætta að nota mælistöðvarnar.
Til að rannsaka 2. staðhæfinguna, reiknaði hann út meðalhitastig stöðva á norðurhvelinu með því að nota óleiðrétt gögn og bar það svo saman við leiðrétt meðalhitastig eins og NASA GISS notar, til að sjá hvort að það sé marktækur munur á leitninni, með eða án leiðréttinga eins og GISS notar.
Fyrst skulum við líta á samanburð á gögnunum fyrir og eftir lokun mælistöðva:
Það má sjá að það er smávægilegur munur á niðurstöðum þessara tveggja gagnasetta. Tamino reiknaði einnig mismun þessara gagnasetta. Hér má sjá munin á gögnunum fyrir og eftir lokun mælistöðva.
Með því að bera saman mismun á milli stöðvanna, má sjá að stöðvarnar sem var lokað sýna ekki fram á ranga hitaleitni – ef eitthvað er, þá sýna stöðvarnar sem notaðar voru áfram, aðeins minni hlýnun en þær sem hætt var að nota, þó svo munurinn sé ekki tölfræðilega marktækur.
Svo að staðhæfingunni um að leiðréttingar á hitastigsgögnum hafi leitt til falskrar niðurstöðu, þá er hér munurinn á norðuhvelinu, með því að nota óunnin gögn frá GHCN og bera það saman við leiðrétt gögn frá NASA GISS.
Enn og aftur hafa staðhæfingar efasemdarmanna sýnt sig að vera rangar. Leiðréttingar þær sem NASA GISS hafa frekar minnkað, heldur en aukið nýlega hlýnun.
Staðhæfingin um að fækkun mælistöðva beri ábyrgð á einhverri eða mestu af hitaleitni gagnanna undanfarna áratugi, er því samkvæmt athugun Tamino, algerlega og sannanlega röng. Staðhæfingin um að leiðrétting og vinnsla gagna eins og hjá NASA GISS hafi leitt til rangrar hitaleitni er einnig algerlega og sannanlega röng.
Niðurlag
En hvað segir þetta okkur um þær aðferðir sem sumir efasemdarmenn nota? Þarna virðast þeir Watts og D’Aleo hafa sáð efasemdum meðal almennra borgara, byggða á staðhæfingum sem ekki eiga sér stoð í raunveruleikanum. Spurningin er einnig hvort þeir hafi ekki gert þennan samanburð áður en þeir héldu þessum staðhæfingum fram. Ef þeir gerðu það og fengu þessa niðurstöðu (það bendir svo sem ekkert til að þeir hafi gert þennan samanburð), þá hafa þeir haft rangt við í að fullyrða um áhrif þessara þátta á leitni hitastigs í mæligögnum. Ef þeir hafa ekki framkvæmt þessa útreikninga en samt haldið fram þessum staðhæfingum þá hafa þeir einnig haft rangt við eða í besta falli ekki kunnað til verka. Það eru því óvönduð vinnubrögð, að mínu mati, að fullyrða um leitni hitastigs á þann hátt sem Watts og D’Aleo gera í skýrslu sinni, án þess að sýna fram á það með samanburði á mæligögnum eins og Tamino sýnir fram á. Tamino vinnur nú hörðum höndum að því að fá rannsókn sína birta í ritrýndu tímariti.
Ítarefni og heimildir:
Það hafa fleiri skoðað þetta á sama hátt og Tamino og komist að svipaðri niðurstöðu:
- The 1990’s station dropout does not have a warming effect
- A simple model for spatially weighted temp analysis
Vitið þið hvers vegna stöðvunum var fækkað árið 1992? Ætti það ekki að auka trúverðugleika hitastigsmælinganna ef stöðvunum væri fjölgað í stað þess að fækka þeim?
Mér finnst það til að byrja með ekki auka trúverðugleikann með því að fækka þeim. Í skýrslu Anthony Watts og Joseph D’Aleo kemur fram að um miðjan 7. áratug síðustu aldar voru fjöldi stöðva 6000. Í dag eru þær ekki fleiri en 1500. Þetta er svakaleg fækkun og ég sé ekki neina góða ástæðu fyrir því hvers vegna þeim var fækkað.
Karl: Bendi þér á færslu hér á loftslag.is sem heitir Af hverju eru færri veðurstöðvar og hver eru áhrif þess?, en þar segir meðal annars:
Ástæðan fyrir veðurstöðvunum sem “duttu” út, er einfaldlega sú að þær stöðvar voru ekki lengur virkar í söfnun hitastigsgagna. Það sem er aftur á móti mikilvægast í þessu sambandi er að stöðvarnar sem duttu út valda ekki falskri hækkaðri hitastigsleitni. Í raun þá er hið gagnstæða raunin, þar sem brottnám stöðva frá hærri breiddargráðum hefur í för með sér örlitla kólnunarleitni (miðað við öll gögnin) síðan 1880. Munurinn á hitastigsleitninni eftir 1970 er hverfandi.
Það er staðreynd að marktækur munur er á hnattrænu hitastigi mælt með gervitunglum annarsvegar og yfirborðsmælingar hinsvegar. Það er að segja ef maður á að trúa rannsókn sem gerð var af Klotzbach og fleirum en þar er skoðaður þessi munur. Yfirborðsmælingar sýna meiri hlýnun en gervitunglamælingar og sá munur hefur aukist síðustu tvo áratugi síðan gervitunglamælingar hófust árið 1979. Þá var lítill munur á mælingunum. Á bls. 12 í skýrslu Anthony Watts og Joseph D’Aleo er sýnd mynd sem sýnir þennan mun. Myndin sýnir 3 ferla, tvo ferla gerð með gervitunglagögnun og einn ferill sem sýnir yfirborðshitagögn.
Það sem gerir gervitunglagögnin trúverðug er að tvær óháðar stofnanir vinna gögnin en sýna samt mjög svipaða niðurstöðu, ferlarnir eru mjög svipaðir. En yfirborðsgögnin skera sig hinsvegar úr. Er það ekki ástæða til að trúa að einhver skekkja sé í þeim?
Sumir vísindamenn hafa spurt sig hvort yfirleitt er til eitthvað sem kallast hnattrænn meðalhiti. Hér má lesa meir um það. Athyglisverðar pælingar.
Það er mikilvægt að muna að gervihnattagögnin og hitamælingar við yfirborð eru að mæla mjög ólíka hluti. Í öðru tilvikinu er um beina hitamælingu að ræða, í hinu tilvikinu er mæld ljómun lofts á einhverju bylgjulengdabili. MSU mælir þannig ljómun súrefnisatóma á örbylgjusviðinu.
Ljómunin er hitaháð og reikna má hitann út. Niðurstaðan er samt meðalhiti tiltekinna laga í lofthjúpnum, nákvæmlega hvaða lög fer eftir því hvaða bylgjulengd verið er að skoða. Í MSU gögnunum mælir “kanall 2” áhrif í veðrahvolfi og neðri hluta heiðhvolfs, en Christie og félagar reikna líka s.k. 2LT hita sem á bara að vera meðalhiti í veðrahvolfi (en er umdeilt).
Þarna eru því ólíkum mælingum saman að jafna, og ekki skrítið að niðurstaðan sé ekki algjörlega sambærileg.
Gervihnattagögn (amk. RSS og UAH) sýna t.d. miklu meiri hlýnun vegna El Nino 1998 en mælingar á yfirborði.
Yfirborðsmælingarnar eru líka kapítuli út af fyrir sig, því gagnasöfn með mælingum á yfirborði koma frá 3 – 4 hópum (aðgengilegust eru GISS,CRU og NODC) og það er líka smávægilegur mismunur á niðurstöðum hópanna. Samantektirnar byggja þó á sömu gögnunum og munurinn stafar aðallega af ólíkum aðferðum í úrvinnslu.
Gagnasafnið sem þessar samantektir byggja á hefur því miður færri stöðvar eftir 1992, eins og fram kemur hér að ofan. Þó það hafi ekki teljandi áhrif á niðurstöðuna um langtíma hlýnun er þetta mjög bagalegt, því upplýsingar um staðbundnar breytingar tapast. Fækkun veðurstöðva í heiminum er vandamál. Þannig dró mjög úr gagnaskilum frá ríkjum gamla sovíetsins eftir að það hrundi, og á undanförnum árum eru sífellt færri stöðvar í Afríku.
Þó má nefna að lofthjúpsgreiningar (t.d. NCEP og ECMWF) nota öll aðgengileg gögn hverju sinni og þjást því ekki af meintum 1992 vanda í sama mæli. Í greiningar fara mun fleiri mælistaðir, auk þess sem greiningarnar nota líka gervihnattagögn ofl. Hvað yfirborðshita varðar ber greiningum og samantektunum ágætlega saman, þó finna megi frávik (sjá td.
http://www.vedur.is/loftslag/frodleikur/greinar/nr/1749).
Árum saman hefur verið deilt um hvort mismunur gervihnattagagnanna og yfirborðsmælinganna bendi til þess að önnur hvor gögnin séu röng (og einnig má þá deila um hver þeirra séu röng). Munur þessara gagna er þó minni núna en hann var áður. Grein Klotzbach og félaga er nýleg innlag í þessari deilu, en mun ekki valda straumhvörfum.
Þó deilt hafi verið á Klotzbach og félaga er grein þeirra hinsvegar ágæt vísindagrein, og umræður um hana verið að mestu leiti upplýsandi.
Pælingar Essex og co um það hvort meðalhiti sé til er hinsvegar vart hægt að ræða af viti. Þeir bera saman bein meðaltöl og meðaltöl veldisvísa (t.d. meðaltal T í fjórða veldi, en í jöfnum fyrir varðveislu orku í lofthjúpnum kemur T fyrir í fyrsta veldi og í fjórða veldi).
Þetta segir ekkert sérstaklega mikið um hvort hugtakið hnattrænn meðalhiti eigi rétt á sér. Það er að hlýna víðast í heiminum, og afleiðingar þess á nátturkerfi eru auðsæ. Jöklar að bráðna, sjávarhiti að hækka, gróðurfar að breytast osfrv. Frumspekilegar vangaveltur um merkingu (eða merkingarleysi) hnattræns meðalhita leiða ekkert.
Vil ég þakka Halldóri fyrir gott svar.
Halldór: “Þarna eru því ólíkum mælingum saman að jafna, og ekki skrítið að niðurstaðan sé ekki algjörlega sambærileg. Gervihnattagögn (amk. RSS og UAH) sýna t.d. miklu meiri hlýnun vegna El Nino 1998 en mælingar á yfirborði.”
Það er ljóst að um tvær ólíkar mælingar er að ræða. Hitamælingar við yfirborð jarðar mæla hitann beint en gervitunglin mæla ljómun súrefnisatóma í lofthjúpnum.
En af einhverjum ástæðum var munurinn á þessum tveimur mælingum talsvert minni við upphaf gervitunglamælinga árið 1979. Síðan þá hefur munurinn aukist og mynd 1 í grein Klotzbach og félaga má sjá að munurinn var orðinn 0,5 gráður árið 2008. Munurinn er því samkvæmt greininni ekki orðinn minni heldur meiri á tímabilinu.
Hver er ástæðan fyrir því að munurinn hefur aukist frá árinu 1979? Það er ljóst að verið er að mæla ólíka hluti, en ætti samt ekki að vera sama eða svipuð þróun í þessum ólíku gögnum, þ.e. að hlýna jafn mikið í báðum? Eru ekki gervitunglamælingar talnar vera mjög góðar til að mæla hnattrænan hita?
Karl Jóhann,
Ég held að þú sért kominn að kjarna málsins með spurningunni:
“Það er ljóst að verið er að mæla ólíka hluti, en ætti samt ekki að vera sama eða svipuð þróun í þessum ólíku gögnum, þ.e. að hlýna jafn mikið í báðum?”
Ef svarið er já, og hlýnun beggja er ekki eins þá er eitthvað að gögnunum (kerfisbundnar villur í öðru eða báðum)
Ef svarið er nei, þá má hugsa sér að þessar breytur þróist á ólíkan hátt (amk. innan skynsamlegra marka).
Samband yfirborðshita og hita í veðrahvolfi er ekki eins einfalt og maður gæti hugsað sér, Klotzbach og félagar ræða m.a. s.k. hitahvörf við jörð (night time inversions), en fleira mætti týna til. Ég þekki þetta ekki til hlítar, en finnst ekki að maður eigi að taka svarinu “já” sem sjálfgefnu.
(Taka má fram að þó svarið væri nei, gætu eftir sem áður verið skekkjur í gögnunum, – en það er önnur saga)
Umræðan hefur mjög mikið snúist um hvaða gögn séu “best” og gjarnan að “hin” gögnin séu villandi. Mér finnst þetta ekki auðgandi umræða, það sem skiptir máli er að reyna að skilja þá óvissu sem fylgir hverju gagnasafni, og síðan að skilja hvað þau segja okkur um eðlisfræði kerfisins. Mismunur gagnasafnanna (ef hann reynist raunverulegur) getur varpað nýju ljósi á orkujafnvægi neðri laga lofthjúpsins. Grein Klotzbach og félaga var skref í þessa átt. Ég held ekki að hún verði lokaorðið, en miðað við viðbrögðin sem hún fékk kemur vonandi eitthvað bitastætt í vísindarit þar sem þetta er greint frekar.
Kveðja
Halldór
Jæja litlu
bjánarnirmínir. Hvað segið þið svo um þetta: http://fullcomment.nationalpost.com/2010/06/13/the-ipcc-consensus-on-climate-change-was-phoney-says-ipcc-insider/Tillaga: Rífið hausinn úr rassgatinu á ykkur, bara svona til tilbreytingar.[Palli – höldum umræðunni á málefnalegum nótum – Ritstjórn loftslag.is]
Sæll Palli – vonandi tekurðu athugasemd okkar til greina næst þegar þú gerir athugasemd hérna – vinsamlega koma málefnalega fram…
Mike Hulme hefur sínar skoðanir á vinnulaginu hjá IPCC, ég tel að eitthvað sé til í gagnrýni hans, án þess að hafa lesið allt í hans gagnrýni. Þessi grein sem þú bendir á virðist ganga út frá einni setningu í grein Mike Hulme og félaga hans og virðist ekki leitast við að fá mikið samhengi í heildargagnrýni hans. Annars langar mig bara að benda á mýtu af loftslag.is, þar sem sagt er frá könnun varðandi loftslagsbreytingar sem gerð var meðal vísindamanna, sjá hér undir:
Mýta: Vísindamenn eru ekki sammála um að hlýnunin sé af mannavöldum
Ykkur er ekki viðbjargandi, enda bókstafstrúarmenn. Hérna er annað sem þið getið lokað augunum fyrir:
http://www.youtube.com/watch?v=FOLkze-9GcI
Takk fyrir Palli. Þetta er ekki svara vert þar sem þetta er ekki efnisleg athugasemd hjá þér. En þú gætir kannski tekið þig til og kynnt þér málflutning Bob Carter nánar og hans sérfræðiþekkingu á málinu.
Það má lesa meira um Bob Carter og kenningu hans um áhrif El Nino á hina hnattrænu hlýnun hér: Tengsl El Nino og langtíma hlýnunar hrakin
Farið í manninn,ekki boltann. Endurtakið möntruna ykkar aftur og aftur. Eins og ég segi: Ekki viðbjargandi.
Já og búið líka til líkneski af Al Gore sem þið getið tilbeðið, á meðan fyrirtæki í hans eigu er að rukka kolefnis-skattinn. Þetta lið getur logið hverju sem er að ykkur, enda eruð þið ekki með sjálfstæða hugsun.
[Palli – Enn og aftur langar mig að biðja þig um að vera málefnalegan – þú hefur skotið á okkur persónulega án þess að koma með neitt efnislegt – Sveinn Atli]
Palli, fyrst þú virðist sannfærður um að við förum með rangt mál hér á loftslag.is, þá skorum við á þig að skýra betur út af hverju það er, því í raun hefurðu ekki enn gefið það upp hvað það er nákvæmlega sem þú ert ósammála. Best væri ef þú gætir bent á einhverjar rannsóknir eða mælingar sem styðja þitt mál (ekki eitthvert youtube myndband). Við skulum síðan kryfja rök þín – ef þau eru efnisleg.
Ef ég pósta link á fyrirlestur hjá prófessor sem fer yfir dæmið, þá eru þau ummæli ekki málefnaleg, og youtube er svo mikill suddamiðill að það tekur því ekki að svara! …af hverju er maður að standa í þessu yfirleitt. Þið hafi sýnt það og sannað trekk í trekk að þetta eru trúarbrögð hjá ykkur, eins og öllum ykkar skoðanasystkinum.
Hefur hitastig ekki farið lækkandi síðustu 9-10 ár? Lækkaði hitastig ekki í áratugi eftir WW2, þar til ´75, þótt magn co2 hafi aukist gríðarlega. Sýna jöklakjarnboranir ekki greinilega að það er hitastig sem stýrir magni co2 en ekki öfugt? Hvað þarf marga Climategate til að afhjúpa ruglið? Formaður ICPP er rugludallur, skrifar bækur um ímyndaðan sjálfan sig á kvennafari, sem og að hann á fyrirtæki á Indlandi sem er að græða á tá og fingri á þessu. Al Gore og hans fyrirtæki. Er vatnsgufa ekki langstærsta, 95%, af öllum gróðurhúsalofttegundum, og sú langáhrifamesta?
…og þið getið alveg sleppt því að svara þessu. Ég hef séð ykkar ótrúlega langsóttu útskýringar á þessu öllu, sem sýnir og sannar að þetta eru trúarbrögð hjá ykkur. Þið kolgleypið lyginni með húð og hári. Fyrir nokkrum áratugum var álíka áróður í gangi en þá voru það aðvaranir við komandi ísöld. Þið hefðuð verið alveg jafn uppteknir af komandi ísöld ef það væri mantran. Það alheimskasta af öllu sem maður hefur heyrt er að sólin hafi lítil sem engin áhrif á þessi mál. Hvað þarf meira að segja??? Hafið þið heyrt um árstíðir? Sumar og vetur, og svoleiðis? Verður ykkur hlýtt þegar það er brakandi blíða og sólskin? Ekki ef einhverjir kolruglað fólk í útlöndum segir ykkur annað!
Málið er að þið sjáið það sem þið viljið sjá, og ekkert meira. Þið getið sýnt allan fjandann af vísindalíkönum sem sýna hitt og þetta. Það breytir engu því forsendurnar í öllum þessum líkönum eru ákvarðaðar til að gefa fyrirfram ákveðna mynd. Ef þið viljið segjast vera hugsandi menn þá þurfið þið að fara dýpra í málið.
(Og by the way, ef þið hafið áhuga á hættulegum lofttegundum þá ættuð þið að fylgjast með olíunni í Karabíska hafinu og öllum lofttegundunum sem eru að koma upp úr sjónum. Bíðum svo eftir næsta fellibyljatímabili þegar þetta fer allt inn á land. Spurning hvað þarf að rýma mikið, og hversu alvarlegar afleiðingarnar verða allar. Þetta mál er alvöru, ekki prump í lofti eins og þetta GlobalWarming-kjaftæði. (Fyndið og ekki skrýtið að þeir tala núna um ClimateChange en ekki GlobalWarming, enda flestir að sjá að þetta er mest allt tómt bull, nema þeir allra heilaþvegnustu eins og þið tveir))
[Palli – Það er ekki málefnalegt að uppnefna fólk og vera með upphrópanir um lygar en byggja það svo ekki á neinu áþreifanlegu – Sveinn Atli]
Það var kannski til of mikils mælst að biðja þig um að benda á rannsóknir og mælingar sem styðja þitt mál. Þú virðist ekki vilja ræða þetta málefnalega og reynir frekar að gera lítið úr því sem við segjum með upphrópunum sem eiga ekkert skilt við heilbrigða umræðu.
Mikið af punktunum sem þú nefnir höfum við fjallað um á þessum síðum hér og finnst okkur miður ef til eru enn þeir sem taka ekki mark á rannsóknum og mæligögnum. Mér virðist sem að þú sért ekki líklegur til að lesa það sem við skrifum, en ef einhver hérna heldur að þú hafir komið með góðan punkt gegn kenningunni um hlýnun jarðar mannavöldum, þá viljum við benda á þrennt hér á þessum síðum: Helstu sönnunargögn, Mælingar staðfesta kenninguna og Mýtusíðuna en þar er fjöldinn allur af mýtum hraktar – meðal annars nokkrar sem þú nefndir.
Eins og ég segi: Ekki viðbjargandi.
Haldið þið virkilega að það séu margir sem lesi allt þetta hjá ykkur og gleypi það jafn hiklaust og þið sjálfir? Sem betur fer ekki. Breytir engu hvað þið upphefjið ykkur sjálfa og þykist vera vísindalegir í þessu öllu. Bara dæmi: Ég póstaði link á prófessor sem fer yfir dæmið.. hvernig bregðist þið við? Þið hjólið í manninn en svarið ekki því sem hann ber á borð. Svo talið þið um hvað þið eruð málefnalegir?!?
Er að furða að maður er kominn með nóg af svona rugludöllum eins og ykkur. Sveinn, ég kalla þig
fávitaþví það er mín vísindalega niðurstaða eftir athuganir á ykkar málflutningi. Truth hurts. Live with it.[Palli (tjaningarfrelsi@hotmail.com) – Þetta er ekki svara vert en mun samt verða látið standa hér sem vitnisburður um ómálefnalegan málflutning þinn og upphrópanir – Sveinn Atli]
[Þar sem Palli telur að tjáningarfrelsinu sé best varið í það að ausa yfir okkur svívirðingum, þá höfum við lokað á hann þar til hann kemur með málefnalegar athugasemdir – Ritstjórn loftslag.is]
Palli: Ég hvet þig til að vera málefnalegur og í því samhengi vil ég bjóða þér að koma með einhvern einn punkt sem þú telur að styðji mál þitt öðru fremur. Ég minni þig einnig á að vísa í einhverjar rannsóknir (eða mælingar) máli þínu til stuðnings – því annars er til lítils að ræða þetta hér. Reyndu einnig að sleppa svívirðingunum, því annars verður athugasemdinni ekki hleypt í gegn.
Mike Hulme þótti ástæða til að svara fyrir sig eftir að grein Lawrence Solomon kom út, sama grein og Palli vitnar í þann 14. júní klukkan 10:02 PM. Svar hans má lesa á heimasíðu hans, og það lítur út fyrir að túlkun Solomon á orðum Hulme sé frjálsleg:
Í máli Hulme kemur m.a. eftirfarandi fram:
Sjá allt svar Hulme í tenglinum hér undir:
http://mikehulme.org/wp-content/uploads/2010/01/Correcting-reports-of-the-PiPG-paper.pdf